Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks greinar 8

1. gr. Markmið
Markmiðið með samningi þessum er að stuðla að því að fatlað fólk njóti allra mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við aðra, jafnframt því að vernda og tryggja slík réttindi og frelsi, og að auka virðingu fyrir meðfæddri göfgi þess.

3. gr. Almennar meginreglur.
Meginreglur samnings þessa eru eftirfarandi:

a) virðing fyrir meðfæddri göfgi, sjálfræði einstaklinga, þar með talið frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði þeirra,

b) bann við mismunun,

5. gr. Jafnrétti og bann við mismunun.
1. Aðildarríkin viðurkenna að allir menn eru jafnir fyrir lögunum og eiga rétt, án nokkurrar mismununar, á jafnri vernd og jöfnum hag lögum samkvæmt.

2. Aðildarríkin skulu leggja bann við hvers kyns mismunun vegna fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og nægilega réttarvernd gegn mismunun á öllum sviðum.

3. Aðildarríkin skulu, í því skyni að stuðla að jöfnuði og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.

4. Eigi ber að líta á sértækar ráðstafanir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram jafnrétti til handa fötluðu fólki í reynd, sem mismunun samkvæmt skilmálum samnings þessa.

6. gr. Fatlaðar konur.
1. Aðildarríkin viðurkenna að fatlaðar konur og stúlkur eru þolendur fjölþættrar mismununar og skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja að þær fái notið til fulls allra mannréttinda og mannfrelsis til jafns við aðra.

2. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að konur fái notið sín til fulls, geti sótt fram og hafi fullan frumkvæðisrétt, í því skyni að tryggt sé að þær geti nýtt sér og notið þeirra mannréttinda og mannfrelsis sem sett eru fram í samningi þessum.

8. gr.Vitundarvakning.
1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir:

a) til þess að vekja þjóðfélög til vitundar, m.a. fjölskylduna, um fatlað fólk og auka virðingu fyrir réttindum þess og meðfæddri göfgi,

b) til þess að vinna á móti staðalímyndum, fordómum og skaðlegum venjum sem tengjast fötluðu fólki, m.a. þeim sem heimfæra má til kyns og aldurs, á öllum sviðum mannlífs,

12. gr. Réttarstaða til jafns við aðra.
1. Aðildarríkin árétta að fatlað fólk eigi rétt á því að vera viðurkennt hvar sem er sem aðilar að lögum.

2. Aðildarríkin viðurkenni að fatlað fólk skuli njóta gerhæfis til jafns við aðra á öllum sviðum mannlífs.

14.gr.Frelsi og mannhelgi.
1. Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk:

a) njóti, til jafns við aðra, réttar til frelsis og mannhelgi,

b) sé ekki svipt frelsi sínu með ólögmætum hætti eða að geðþótta og að frelsissvipting í hvaða mynd sem er sé lögum samkvæmt og að fötlun skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu.

2. Sé fatlað fólk svipt frelsi með einhverjum hætti skulu aðildarríkin ábyrgjast að því séu tryggð mannréttindi til jafns við aðra í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og það hljóti meðferð sem samræmist markmiðum og meginreglum samnings þessa, meðal annars með því að tryggja því viðeigandi aðlögun.

17. gr. Verndun friðhelgi einstaklingsins.
Sérhver fatlaður einstaklingur á rétt á því, til jafns við aðra, að líkamleg og andleg friðhelgi hans sé virt.

23. gr. Virðing fyrir heimili og fjölskyldu.
1. Aðildarríkin skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir í því skyni að uppræta mismunun gagnvart fötluðu fólki í öllum málum sem lúta að hjónabandi, fjölskyldu, foreldrahlutverki og samböndum, á sama hátt og gildir um aðra, til þess að tryggja megi:

a) að réttur alls fatlaðs fólks, sem til þess hefur náð tilskildum aldri, til að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu, með frjálsu og fullu samþykki hjónaefnanna, sé virtur,

b) að réttur fatlaðs fólks til óheftrar og ábyrgrar ákvarðanatöku um fjölda barna og tíma milli fæðinga og til að hafa aðgang, þar sem tekið er tillit til aldurs, að upplýsingum og fræðslu um getnað og fjölskylduáætlanir sé viðurkenndur og að því séu tiltæk nauðsynleg ráð sem gera því kleift að nýta sér þennan rétt.

c) að fatlað fólk, þ.m.t. börn, fái haldið frjósemi sinni til jafns við aðra. - 14 –

2. Aðildarríkin skulu tryggja réttindi og ábyrgð fatlaðs fólks með tilliti til lögráða, forráða, fjárhalds eða ættleiðingar barna eða svipaðrar íhlutunar, þar sem þessi hugtök eru til í landslögum, og skal setja hagsmuni barnsins ofar öllu. Aðildarríkin skulu veita fötluðu fólki viðeigandi aðstoð við að uppfylla skyldur sínar sem uppalendur barna.

3. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum jafnan rétt með tilliti til fjölskyldulífs. Til þess að þessi réttur verði að veruleika og í því skyni að koma í veg fyrir að fötluðum börnum sé leynt, þau yfirgefin, vanrækt eða að þau séu þolendur aðskilnaðar skulu aðildarríkin skuldbinda sig til þess að veita fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra snemma alhliða upplýsingar, þjónustu og stuðning.

4. Aðildarríkin skulu tryggja að barn sé ekki tekið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra, nema lögbær yfirvöld ákveði, með fyrirvara um endurskoðun dómsvalds og í samræmi við gildandi lög og málsmeðferð, að slíkur aðskilnaður sé nauðsynlegur með hagsmuni barnsins að leiðarljósi. Barn skal aldrei taka frá foreldrum sínum vegna fötlunar barnsins eða annars foreldris eða beggja.

5. Aðildarríkin skulu reyna til þrautar, ef kjarnafjölskylda er ófær um að annast fatlað barn, að fá annan aðila innan stórfjölskyldunnar til þess að annast barnið og reynist það ekki unnt þá ráðstafa því til fjölskyldu innan samfélagsins.

25. gr. Heilsa.
Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta góðrar heilsu að hæsta marki sem unnt er án mismununar vegna fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu sem tekur mið af kyni, m.a. heilsutengdri endurhæfingu. Aðildarríkin skulu einkum:

a) sjá fötluðu fólki fyrir heilsugæslu og heilbrigðisáætlunum, sem eru ókeypis eða á viðráðanlegu verði og eins að umfangi, gæðum og á sama stigi og gildir fyrir aðra einstaklinga, m.a. með tilliti til kynlífs- og frjósemisheilbrigðis og að því er varðar samfélagsáætlanir á sviði lýðheilsu