Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, 21. mál.

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, 21. mál.

 Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að fá þingsályktunartillöguna senda til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri við velferðarnefnd og Alþingi.

Íslenska ríkið undirritaði samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2007 en fullgilti hann ekki fyrr en 9 árum síðar, þ.e. árið 2016. Langflest ríki í heiminum höfðu fullgilt samninginn þegar íslenska ríkið gerði það.

Meginþættir í samningi SÞ eru:

  • Virðing fyrir eðlislægri mannlegri reisn, sjálfstæði og sjálfræði einstaklinga, þar með talið frelsi til að taka eigin ákvarðanir. 
  • Sjálfstætt og eðlilegt líf til jafns við aðra. 
  • Ríki skulu banna og koma í veg fyrir hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar. – Réttur til viðeigandi aðlögunar
  • Full og virk þátttaka í samfélaginu án aðgreiningar. – Útrýming stofnana. 
  • Virðing fyrir fjölbreytileika og viðurkenning á fötluðu fólki sem hluta af mannlegum margbreytileika og mannkyni. 
  • Aðgengi að samfélaginu. – Mannvirkjum, upplýsingum, þjónustu. 
  • Virðing fyrir réttindum fatlaðra barna almennt og sérstaklega til að njóta fjölskyldulífs.

Samningurinn  nær til allra sviða samfélagsins eins og sjá má af yfirskriftum greina samningsins:

  • Fatlaðar konur
  • Fötluð börn
  • Vitundarvakning
  • Réttur til lífs
  • Aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand
  • Aðgengi
  • Réttarstaða til jafns við aðra
  • Aðgangur að réttarvörslukerfinu
  • Frelsi og mannhelgi
  • Frelsi frá því að sæta pyndingum eða annarri grimmdarlegri, ómannúðlegri eða lítillækkandi meðferð eða refsingu
  • Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum
  • Verndun friðhelgi einstaklingsins
  • Umferðarfrelsi og ríkisfang
  • Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu
  • Ferlimál einstaklinga
  • Tjáningar- og skoðanafrelsi og aðgangur að upplýsingum
  • Virðing fyrir einkalífi
  • Menntun
  • Heilsa
  • Vinna og starf
  • Hæfing og endurhæfing
  • Viðunandi lífskjör og félagsleg vernd
  • Þátttaka í stjórnmálum og opinberu lífi
  • Þátttaka í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi
  • Tölfræðilegar upplýsingar og gagnasöfnun.

 

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjóranarinnar segir í kafla sem hefur yfirskriftina Velferðarmál :

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður innleiddur.

Eins og að framan greinir og ráða má af yfirskriftum greina samningsins nær hann til allra sviða samfélagsins og þó að vissulega sé það svið sem fellur undir velferðarmál mjög mikilvægt m.t.t. mannréttinda og tækifæra fatlaðs fólks eru mörg önnur svið sem samningurinn nær til ekki síður mikilvæg að því leyti. Til þessa þarf sérstaklega að líta við innleiðingu samningsins þ.m.t.  við meðferð og afgreiðslu þessarar þingsályktunartillögu.

 Með fullgildingu samningsins skulbatt íslenska ríkið sig til að tryggja fötluðu fólki á Íslandi öll þau réttindi og tækifæri sem mælt er fyrir um í samningnum, m.a. með því að setja nauðsynleg lög til þess. Um þær skyldur er kveðið í 4. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. Þar segir:

     1.      Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar. 
    Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til: 
          a)      að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til þess að þau réttindi sem eru viðurkennd með samningi þessum verði að veruleika, 
          b)      að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar með talið á sviði lagasetningar, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin ...         

Í þessu samhengi og við meðferð þessarar þingsályktunartillögu  er nauðsynlegt að löggjafinn líti til þess hvernig vernd Hæstiréttur Íslands og þar með almennir dómstólar sem styðjast við fordæmi hans veita mannréttindum fatlaðs fólks. Um það er fjallað í grein Kára Hólmars Ragnarssonar, lögmanns og doktorsnema í lögum við Harvardskóla, sem birtist í 1. tbl.  Úlfljóts, tímarits laganema, árið 2017. Grein Kára ber yfirskriftina Falsvonir Öryrkjabandalagsdómsins – nýleg dómaframkvæmd um félagsleg réttindi. Greinina má nálgast hér:

Sigurlaug Soffía Friðþjófsdóttir fjallar einnig um þetta í meistararitgerð sinni í lögfræði, Túlkun á jákvæðum skyldum ríkisins á sviði mannréttinda í íslenskri réttarframkvæmd – með hliðsjón af réttarvernd fatlaðs fólks. Umfjöllun um ritgerð Sigurlaugar má m.a. nálgast hér

Sú dómaframkvæmd sem lýst er í þessari grein Kára Hólmars og þessari ritgerð Sigurlaugar hlýtur að vekja mikil vonbrigði og áhyggjur hjá öllu áhugafólki um vernd mannréttinda fatlaðs fólks. Það tjóir ekki að deila við dómarann. Það er hins vegar á valdi Alþingis og á ábyrgð þess að bregðast við þessu með þeim eina hætti sem dugir, þ.e.a.s. með því að veita mannréttindum fatlaðs fólks meiri og skýrari vernd í þeim lögum sem Alþingi setur og dómstólar dæma eftir. Alþingi getur gert það með því að samþykkja þessa þingsályktunartillögu og taka samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks í íslensk lög

Samn­ingur Sam­ein­uðu þjóð­anna um rétt­indi barns­ins var tek­inn í íslensk lög árið 2013. Það var gert til að tryggja enn betur en gert var með full­gild­ingu samn­ings­ins þau rétt­indi sem samn­ing­ur­inn mælir fyrir um.

Sömu rök eiga við um samn­ing Sam­ein­uðu þjóð­anna um rétt­indi fatl­aðs fólks. Með því að lög­festa samn­ing­inn verður mann­rétt­indum fatl­aðs fólks veitt aukin vernd og réttar­ör­yggið eykst. Fatl­aður ein­stak­lingur getur þá borið ákvæði samn­ings­ins fyrir sig sem ótví­ræða rétt­ar­reglu fyrir dómi eða stjórn­völd­um. Lög­fest­ing mun vekja jafnt almenn­ing og þá sem fjalla um mál­efni fatl­aðs fólks fyrir dóm­stól­um, í stjórn­sýslu og við und­ir­bún­ing að laga­setn­ingu, til frek­ari vit­undar um mann­rétt­indi fatl­aðs fólks og þá virð­ingu sem verður að ætl­ast til að þeim sé sýnd í rétt­ar­ríki. Lög­fest­ing samn­ings­ins um fatlað fólk mun og auka, á alþjóða­vett­vangi, traust á virð­ingu íslenska rík­is­ins fyrir mann­rétt­indum fatl­aðs fólks.

Með vísan til þess sem að framan er rakið lýsa Landssamtökin Þroskahjálp yfir eindregnum stuðningi við þingsályktunartillöguna og skora á Alþingi að samþykkja hana og taka samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks í lög.

Samtökin óska jafnframt eindregið eftir að fá að koma á fund velferðarnefndar til að gera nefndinni betri grein fyrir rökum sínum sjónarmiðum.'

Þingsályktunartillöguna má lesa hér