Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um þvingaða lyfjameðferð.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að til standi að setja þessa reglugerð.

Sjálfsákvörðunarréttur fatlaðs fólks er einn af meginþáttum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Íslenska ríkið fullgilti samninginn árið 2016 og skulbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum hans meðal annars með því að tryggja að lög og reglur væru í fullu samræmi við skyldur sem af samningnum leiða. Sjálfsákvörðunarréttur fatlaðs fólks á öllum sviðum er sérstaklega áréttaður í 12. gr. samningsins sem og skyldur ríkja til að veita fötluðu fólki nauðsynlega vernd og viðeigandi stuðning til að tryggja að það fá notið þeirra mannréttinda til jafns við aðra.

Sjálfsákvörðunarrétturinn nær einnig til ákvarðana um heilbrigðsisþjónustu, eins og fram kemur í 25. gr. samningsins sem hefur yfirskiftina „Heilsa“ en þar segir m.a.:

 „Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta góðrar heilsu að hæsta marki eins og frekast er unnt án mismununar vegna fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu sem tekur mið af kyni, einnig að heilsutengdri endurhæfingu. Aðildarríkin skulu einkum: 

...

gera þá kröfu til fagfólks í heilbrigðisþjónustu að það annist fatlað fólk eins vel og aðra, meðal annars á grundvelli frjáls og upplýsts samþykkis, með því, auk annars, að vekja til vitundar um mannréttindi, mannlega reisn, sjálfræði og þarfir fatlaðs fólks með þjálfun fyrir starfsfólk, bæði innan einkarekinnar og opinberrar heilsugæslu, og með útbreiðslu siðferðislegra viðmiðana meðal þeirra.“ (Undirstr. Þroskahj.)

Landssamtökin Þroskahjálp taka heilshugar undir að brýnt er að lögræðislög verði endurskoðuð til að tryggja að þau verði í fullu samræmi við ákvæði samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks. Samtökin árétta og ítreka hér þá áskorun sína til hlutaðeigandi stjórnvalda að einnig fari sem fyrst fram vönduð heildarendurskoðun á lögum nr. 88/2011, um réttindagæslu fyrir fatlað fólk en ákvæði þeirra laga eru afar mikilvæg m.t.t. stuðnings við fatlað fólk til að það geti notið sjálfsákvörðunarréttar til jafns við annað fólk sem og að haft sé fullnægjandi og markvisst eftirlit með að þau mannréttindi fatlaðs fólks séu virt á öllum sviðum samfélagsins.

Þá vilja samtökin benda heilbrigðisyfirvöldum á skyldu þeirra til að stuðla að vitundarvakningu meðal heilbrigðisstarfsfólks um mannréttindi fatlaðs fólks, sbr. ákvæði 25. gr. samningsins sem vitnað er til hér að framan og 8. gr. samningsins sem hefur yfirskriftina „Vitundarvakning“.

 Nálgast má reglugerð sem umsögnin á við hér.