Umsögn Þroskahjálpar vegna áforma um endurskoðun á lögum um umboðsmann barna.

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um frumvarp til laga um breytingu á lögum um umboðsmann barna.

Málið var til umsagnarí samráðsgátt stjórnarráðsins .

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og fólk með þroskahömlun.

Samtökin fagna áformum um endurskoðun á lögum um umboðsmann barna með það að markmiði að gera embættið öflugra til að standa vörð um mannréttindi og tækifæri allra barna.

Samtökin vilja á þessu stigi sérstaklega koma eftirfarandi á framfæri.

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum samningsins. Þessi mikilvægi mannréttindasamningur tekur til allra sviða samfélagsins og hefur það að markmiði að tryggja tækifæri fatlaðs fólks til virkrar þátttöku á öllum sviðum, án mismununar og aðgreiningar. Sum ákvæði samningsins hafa eðli máls samkvæmt sérstaka þýðingu hvað varðar tækifæri fatlaðra barna og skyldu ríkisins til að verja þau fyrir mismunun og aðgreiningu. Ákvæði samningsins varðandi menntun, fjölskyldulíf og þátttöku í félagslífi eru skýr dæmi um það.

Þá eru í samningnum ákvæði sem snúa beint að réttindum fatlaðra barna, s.s. í 4. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Fötluð börn og hljóðar svo:

     1.      Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við önnur börn. 
     2.      Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu. 
     3.      Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll mál er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur eins og eðlilegt má telja miðað við aldur þeirra og þroska og til jafns við önnur börn og veita þeim aðstoð þar sem tekið er eðlilegt tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika. 

Í samningnum er lögð mikil áhersla á skyldu ríkja til að hafa mikið og virkt samráð við fatlað fólk, þ.m.t. fötluð börn, og samtök sem vinna að réttinda- og hagsmunamálum þess Í 4. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar segir um það:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. 

Landssamtökin Þroskahjálp telja mjög mikilvægt að stjórnvöld hafi framangreindar skyldur sínar gagnvart fötluðum börnum sem og skyldur til virks samráðs mjög í huga við endurskoðun laga um umboðsmann barna þannig að lögin stuðli markvisst að því að fötluð börn njóti allra þeirra mannréttinda sem íslenska ríkinu er skylt að tryggja þeim. Samtökin lýsa jafnframt yfir miklum vilja til að taka þátt í samráði við hlutaðeigandi stjórnvöld til að þau markmið geti sem best náðst.