Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að sýna merki þess að vera sýktir, 667. mál.

Sveitarfélög hafa vegna kórónaveirunnar lokað ýmsum starfseiningum sem eru sóttar af fötluðum einstaklingum. Þeir einstaklingar þurfa því að dveljast á heimilum sínum þann tíma sem þeir annars hefðu verið á þeim stöðum og hefðu fengið þar þá þjónustu sem þeir þurfa vegna fötlunar sinnar og eiga lagalegan rétt á að fá. Það leiðir til þess að foreldarar þeirra og/eða aðrir aðstandendur þurfa í mörgum tilvikum að vera heima hjá þeim til að veita þeim þjónustu og stuðning sem þeir geta ekki verið án vegna fötlunar sinnar.

Þroskahjálp hafa borist margar fyrirspurnir frá fólki sem er í þessari stöðu og hefur eðlilega m.a. miklar áhyggjur af þeim tekjuskerðingum sem það kann að verða fyrir vegna þessa.

 Landssamtökunum Þroskahjálp finnst augljóst réttlætismál að umræddir foreldrar og aðstandendur sem verða að vera frá vinnu af framangreindum ástæðum fái að njóta sama réttar og mælt er fyrir um í þessu frumvarpi, enda er þar einnig um að ræða óhjákvæmilegar fjarvistir frá vinnu vegna kórónaveirunnar.

 Með vísan til þess sem að framan er rakið skora samtökin á velferðarnefnd og Alþingi að gera nauðsynlegar breytingar á frumvarpinu til að tryggja að foreldrar og/eða aðrir aðstandendur fatlaðra einstaklinga sem eru frá vinnu af framngreindum ástæðum njóti sambærilegs réttar og mælt er fyrir um í þessu frumvarpi.

Landssamtökin Þroskahjálp óska eftir að fá að koma á fund velferðarnefndar til að gera grein fyrir þessari umsögn sinni og sjónarmiðum og rökum sem varða aðstæður, þarfir og mannréttindi fatlaðs fólks og nauðsynlegt er að líta til við meðferð frumvarpsins og afgreiðslu.

 

Virðingarfyllst,

 

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér