Umsögn landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að tillögu til þingsályktunar um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.

 Umsögn landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að tillögu til þingsályktunar um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.

 Fulltrúi Landssamtakanna Þroskahjálpar tók þátt í gerð draga að þingsályktuninni og þakka samtökin fyrir að hafa fengið tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri með þeim hætti.

Samtökin telja að verði þingsályktunartillagan samþykkt muni sú stefna og áætlun um framkvæmdir sem þar er sett fram verða mikilvægt tæki fyrir hlutaðeigandi stjórnvöld til að vinna markvissar að því að tryggja fötluðu fólki þau réttindi og þá þjónustu sem það á að njóta samkvæmt lögum og mannréttindasamnignum sem íslenska ríkið hefur skuldbundið sig til að framfylgja. Þá mun stefnan og áætlunin einnig gagnast fötluðu fólki og samtökum þess til að veita hlutaðeigandi stjórnvöldum aðhald hvað það varðar.

Samtökin leggja þó áherslu á að þess verði mjög vel gætt að þau verkefni og aðgerðir sem ráðast á í samkvæmt áætluninni verði nægjanlega fjámögnuð og með skýrum hætti og að ábyrgð á framkvæmd þeirra og eftirliti með henni verði skýrt skilgreind og ljóst verði hvernig við skuli brugðist þegar framgangur verkefna og aðgerða er ekki ásættanlegur.

Þá leggja samtökin mikla áherslu á að hlutaðeigandi stjórnvöld líti alls ekki svo á að framkvæmdáætlunin uppfylli allar skyldur sem þau hafa tekið á sig til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að lög, reglur, stjórnsýsluframkvæmd og þjónusta í landinu verði í fullu samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið hefur fullgilt og þar með skuldbundið sig til að virða og framfylgja.

 Tillaga um viðbót við framkvæmdaáætlunina:

Í 9. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna sem ber yfirskriftina Aðgengi eru ákvæði um skyldur ríkja til að grípa til aðgerða og ráðstafana til að tryggja aðgengi fatlaðs fólks, þ.m.t. að upplýsingum. Þar segir:

Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang til jafns við aðra að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, að upplýsingum og samskiptum, þar með talið upplýsinga- og samskiptatækni og kerfi þar að lútandi, og að annarri aðstöðu og þjónustu sem veitt er almenningi, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Fyrrnefndar ráðstafanir, sem skulu meðal annars felast í því að staðreyna og útrýma hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi, skulu meðal annars ná til:

...

f) auka við að fatlað fólk fái notið annars konar viðeigandi aðstoðar og þjónustu sem tryggir því aðgang að upplýsingum.

Ljóst er að fólk með þroskahömlun á vegna fötlunar sinnar oft mjög erfitt með að lesa og skilja texta sem ekki er sérstaklega saminn og orðaður með þarfir þess og aðstæður í huga. Það takmarkar augljóslega verulega aðgang þess að samfélaginu og tækifæri til „að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins“, eins og er markmið með samningi Sameinuðu þjóðanna, sbr. m.a. framangreind ákvæði hans varðandi aðgengi.

Með vísan til þess sem að framan er rakið leggja landssamtökin Þroskahjálp til að í framkvæmdaáætlun þar sem fjallað er um aðgengi með það að markmiði að „fatlað fólk hafi aðgengi að samfélaginu til jafns við aðra“ verði eftirfarandi bætt við:

Miðstöð fyrir auðlesinn texta.

Markmið: Að auka notkun auðlesins texta fyrir fólk með þroskahömlun.

Lýsing: Sett verði á stofn miðstöð þar sem veitt verður ráðgjöf og þjónusta fyrir alla þá sem óska að semja og senda frá sér auðlesinn texta. Miðstöðin gegni sambærilegu hlutverki gagnvart fólki með þroskahömlun og Samskiptamiðstöð fyrir heyrnarlausa hefur gagnvart döff fólki og Þjónustu og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga hefur gagnvart fólki með sjónskerðingar.

Ábyrgð: Velferðarráðuneytið.

Dæmi um samstarfsaðila: Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins, mennta- og menningarmálaráðuneyti, Háskóli Íslands menntavísindasvið, Átak félag fólks með þroskahömlun og Landssamtökin Þroskahjálp

Tímabil:

Kostnaður:

Mælanleg markmið: Miðstöð fyrir auðlesinn texta hefji starfsemi,.

 Reykjavík, 16. desember 2016.

 

Virðingarfyllst,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri.

 

Hér má lesa tillögu til þingsályktunar hjá Velferðarráðuneytinu