Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um handbók um NPA – drög.

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um handbók um NPA – drög.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja á þessu stigi koma eftirfarandi á framfæri varðandi drög að handbók um NPA en áskilja sér rétt til að koma frekari ábendingum og athugasemdum á framfæri síðar og vísa í því sambandi til samráðsskyldu stjórnvalda samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk og samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Samtökin telja eðlilegt og æskilegt að í upphafi handbókarinnar komi skýrt fram hvert er markmiðið með gerð bókarinnar og hvaða hlutverki henni er ætlað að gegna.

Samtökin telja að það vanti betri umfjöllun um hvernig eigi að meta framlag aðstoðarverkstjórnanda til launa. Mikilvægt er að hafa þetta skýrt til að tryggja að fólk sem þarf aðstoðarverkstjóra til að geta nýtt sér NPA hafi sama aðgang og tækifæri til að njóta þeirrar þjónustu og þeir sem geta séð um verkstjórn sjálfir. Samtökunum er einnig kunnugt um að starfsfólk í félagsþjónustu er óánægt með að það skorti leiðsögn um hvernig er best að finna þetta út.

Samtökin telja veigamikil rök fyrir því  að eðlilegra sé að einstaklingsbundin þjónustuáætlun sé á ábyrgð viðkomandi sveitarfélags og að ekki verði heimilt að „útvista“ henni til umsýsluaðila gegn greiðslu. Útfærsla á þessum þætti varðandi NPA var aldrei kláruð í vinnu verkefnisstjórnar.

Samtökin telja að í kaflanum „Skipulag NPA“ í handbókinni þurfi meðal annars m.t.t. réttaröryggis og jafnræðis að kveða skýrar á um að NPA skuli vera í boði fyrir allt fatlað fólk hvar sem það býr. Núna stendur þar varðandi þetta: „Gert er ráð fyrir því að NPA verði valkostur í hverju sveitarfélagi.“

Samtökin telja að í kaflanum í handbókinni um félagsþjónustu þurfi að koma skýrar fram að NPA notandi eigi rétt á því að sækja ráðgjöf til félagsþjónustunnar á sama hátt og aðrir íbúar þó að hann sé kominn með samning um NPA.