Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2019

 Landssamtökin Þroskahjálp vilja koma eftirfarandi á framfæri við fjárlaganefnd og Alþingi varðandi frumvarpið.

Almennt um gerð frumvarpsins.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt og þar með til að virða og framfylgja ákvæðum samnningsins. Í samningnum er mikil áhersla á skyldu stjórnvalda til að hafa samráð við fatlað fólk og samtök sem vinna að réttinda- og hagsmunamálum þess. Í 3. tl. 4. gr. smaningsins sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Þann 31. maí 2017 samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu félags- og jafnréttismálaráðherra um  Stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks 2017–2021. í upphafi áætlunarinnar segir: „Alþingi ályktar að samþykkja eftirfarandi stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2017–2021 og að gert verði ráð fyrir framkvæmd hennar við gerð fjárlaga.“ 

Í áætluninni er m.a. eftirfarandi framkvæmd:


F.6. Áhrif fjárveitingar til félags-, heilbrigðis- og menntamála hafa á líf fatlaðs fólks verði skoðuð. 
     Markmið: Heildarmynd af samfélagslegum stuðningi við fatlað fólk sé ljós. 
     Lýsing: Við fjárlagagerð verði skoðað hvernig fjárveitingar koma við fatlað fólk eins og gert er í kynjaðri fjárlagagerð með jafnrétti í huga. Áhrif útgjaldabreytinga á sviði velferðar, heilbrigðis og menntunar á stöðu og líf fatlaðs fólks verði skoðuð. Sérstaklega verði hugað að stöðu ungs fólks þegar það hefur sjálfstætt líf og áætlunum framfylgt um að útrýma herbergjasambýlum í áföngum. Skipaður verði stýrihópur með fulltrúum samstarfsaðila. 
     Ábyrgð: Velferðarráðuneytið. 
     Dæmi um samstarfsaðila: Fjármála- og efnahagsráðuneytið, innanríkisráðuneytið, samtök fatlaðs fólks og sveitarfélög. 
     Tími: 2017–2021. 
     Kostnaður: Innan ramma. 
     Mælanlegt markmið: Breyttu verklagi komið á. 

Landssamtökin Þroskahjálp sendu 17. september sl. eftirfarandi fyrirspurn til velferðarráðuneytisins varðandi þessa framkvæmd:

Með vísan til þess að félags-og jafnréttismálaráðherra lagði þingsályktunartillöguna fram og að  þessi framkvæmd er á ábyrgð velferðarráðuneytisins óska Landssamtökin Þroskahjálp eftir upplýsingum ráðuneytisins um hvernig staðið var að framkvæmdinni við gerð fjárlagafrumvarps fyrir árið 2019 sem hefur verið lagt fram og er nú til meðferðar á Alþingi.

Þroskahjálp ítrekaði þessa fyrirspurn við velferðarráðuneytið 5. október sl. og aftur 15. október sl. en ráðuneytið hefur ekki enn svarað henni eða brugðist við henni á annan hátt.

Með vísan til þess sem að framan er rakið skora Landssamtökin Þroskahjálp á fjárlaganefnd og Alþingi að kalla eftir upplýsingum frá velferðarráðuneytinu og fjármála- og efnahagsráðuneytinu um hvernig staðið var að umræddri framkvæmd sem Alþingi samþykkti með þingsályktun 31. maí 2017 við gerð þessa fjárlagafrumvarps fyrir árið 2019.

Örorkulífeyrir.

Ekki verður séð að í frumvarpinu sé gert ráð fyrir afnámi svokallaðrar „krónu á móti krónu skerðingar“ á örorkubótum í byrjun næsta árs. Hér er ekki aðeins um gríðarlega mikið réttlætismál að ræða og afar miklir hagsmunir og í lífsgæði í húfi fyrir örykja. Hér er einnig um óverjandi mismunun að ræða í ljósi þess slík breyting var gerð á kjörum aldraðra  um áramótin 2016 -2017 en öryrkjar voru sviknir um það. Það eru engar málefnalegar ástæður eða lagaleg rök sem réttlæta þá mismunun. Samhliða bráðnauðsynlegri og tafarlausri leiðréttingu þessa þarf að virkja að nýju aldurstengda uppbót á örorkulífeyri.

Kostnaður vegna nýrra laga. / Innleiðing samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir:

Sáttmáli Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður innleiddur.

Samningurinn nær hann til allra sviða samfélagsins og þó að vissulega sé það svið sem fellur undir velferðarmál mjög mikilvægt m.t.t. mannréttinda og tækifæra fatlaðs fólks eru mörg önnur svið sem samningurinn nær til ekki síður mikilvæg að því leyti. Til þessa þarf sérstaklega að líta við innleiðingu samningsins, þ.m.t.  við meðferð og afgreiðslu fjárlaga, sbr. meðal annars það sem segir að framan um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks („Áhrif fjárveitingar til félags-, heilbrigðis- og menntamála hafa á líf fatlaðs fólks verði skoðuð“). 

