Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um stjórn lögreglurannsókna og samvinnu héraðssaksóknara og lögreglustjóra við rannsókn sakamála.

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um stjórn lögreglurannsókna og samvinnu héraðssaksóknara og lögreglustjóra við rannsókn sakamála.

                                                                                                                             

Hér á eftir fara nokkrar ábendingar sem Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma á framfæri við innanríkisráðuneytið og önnur hlutaðeigandi stjórnvöld varðandi ofbeldi gegn fötluðu fólki og skyldu ríkisins til að tryggja fötluðu fólki aðgang að réttarkerfinu og vernd réttarkerfisins til jafns við aðra. Samtökin telja að líta beri mjög til þessara skyldna og eftirfarandi sjónarmiða við setningu reglna um lögreglurannsóknir og framkvæmd þeirra.

Þar sem vísað er til samnings SÞ hér á eftir er átt við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið hefur fullgilt og þar með skuldbundið sig til að tryggja að íslensk lög, reglur og stjórnsýsluframkvæmd samræmist ákvæðum samningsins og uppfylli kröfur hans.

Almennt um ofbeldi gegn fötluðu fólki og skyldur ríkisins.

Það er grundvallarskylda stjórnvalda í réttarríki þar sem stjórnvöld hafa skuldbundið sig til að tryggja fólki mannréttindi án mismununar að gera það sem í valdi stjórnvalda stendur til að verja fólk fyrir ofbeldi.

Til að standa undir þessari grundvallarskyldu sinni þurfa stjórnvöld að tryggja að lög, reglur, stjórnsýslan, löggæslan og annað opinbert eftirlit, ákæruvald og dómskerfi virki þannig að þeir sem veikari stöðu hafa njóti verndar gegn ofbeldi, til jafns við aðra þjóðfélagsþegna.

Í þessu samhengi þarf að sjá og ræða ofbeldi gegn fötluðu fólki. Og í þessu samhengi þarf að greina lög og reglur, stjórnsýsluna og réttarkerfið til að tryggja að það veiti fötluðu fólki vernd gegn ofbeldi, til jafns við aðra.

Samningur SÞ leggur sérstaka áherslu á  skyldur stjórnvalda til að verja fatlað fólk fyrir ofbeldi og mismunun, sbr. 16. og 5. gr. samningsins.  Í 16. gr. samningsins segir m.a.:

Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir á sviði löggjafar, stjórnsýslu, félags- og menntamála og aðrar ráðstafanir í því skyni að vernda fatlað fólk, jafnt innan heimilis sem utan, fyrir hvers kyns misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum, meðal annars með hliðsjón af kynbundnum þáttum slíkra athafna. 

 Ofbeldi gegn fötluðum konum.

Hvarvetna í heiminum eru fatlaðar konur beittar mismunun af ýmsu tagi. Þess vegna þótti nauðsynlegt að árétta sérstaklega í samningi SÞ skyldu ríkja til að viðurkenna það og gera ráðstafanir til að „tryggja að fatlaðar fái notið til fulls allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til jafns við aðra“, sbr. 6. gr. samningsins.

Ýmis mál hafa komið upp í íslensku samfélagi fyrr og síðar sem sýna og sanna svo ekki verður um villst að það er afar brýnt viðfangsefni hér á landi að bæta vernd fatlaðra kvenna gegn ofbeldi með vönduðum lögum og markvissri stjórnsýsluframkvæmd.  Í þessu sambandi vísast m.a. til nýlegrar umfjöllunar fjölmiðla um kynferðilslegt ofbeldi gegn konum með þroskahömlun og ákvarðana ákæruvalds og niðurstaðna dómstóla í málum þar sem konur með þroskahömlun hafa kært slík brot. Það er brýnt að ríkið geri allt sem í þess valdi stendur, m.a. og ekki síst á sviði reglusetningar, til að tryggja fötluðum konum vernd gegn ofbeldi til jafns við aðra.

