Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að tillögu til þingsályktunar um menntastefnu til 2030.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum. Um 20 félög eiga aðild að samtökunum með um 6 þúsund félagsmenn. 

Augljóst er að sú stefna sem hér er í mótun varðar mjög mikislverð mannréttindi, hagsmuni og tækifæri fatlaðs fólks almennt og sérstaklega fatlaðra barna og ungmenna. Allar rannsóknir sýna, svo ekki verður um villst, að hvarvetna í heiminum þarf fatlað fólk að þola mikla og margvíslega mismunun hvað varðar tækifæri til náms og þeirra lífsgæða og tækifæra í lífinu sem ráðast mjög mikið af því að fólk geti menntað sig eftir því sem geta þess og vilji stendur til. Ísland er engin undantekning frá þessu. Sú stefna sem hér er í mótun er því afar mikilvægt og mikilsvert tækifæri til að bregðast við þeirri mismunun og samingur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er öflugt tæki sem stjórnvöldum er skylt að nota í því skyni.

Þá eru almennar athugasemdir varðandi menntun (e. General Comment) sem nefnd samkvæmt samningnum hefur sent frá sér afar gagnlegar til að hafa að leiðarljósi við að tryggja fötluðu fólki þau mannréttindi á sviði menntunar sem samningurinn mælir fyrir um. Almennu athugsemdir nefndarinnar um menntun má nálgast á þessum hlekk á heimasíðu nefndarinnar:  

https://tbinternet.ohchr.org/_layouts/15/treatybodyexternal/Download.aspx?symbolno=CRPD/C/GC/4&Lang=en

 

Landssamtökin Þroskahjálp fagna þeirri áherslu sem er í drögunum á að allir geti lært sem og þeirri áherslu sem þar er lögð á jafnrétti til náms og skóla án aðgreiningar. Einnig er ástæða til að fagna því því að sérstaklega er í stefnunni kveðið á um að nemendur skuli fá nám og kennslu við hæfi í samræmi við fyrirmæli laga, aðalnámskrár, áherslur ríkjandi menntastefnu og alþjóðasáttmála sem Ísland hefur undirgengist. Samningur Sameinuð þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem Ísland fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að virða og framfylgja, er mjög mikilvægur í þessu samhengi. Hann leggur afar mikla áherslu á skyldur ríkja til að tryggja fötluðu fólki tækifæri til náms alla ævi til jafns við aðra og án aðgreiningar. Samningurinn byggist á þeirri hugmyndaffræði að það séu samfélagslegar hindranir, frekar en persónulegar skerðingar, sem koma í veg fyrir virka þátttöku fatlaðs fólks í samfélaginu.  

Með vísan til framangreinds vilja Landssamtökin Þroskahjálp koma eftirfarandi á framfæri:

Mikilvægt er að í stefnunni verði vísað með skýrari og afdráttarlausari hætti til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem leiðarljóss í skólastarfi með fötluðum nemendum. Með fullgildingu samningsins eru stjórnvöld skuldbundin til að  framfylgja ákvæðum hans, m.a. með því að tryggja að stefnumótun stjórnvalda taki mið af ákvæðum hans, sbr. 4. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar.[1] Í samningnum er mjög mikil áhersla lögð á skyldur ríkja til að tryggja fötluðu fólki tækifæri til náms til jafns við aðra og án aðgreiningar.[2] Eina beina tilvísunin í samning SÞ um réttidni fatlaðs fólks er að finna í greinargerð í drögunum, kafla 6 um jöfn tækifæri til náms, og þá með vísan til kröfunnar um að starf í félagsmiðstöðvum sé í samræmi við samninginn og  Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Landssamtökin Þroskahjálp beina þeim tilmælum til stjórnvalda að einnig verði með beinum hætti vísað til samningsins í umfjöllun um starf í skólum með nemendum með fötlun og/eða skerta færni.

Í stefnudrögunum er fjallað um möguleg áhrif  sjáflvirknivæðingar á íslenskt samfélag, sem Landssamtökin Þroskahjálp telja mjög mikilvægt. Sérstaklega er rætt um áhrifin sem hún mun mögulega hafa á starfstækifæri fólks af erlendum uppruna og nemenda sem hafa annað móðurmál en íslensku. Landssamtökin Þroskahjálp telja afar mikilvægt einnig verði með afdráttarlausum hætti tekið tillit til þeirra skerðinga á tækifærum fyrir fatlað fólk sem er líkleg afleiðing sjálfvirknivæðingar og breytinga á vinnumarkaði samfara henni.

Ungmennaráð Þroskahjálpar, sem skipað er einstaklingum með þroskahömlun og/eða aðrar skerðingar á aldrinum 16-24 ára, ályktuðu um drög að menntastefnu. Í ályktuninni segir:

Við skorum á menntamálaráðherra að huga sérstaklega að því að veita nemendum með þroskahömlun og/eða aðrar skerðingar nám og þjálfun sem tryggir rétt þeirra til að taka þátt í samfélagi sem er að breytast og gera þeim kleift að taka virkan þátt í að takast á við og leysa mikilvæg viðfangsefni sem nemendur og samfélagið allt munu standa frammi fyrir í framtíðinni og sérstaklega er talað um í menntastefnunni, s.s. breytingar á vinnumarkaði með fjórðu iðnbyltingunni og loftslagsmál.