Ný lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og lög um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga hafa verið samþykkt og öðluðust þau gildi 1. október sl. Þar er margt sem er til þess fallið að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks betur en nú er gert, eins og íslenska ríkinu er skylt að gera samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks. En því miður verður ekki séð í fjárlagafrumvarpinu að nægilegt fé fylgi til að hrinda þeim lögum þannig í framkvæmd að tryggt verði að fatlað fólk njóti allra mannréttinda sem samningurinn mælir fyrir um.   

NPA.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir:

Ljúka þarf lögfestingu notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar (NPA) og breytingu á lögum um málefni fatlaðs fólks.

Með lögum um þjónustu við fatlað fólk með langavarandi stuðningsþarfir sem tóku gildi 1. október sl. var notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA) fyrir fatlað fólk lögfest.

Enn hefur ekki farið fram kostnaðarmat vegna þessara laga en þó er óhætt að fullyrða að ekki er gert ráð fyrir nægu fé í verkefnið. Ætla verður að það komi verst niður gagnvart þeim sem þurfa sérstaka aðstoð við að fara með verkstjórn, þ.e. fólki með þroskahömlun og skyldar raskanir. Ef það verður svo er um ólögmæta mismunun á grundvelli fötlunar að ræða hvað varðar aðgang að þessu þjónustformi og þeim tækifærum til sjálfstæðs lífs og virkrar samfélagsþátttöku sem það veitir.

Afar brýnt að leysa þann ágreining um skiptingu kostnaðar sem uppi er á milli ríkis og sveitarfélaga þannig að tryggt verði að þessi ágreiningur komi ekki niður á notendum eins og verið hefur allt of lengi.

Ástæða er líka til að benda á að ekki er gert ráð fyrir auknu fjármagni til að auka möguleika fólks sem býr í þjónustukjörnum til að fá meira vald í sínu lífi. Til að það sé hægt þarf meira fjármagn þannig að fólk sem nú þarf að deila með sér aðstoðarfólki fái einstaklingsbundna þjónustu þannig að það geti sjálft ráðið hvernig það ver frítíma sínum og með hverjum. Nú er algengt að fólk sem býr í þjónustukjörnum þurfi að laga sig að óskum og þörfum annarra íbúa sem eru þeim alls óskyldir og það á ekkert sameiginlegt með nema að búa á sama stað og þurfa að deila þjónustu með þeim.

Atvinnumál almennt.

Nú er í gangi að hálfu stjórnvalda vinna við að taka upp svonefnt starfsgetumat. gjör forsenda þess að það geti skilað þeim ávinningi sem til er ætlast er að vinnumarkaðurinn, opinberi geirinn og einkageirinn, verði mun sveigjanlegri og miklu opnari fyrir fólki með skerta starfsgetu en hann er nú. Stjórnvöld verða því að vinna myndarlega og markvisst í því. Ekki verður sé að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir því að það verði gert.

Þá verður í þessu sambandi einnig að benda á að 1. september sl. tóku gildi lög nr. 86/2018, um jafna meðferð á vinnumarkaði. Í þeim lögum er skýrt kveðið á um bann við allri mismunun fólks á vinnumarkaði m.a. á grundvelli fötlunar og skertrar starfsgetu,. Markmið laganna er að stuðla að virkri þátttöku sem flestra á vinnumarkaði en atvinnuþátttaka er talin ein mikilvægasta leiðin til koma í veg fyrir félagslega einangrun og fátækt.

Í lögunum segir m.a.:

Atvinnurekendur, stéttarfélög og samtök þeirra skulu vinna markvisst að jafnri meðferð á vinnumarkaði í samræmi við markmið laga þessara. Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að jafnri meðferð starfsmanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og koma í veg fyrir mismunun ... .

Í 10 gr. laganna eru ákvæði um viðeigandi aðlögun sem hafa mikla þýðingu fyrir réttindi fatlaðs fólks. Greinin hljóðar svo:

Atvinnurekandi skal gera viðeigandi ráðstafanir, sé þeirra þörf í sérstöku tilviki, til að gera fötluðum einstaklingi eða einstaklingi með skerta starfsgetu kleift að eiga aðgengi að og taka þátt í starfi, njóta framgangs í starfi eða fá þjálfun, enda séu þær ráðstafanir ekki of íþyngjandi fyrir atvinnurekandann. 