 Aðgangur fatlaðs fólks að réttarkerfinu og rétturinn til að njóta verndar þess til jafns við aðra.

13. gr. samnings SÞ ber fyrirsögnina Aðgangur að réttarkerfinu og hljóðar svo:

1. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu til jafns við aðra, meðal annars með því að laga málsmeðferð alla að þörfum þess og taka tilhlýðilegt tillit til aldurs viðkomandi, í því skyni að gera því kleift að gegna hlutverki sínu með virkum hætti sem beinir og óbeinir þátttakendur, þar með talið sem vitni, í öllum málarekstri, einnig á rannsóknarstigi og öðrum undirbúningsstigum.

2. Í því skyni að greiða fyrir því að tryggja megi fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu skulu aðildarríkin stuðla að viðeigandi fræðslu og þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu, meðal annars lögreglumenn og starfsfólk fangelsa. (Undirstr. LÞ).

Í ofangreindu ákvæðum felst skýr viðurkenning á því að til að tryggja fötluðu fólki aðgang að réttarkerfinu og réttarvernd til jafns við aðra verða ríki að taka tillit til sérstakra þarfa sem fatlaður einstaklingur kann að hafa vegna fötlunarinnar, t.a.m. þroskahömlunar.

Það er grundvallarskylda ríkisins að verja borgarana gegn ofbeldi með tiltækum ráðum m.a. á sviði reglusetningar og framkvæmdar sem aþr er mælt fyrir um. Mismunun á grundvelli fötlunar hvað varðar vernd gegn ofbeldi er mjög alvarlegt mannréttindabrot.

Til að uppfylla kröfur sem leiða af ákvæðum þessarar greinar samningsins þarf ríkið að huga vel að því hvort þörf sé fyrir sérstök ákvæði í reglum til að tryggja að réttarkerfið, þ.m.t. lögreglan og öll framkvæmd hennar við rannsókn sakamála, veiti fötluðu fólki vernd gegn ofbeldi til jafns við aðra, meðal annars með því að tryggja að öll málsmeðferð við rannsókn mála sé löguð að að þörfum fatlaðs fólks. Lyktir lögreglu- og dómsmála sem m.a. er vísað til í umfjöllun um hér að framan benda mjög til þess að mikil þörf sé á að skoða vel reglur um lögreglurannsóknir og framkvæmd þeirra m.t.t. þessa.

 Lokaorð.

Landssamtökin Þroskahjálp leggja mikla áherslu á að við undirbúning og setningu þeirrar reglugerðar sem hér er til umfjöllunar gæti innanríkisráðuneytið og önnur hlutaðeigandi stjórnvöld mjög vel að þeim skyldum sem þau hafa samkvæmt samningi SÞ til að tryggja fötluðu fólki þau mannréttindi að hafa aðgang að réttarkerfinu til jafns við aðra og að njóta verndar þess gegn ofbeldi til jafns við aðra.

Þá vilja samtökin vekja athygli á skyldum stjórnvalda til náins samráðs við fatlað fólk og samtaka sem koma fram fyrir þess hönd, sbr. m.a. 3. tl. 4. gr. samningsins sem hljóðar svo:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu við að innleiða samning þennan og vinna að því að taka ákvarðanir um stöðu fatlaðs fólks skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar með talið fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Þessi skylda stjórnvalda til samráðs er einnig sérstaklega áréttuð í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks, með síðari breytingum, sem hljóðar svo:

Við framkvæmd laga þessara skal tekið mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja heildarsamtökum fatlaðs fólks og aðildarfélögum þeirra áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni fatlaðs fólks.

 

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um stjórn lögreglurannsókna og samvinnu héraðssaksóknara og lögreglustjóra við rannsókn sakamála.

                                                                                                                              28. nóvember 2016

 Virðingarfyllst,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri.

 

Reglugerðardrögin sem umsóknin fjallar um má lesa hér