Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um umboðsmann barna (hlutverk umboðsmanns barna, ráðgjafarhópur barna og barnaþing), 156, mál.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að mannéttindamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og fólk með þroskahömlun. Aðildarfélög að samtökunum eru rúmlega 20 með um 6000 félögum.

Samtökin vilja koma eftirfarandi á framfæri varðandi frumvarpið.

Íslenska ríki fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða öll ákvæði samningsins og framfylgja þeim.

Í samningnum er lögð mjög mikil áhersla á skyldur stjórnvalda til samráðs við fatlað fólk, þ.m.t. fötluð börn og samtök sem vinna að réttinda- og hagsmunamálum þeirra. Í 4. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. (Undirstr. Þroskahjálpar)

Í 7. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Fötluð börn,segir:

     1.      Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að fötluð börn fái notið mannréttinda og mannfrelsis til fulls og jafns við önnur börn. 
     2.      Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu. 
     3.      Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll mál er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur eins og eðlilegt má telja miðað við aldur þeirra og þroska og til jafns við önnur börn og veita þeim aðstoð þar sem tekið er eðlilegt tillit til fötlunar þeirra og aldurs til þess að sá réttur megi verða að veruleika.
  

Í 23. gr. samnings SÞ um réttindi barnsins eru ákvæði sem varða fötluð börn sérstaklega og skyldur stjórnvalda gagnvart þeim. Greinin hljóðar svo:

1. Aðildarríki viðurkenna að andlega eða líkamlega fatlað barn skuli njóta fulls og sómasamlegs lífs, við aðstæður sem tryggja virðingu þess og stuðla að sjálfsbjörg þess og virkri þátttöku í samfélaginu. 
2. Aðildarríki viðurkenna rétt fatlaðs barns til sérstakrar umönnunar, og skulu þau stuðla að því og sjá um að barni sem á rétt á því, svo og þeim er hafa á hendi umönnun þess, verði eftir því sem föng eru á veitt sú aðstoð sem sótt er um og hentar barninu og aðstæðum foreldra eða annarra sem annast það. 
3. Með tilliti til hinna sérstöku þarfa fatlaðs barns skal aðstoð samkvæmt 2. tölul. þessarar greinar veitt ókeypis þegar unnt er, með hliðsjón af efnahag foreldra eða annarra sem hafa á hendi umönnun þess, og skal hún miðuð við að tryggt sé að fatlaða barnið hafi í raun aðgang að og njóti menntunar, þjálfunar, heilbrigðisþjónustu, endurhæfingar, starfsundirbúnings og möguleika til tómstundaiðju, þannig að stuðlað sé að sem allra mestri félagslegri aðlögun og þroska þess, þar á meðal í menningarlegum og andlegum efnum. 
4. Aðildarríki skulu í anda alþjóðlegrar samvinnu stuðla að því að skipst sé á viðeigandi upplýsingum um fyrirbyggjandi heilsugæslu og læknisfræðilega, sálfræðilega og starfræna meðferð fatlaðra barna, þ. á m. með dreifingu á og aðgangi að upplýsingum um endurhæfingaraðferðir, menntun og atvinnuhjálp, er miði að því að gera aðildarríkjum kleift að bæta getu sína og færni og auka reynslu sína að þessu leyti. Hvað þetta snertir skal tekið sérstakt tillit til þarfa þróunarlanda.
 

Samtökin leggja áherslu á að fötluð börn eru ekki aðeins berskjölduð vegna aldurs síns, heldur einnig vegna fötlunar sinnar og er því, þegar um fötluð börn er að ræða, um tvær mögulegar mismununarástæður að ræða sem teljast hvor um sig vera mannréttindabrot í skilningi laga og fjölþjóðlegra mannréttindasamninga. Þegar um er að ræða fötluð börn af erlendum uppruna (innflytjendur, hælisleitendur, flóttafólk) bætist við þriðja mögulega mismununarástæðan, þ.e. uppruni, en mismunun á þeim grundvelli er einnig alvarlegt brot gegn mannréttindum. Það er því sérstök ástæða til og skylda á stjórnvöldum að líta sérstaklega til stöðu, aðstæðna og þarfa þessara berskjölduðu hópa við greiningar og rannsóknir, setningu, laga og reglna, stefnumótun og áætlanagerð til að bæta stöðu barna og ungmenna.

Tækifæri fatlaðra ungmenna til náms eru mun einhæfari og minni en ungmenna almennt hér á landi en það er að sjálfsögðu alvarleg mismunun hvað varðar menntun og þar með atvinnu og mjög mörg önnur tækifæri í lífinu og samfélaginu sem ráðast mjög mikið af menntun fólks nú og munu gera það í enn ríkari mæli í fyrirsjáanlegri framtíð. 

Þjónusta við fötluð börn er að mestu á ábyrgð og verksviði sveitarfélaga og skortir verulega á að ríkið haldi uppi nægilega burðugu og skilvirku eftirliti með að þau njóti allra þeirra mannréttinda sem þeim ber að njóta og ríkinu er skylt að tryggja þeim sem og að þau þurfi ekki að þola mismunun á grundvelli búsetu. Landssamtökin Þroskahjálp fagna því öllu sem er til þess fallið að bæta þetta eftirlit, þ.m.t. lögum sem hafa það að markmiði að styrkja embætti umboðsmanns barna og það eftirlit sem embættið hefur með mannréttindum barna.

Þá vilja samtökin benda á að mjög skortir á markvissa söfnun og vandaða úrvinnslu og miðlun áreiðanlegra gagna og upplýsinga varðandi stöðu fatlaðs fólks og fatlaðra barna á Íslandi, þó að sérstaklega sé kveðið á um skyldur ríkja á því sviði í 31. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Má í því sambandi t.a.m. nefna upplýsingar varðandi vistun fatlaðra barna utan heimilis og stöðu fatlaðra barna af erlendum uppruna. Samtökin fagna því sérstaklega g-lið 3. gr. frumvarpsins þar sem er nýmæli um öflun og miðlun gagna og upplýsinga um aðstæður barna og taka heilshugar undir eftirfarandi sem segir um ákvæðið í athugsemdum við það í frumvarpinu:

Forsenda vandaðrar stefnumótunar er að fyrir liggi áreiðanlegar upplýsingar um stöðu mála hverju sinni. Gert er ráð fyrir því að embætti umboðsmanns barna afli og miðli gögnum og upplýsingum um aðstæður barna og stöðu tiltekinna hópa barna í samvinnu við ýmsa aðila. Skulu þau gögn lögð til grundvallar samræmdri og markvissri stefnu í málefnum barna á öllum stigum stjórnsýslunnar í samræmi við ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Markmiðið er að varpa ljósi á stöðu barna í samfélaginu og í þeim tilgangi er gert ráð fyrir að sérstaklega verði lögð áhersla á að ná til barnanna sjálfra með sérfræðihópum þar sem þeim gefst kostur á að tjá sig um eigin reynslu, upplifun og líðan. Á þeim grundvelli vinni umboðsmaður greiningar sem geta orðið grunnur að mótun heildstæðrar stefnu í tilteknum málaflokkum til að tryggja að öll börn njóti þeirra réttinda sem mælt er fyrir um í barnasáttmálanum.

 

Með vísan til þess sem að framan er rakið hvetja Landssamtökin Þroskahjálp Alþingi eindregið til að samþykkja frumvarpið.

 

Frumvarp má lesa hér