 

Jafnréttisstofa framfylgir lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði. Á fundi með stofnuninni kom fram að hún hefði enga fjárveitingu fengið  vegna þessa umfangsmikla og mikilvæga nýja verkefnis og hlýtur það að vekja mikil vonbrigði furðu.

 

Þá vekja Landssamtökin þroskahjálp athygli stjórnvalda á skyldum þeirra til að stuðla að vitundarvakningu á öllum siðum um réttindi og hæfileika fatlaðs fólks samkvæmt 8. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Þar segir m.a.:

 

Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að samþykkja tafarlausar, árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til að stuðla að því að kunnátta, verðleikar og geta fatlaðs fólks séu viðurkennd í ríkari mæli, enn fremur framlag þess til vinnustaða og vinnumarkaðarins.

Í 27. gr. samningsins er síðan kveðið á um skyldur tjórnvalda til að greiða fyrir aðgangi fatlaðs fólks að vinnumarkaði. Greinin hefur yfirskriftina Vinna og starf og hljóðar svo:

     1.      Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til vinnu; í því felst réttur til að fá ráðrúm til að afla sér lífsviðurværis með vinnu að eigin vali eða vinnu sem er þegin á frjálsan hátt á vinnumarkaði og í vinnuumhverfi sem fötluðu fólki stendur opið, er án aðgreiningar og er því aðgengilegt. Aðildarríkin skulu tryggja og stuðla að því að rétturinn til vinnu verði að veruleika, einnig fyrir þá sem verða fatlaðir meðan þeir gegna starfi, með því að gera viðeigandi ráðstafanir, til að mynda með lagasetningu, til þess meðal annars: 
       a)      að leggja bann við mismunun vegna fötlunar að því er varðar öll mál sem tengjast störfum af hvaða tagi sem er, meðal annars nýliðunar-, ráðningar- og starfsskilyrði, starfsöryggi, starfsframa og öryggi og hollustuhætti á vinnustað, 
       b)      að vernda rétt fatlaðs fólks, til jafns við rétt annarra, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða, einnig jafnra tækifæra og launajafnréttis, öryggis og hollustu á vinnustað og til verndar gegn áreitni, og til þess að fá úrlausn kvörtunarmála, 
       c)      að tryggja að fatlað fólk geti nýtt réttindi sín sem meðlimir stéttarfélaga til jafns við aðra, 
       d)      að gera fötluðu fólki kleift að hafa með virkum hætti aðgang að almennri tækni- og starfsráðgjöf, atvinnumiðlun og starfs- og endurmenntun, 
       e)      að skapa atvinnutækifæri fyrir fatlað fólk og stuðla að starfsframa þess á vinnu­markaði, ásamt því að auka aðstoð við að finna starf, fá það, halda því og fara aftur inn á vinnumarkað, 
       f)      að fjölga tækifærum til að starfa sjálfstætt, stunda frumkvöðlastarfsemi, þróa sam­vinnufélög og stofna eigin fyrirtæki, 
       g)      að ráða fatlað fólk til starfa innan opinbera geirans, 
       h)      að stuðla að því að fatlað fólk verði ráðið til starfa innan einkageirans með því að marka stefnu við hæfi og gera viðeigandi ráðstafanir sem kunna að felast í áætlunum um sértækar aðgerðir, hvatningu og öðrum aðgerðum, 
       i)          að tryggja að fatlað fólk á vinnustað fái notið viðeigandi aðlögunar, 
       j)          að stuðla að því að fatlað fólk geti aflað sér starfsreynslu á almennum vinnumarkaði, 
       k)      að stuðla að starfstengdri og faglegri endurhæfingu fatlaðs fólks, að því að það haldi störfum sínum og að framgangi áætlana um að það geti snúið aftur til starfa. 
     2.      Aðildarríkin skulu tryggja að fötluðu fólki sé ekki haldið í þrældómi eða ánauð og að því sé veitt vernd, til jafns við aðra, gegn þvingunar- eða nauðungarvinnu. 

Fá og lítil tækifæri ungmenna með Þroskahömlun til náms og/eða atvinnu.