Landssamtökin Þroskahjálp og ungmennaráð samtakanna lýsa miklum áhuga og vilja til að koma á fund ráðuneytisns til að gera grein fyrir áherslum sínum og sjónarmiðum varðandi stefnuna[3] og áskilja sér jafnframt rétt til að koma að frekari athugasemdum við stefnuna þegar hún verður til meðferðar á Alþingi.

Málið sem umsögnin á við má skoða hér

 

 [1] Í 4. gr. samningsins segir m.a.:

Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar. 
    Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til ... að taka mið af vernd og framgangi mannréttinda fatlaðs fólks við alla stefnumótun og áætlanagerð,
 ... . (Undirstr. Þroskahj.).

[2] 24. gr. samningsins hefur yfirskriftina Menntun og hljóðar svo:

     1.      Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Í því skyni að þessi réttur verði að veruleika án mismununar og þar sem allir hafa jöfn tækifæri skulu aðildarríkin koma á menntakerfi án aðgreiningar á öllum skólastigum og námi alla ævi sem leiðir til þess:

       a)      að mannleg geta og tilfinning fyrir reisn og eigin verðleikum þroskist til fulls og til þess að virðing fyrir mannréttindum, mannfrelsi og mannlegri fjölbreytni vaxi,

       b)      að fatlað fólk geti fullþroskað persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og líkamlegri getu,

       c)      að gera fötluðu fólki kleift að taka virkan þátt í frjálsu samfélagi.

     2.      Til þess að þessi réttur megi verða að veruleika skulu aðildarríkin tryggja:

       a)      að fatlað fólk sé ekki útilokað frá almenna menntakerfinu vegna fötlunar og að fötluð börn séu ekki útilokuð frá gjaldfrjálsu skyldunámi á grunnskólastigi eða námi á framhaldsskólastigi vegna fötlunar,

       b)      að fatlað fólk hafi aðgang til jafns við aðra að endurgjaldslausri grunn- og framhalds-skólamenntun án aðgreiningar, sem uppfyllir almennar kröfur um gæði, í þeim samfélögum þar sem það býr,

       c)      að viðeigandi aðlögun sé veitt viðkomandi einstaklingi til þess að þörfum hans sé mætt,

       d)      að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning innan almenna menntakerfisins til þess að greiða fyrir árangursríkri menntun þess,

       e)      að skilvirkur, einstaklingsmiðaður stuðningur standi til boða í umhverfi sem hámarkar námsþroska og félagslegan þroska sem samræmist markmiðinu um fulla þátttöku allra.

     3.      Aðildarríkin skulu gera fötluðu fólki kleift að öðlast hagnýta og félagslega færni í því skyni að greiða fyrir fullri þátttöku þess, til jafns við aðra, í skólastarfi og sem þjóð¬félagsþegnar. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í þessu skyni, meðal annars:

       a)      auðvelda fólki að læra punktaletur, óhefðbundna ritun, auknar og óhefðbundnar samskiptaleiðir, -máta og -form og færni í áttun og hreyfifærni, ásamt því að greiða fyrir jafningjastuðningi og jafningjaráðgjöf,

       b)      auðvelda fólki að læra táknmál og stuðla að sjálfsmynd heyrnarlauss og heyrnarskerts fólks með tilliti til tungumáls,

       c)      tryggja að menntun einstaklinga, og þá sérstaklega barna, sem eru blindir eða sjónskertir, heyrnarlausir eða heyrnarskertir eða fólks með samþætta sjón- og heyrnar¬skerðingu fari fram á viðeigandi tungumálum og tjáningarmáta sem hentar viðkomandi einstaklingi og í umhverfi sem hámarkar námsþroska og félagsþroska.

     4.      Í því skyni að tryggja að fyrrnefnd réttindi verði að veruleika skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til þess að ráða kennara, einnig fatlaða kennara sem eru sérhæfðir í táknmáli og/eða punktaletri, og að þjálfa sérfræðinga og starfsfólk sem starfa á öllum sviðum menntakerfisins. Fyrrnefnd þjálfun skal samlöguð vitund um fötlun og notkun viðeigandi aukinna og óhefðbundinna samskiptaleiða, -máta og -forma, kennsluaðferða og námsgagna sem er ætlað að styðja fatlað fólk.

     5.      Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk geti hafið almennt nám á háskólastigi, starfs¬þjálfun og notið fullorðinsfræðslu og náms alla ævi án mismununar og til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu, í þessu skyni, tryggja að fatlað fólk fái notið viðeigandi aðlögunar.

[3] Í 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks segir:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.