Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um forvarnir gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi.

Landssamtökin Þorskahjálp lýsa ánægju með að í tillögunni eru ráðstafnir um að sérstaklega sé gætt að hagsmunum fatlaðra barna og ungmenna í forvörnum gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi. Þar er m.a. gert ráð fyrir því að fræðsluefni og aðgerðir taki mið af sérstökum aðstæðum fatlaðra barna á öllum skólastigum.

Samtökin benda á að kveða mætti á með skýrari hætti um að það sama eigi við á vettvangi tómstunda-, æskulýðs- og íþróttamála. Nauðsynlegt er að fötluð börn og ungmenni njóti alls ekki síðri fræðslu og verndar en önnur börn og að ævinlega sé litið til aðstæðna þeirra og þarfa í aðgerðum sem undir ályktunina falla. Í því sambandi skal sérstaklega bent á mikilvægi þess að forvarna- og fræðsluefni sé á auðlesnu og aðgengilegu máli fyrir börn og ungmenni með þroskahamlanir.

Rannsóknir sýna og sanna svo ekki verður um villst að fötluð börn eru allt að þrisvar sinnum líklegri en önnur börn til að verða fyrir ofbeldi af öllu tagi. Áhættan er jafnvel enn meiri fyrir börn með þroskahömlun og skyldar fatlanir. Þá sýna þessar rannsóknir að fötluð börn mæti margvíslegum hindrunum hvað varðar möguleika þeirra til að upplýsa aðra um ofbeldi sem þau verða fyrir og til að fá viðeigandi aðstoð í samræmi við aðstæður þeirra og þarfir.[1] Stjórnvöldum er skylt og mjög brýnt er að veita þessum hópi fullnægjandi stuðning og vernd gegn hvers kyns ofbeldi. Í 16. grein SRFF segir:  

Aðildarríkin skulu taka upp skilvirka löggjöf og stefnu, einnig löggjöf og stefnu þar sem sérstakt tillit er tekið til kvenna og barna, til þess að tryggt sé að unnt sé að staðreyna og rannsaka misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingar sem beinast gegn fötluðu fólki og ákæra vegna slíkrar háttsemi ef það á við.

Í Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem var lögfestur á Íslandi árið 2013 og í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja, er kveðið á um að hafa skuli samráð við fötluð börn og ungmenni í málum sem sérstaklega varða réttindi þeirra hagsmuni, líf og tilveru.

Í 4. grein SRFF segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Þroskahjálp telur augljóslega vera mjög mikilvægt að í þingsályktuninni verði fjallað um þá auknu áhættu sem fötluð börn og ungmenni búa við hvað varðar ofnbeldi af þessu tagi og að sérstök áhersla verði lögð á að safna áreiðanlegum tölfræðigögnum og rannsóknargögnum, eins og kveðið er á um að ríki skuli gera í 31. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en þar segir m.a.:    

Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að safna viðeigandi upplýsingum, meðal annars tölfræðilegum gögnum og rannsóknargögnum, sem gera þeim kleift að móta og framfylgja stefnum samningi þessum til framkvæmdar. …

Upplýsingar, sem er safnað samkvæmt þessari grein, skal sundurliða eftir því sem við á og nota til þess að meta hvernig aðildarríkjunum miðar að efna skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum og til að greina og ryðja úr vegi þeim hindrunum sem fatlað fólk stendur frammi fyrir þegar það hyggst nýta sér réttindi sín.

Með vísan til þess sem að framan er rakið vilja Landssamtökin Þroskahjálp sérstaklega árétta eftirfarandi:

  1. Mikilvægt er að samhliða fræðslu og vitundarvakningu verði lögð áhersla á að afla tölfræðigagna og rannsóknargagna um stöðu fatlaðra barna og ungmenna hvað varðar kynferðislegt og kynbundið ofbeldi.

 

  1. Mikilvægt er að hafa samráð við fötluð börn og ungmenni við framkvæmd og útfærslu þeirra verkefna sem undir þingsályktunina falla,

  Ungmennaráð Þroskahjálpar er þátttöku- og samráðsvettvangur ungs fólks með þroskahömlun sem er tilbúið til samvinnu og samráðs um verkefnið.

 Við gerð fræðsluefnis er mikilvægt að hugað sé að því að búa til efni á auðlesnu máli fyrir ungt fólk með þroskahömlun og/eða einhverfu. Landssamtökin Þroskahjálp vinna nú að því að stofna miðstöðvar um auðlesinn texta sem gæti tekið að sér verkefni á þessu sviði.

 

  1. Mikilvægt er að í þjálfun starfsfólks og í verkefnum sem miða að vitundarvakningu um kynferðilsegt og kynbundið ofbeldi sé sérstaklega hugað að viðkvæmri stöðu fatlaðra barna og ungmenna.  Landssamtökin Þroskahjálp leggja mikla áherslu á hagsmuni og réttindi fatlaðra barna og ungmenna. Samtökin lýsa vilja til að vera ráðgefandi í því verkefni og vísa í því sambandi til þess sem segir um samráðsskyldur stjórnvalda í 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks sem vísað er til hér að framan.