Að undanförnu hefur verið mikil umræða í samfélaginu um hversu takmörkuð tækifæri ungmenni með þroskahömlun hafa til náms og/eða atvinnu þegar þau hafa lokið  framhaldsskóla. Ýmsar upplýsingar hafa komið fram í fjölmiðlum sem varpa skýru ljósi á þá miklu mismunun og skort á tækifærum sem þessi ungmenni þurfa að þola vegna fötlunar sinnar. Hlutaðeigandi ráðherrar hafa viðurkennt vandann og talað um að þeir hafi ríkan vilja til grípa strax til markvissra aðgerða til að bæta úr.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa ítrekað bent á nokkur atriði sem hægt er að gera nú þegar til að breyta þessum aðstæðum.  Fjölmennt veitir fólki með þroskahömlun tækifæri til margvíslegrar menntunar. Fjárveitingar til Fjölmenntar hafa þó farið hratt minnkandi að raunvirði mörg undanfarin ár og er nú svo komið að þar er mun minna í boði fyrir fólk með þroskahömlun en var fyrir nokkrum árum. Ekki verður séð að í fjáragafrumvarpinu sé gert ráð fyrir að úr þessu verði bætt þó að það sé mjög einföld og hraðvirk leið til að bæta stöðuna í þessum málum umtalsvert þó að vissulega þurfi margt annað að gera til að hún geti talist vera ásættanleg í ríki sem kennir sig við mannréttindi og jöfn tækifæri fólks. Hægt er að ganga til samninga við myndlistarskólann í Reykjavík um að endurvekja diplómanám í myndlist fyrir fólk með þroksahömlun. Hægt er kanna möguleika menntavísindasviðs HÍ á að innrita árlega nema í starfstengt diplómanám í stað annars hvers árs eins og nú er.

Samhliða þessu þarf að vinna markvisst að því að auka framboð á námi eftir framhaldsskóla og stórefla vinnumiðlun fyrir fatlað fólk. Setja þarf samstarf vinnumiðlunar og skólakerfis í fastari skorður, m.a. með því að innleiða yfirfærsluáætlanir fyrir einstaklinga sem í hlut eiga frá framhaldsskóla og í atvinnu  eða áframhaldandi nám.  

Ekki verður séð að í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir þessum bráðnauðsynlegu aðgerðum.

 Framkvæmdaáætlun. – Fjármögnun verkefna.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa sem heildarsamtök fatlaðs fólks tekið þátt í starfi starfshóps sem falið var að semja drög að nýrri framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks. Samtökin þakka gott samstarf í samstarfshópnum og fagna framkominni framkvæmdaáætlun.

Ef fulltrúar heildarsamtakanna í starfshópnum hefðu fengið að ráða för hefðu aðgerðirnar líklega orðið mun fleiri en það var skýr krafa frá ráðuneytinu um að hafa aðgerðirnar fáar og framkvæmanlegar.

Landssamtökin Þroskahjálp vilja árétta sérstaklega mikilvægi þess að þau verkefni og aðgerðir sem ráðast á í samkvæmt áætluninni verði kostnaðarmetin og fjármögnuð með skýrum hætti því annars er hætta á að þær verði bara orð á blaði og komist ekki til framkvæmda. Í því sambandi er ástæða til að benda á skýrslu Ríkisendurskoðunar frá 2014 um þjónustu við fatlaða1 þar sem fram kemur að kostnaðaráætlun fyrir öll verkefnin í fyrri framkvæmdaáætlun fyrir 2012 – 2014 hafi ekki verið kostnaðarmetin með fullnægjandi hætti. Í þessu sambandi vísast enn til þess sem segir að framan um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks („Áhrif fjárveitingar til félags-, heilbrigðis- og menntamála hafa á líf fatlaðs fólks verði skoðuð“). 

Staða einstaklinga sem bjuggu á Kópavogshæli.

Landsamtökin Þroskahjálp villja  minna fjárlaganefnd á að á árinun 2019 rennur út samningur Landspítalans og Áss styrktarfélags um þjónustu við 5 einstaklinga sem bjuggu á Kópavogshæli og búa þar enn. Til stóð að þessi þjónusta færi yfir til Kópavogskaupstaðar eins og önnur þjónusta við fatlað fólk á árinu 2011 en úr því varð ekki. Frá 1. nóvember 2013 hefur Ás styrktarfélag séð um þessa þjónusta samkvæmt samningi við Landsspítalann

Sá samningur sem hefur ítrekað verið framlengdur rennur út á næsta ári og hefur Ás styrktarfélag marglýst því yfir að eðlilegt sé að þessum 5 einstaklingum sé fundið heimili annars staðar. Gera þarf ráð fyrir því í fjárlögum fyrir árið 2019 af þessum flutningi geti orðið svo mál þessar einstaklinga verði ekki eina ferðina enn í óvissu

Landssamtökin Þroskahjálp minna í þessu sambandi á að með lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, sem tóku gildi 1. október sl., var gert skylt að bjóða þeim sem búa á stofnunum og herbergjasambýlum önnur búsetuúræði   

 

Landssamtökin Þroskahjálp óska eindregið eftir að fá að koma á fund fjarlaganefndar til að gera betri grein fyrir sjónarmiðum sínum.

Frjármálafrumvarp má lesa hér