Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveiru, 683. mál.

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar[1] um frumvarp til laga um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveiru, 683. mál.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri við efnahags- og viðskiptanefnd og Alþingi.

Sá hópur fólks sem býr við alverstu kjörin í íslensku samfélagi eru þeir sem engar tekjur hafa aðrar en bætur frá Tryggingastofnun ríkisins. Þær bætur eru af óútskýrðum og órökstuddum ástæðum umtalsvert lægri (um 30.000 kr.) en atvinnuleysisbætur, sem enginn er þó of sæll af. Staðreyndin er hins vegar sú að atvinnuleysisbætur eru, sem betur fer, oftast tímabundið ástand hjá þeim sem þurfa að byggja afkomu sína á þeim á meðan örorkubótaþegar eru í þessari kröppu stöðu árum saman og margir allt sitt líf, án tækifæra til þess að afla sér annarra tekna.

Með vísan til framangreinds telja Landssamtökin Þroskahjálp augljóst að Það eigi að vera forgangsmál að bæta kjör fatlaðs fólks og öryrkja eins og segir að skuli gert í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar:

Ísland á að vera land tækifæranna fyrir alla. Til að svo megi verða þarf að styrkja sérstaklega stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Gerð verður úttekt á kjörum tekjulægstu hópanna í íslensku samfélagi, tillögur til úrbóta settar fram og þeim fylgt eftir.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa eindregnum vilja og áhuga til að hafa samstarf og samráð við ríkisstjórnina og Alþingi um hvernig megi án frekari tafa standa við þessa skýru yfirlýsingu.

 

Virðingarfyllst,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

 Nálgast má frumvarpið sem umsögnin á við hér.


[1] Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn.