Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkartryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

 Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkartryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu.

Í mannréttindakafla íslensku stjórnarskrárinnar er kveðið á um að öllum sem þess þurfa skuli tryggður réttur til aðstoðar vegna sjúkleika og örorku og að bannað sé að mismuna fólki á grundvelli efnahags og stöðu að öðru leyti, s.s fötlunar.

Ísland fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins árið 1992 og árið 2013 samþykkti Alþingi að taka samninginn í íslensk lög, sbr. l. nr. 19/2013. Í 24. gr. samningsins er kveðið á um rétt barna til að njóta „besta heilsufars sem hægt er að tryggja, og aðstöðu til læknismeðferðar og endurhæfingar“.

Í 23. gr. samningsins eru ákvæði sem varða réttindi og vernd fatlaðra barna sérstaklega. Þar segir m.a.:

1. Aðildarríki viðurkenna að andlega eða líkamlega fatlað barn skuli njóta fulls og sómasamlegs lífs, við aðstæður sem tryggja virðingu þess og stuðla að sjálfsbjörg þess og virkri þátttöku í samfélaginu.

2. Aðildarríki viðurkenna rétt fatlaðs barns til sérstakrar umönnunar, og skulu þau stuðla að því og sjá um að barni sem á rétt á því, svo og þeim er hafa á hendi umönnun þess, verði eftir því sem föng eru á veitt sú aðstoð sem sótt er um og hentar barninu og aðstæðum foreldra eða annarra sem annast það.

3. Með tilliti til hinna sérstöku þarfa fatlaðs barns skal aðstoð samkvæmt 2. tölul. þessarar greinar veitt ókeypis þegar unnt er, með hliðsjón af efnahag foreldra eða annarra sem hafa á hendi umönnun þess, og skal hún miðuð við að tryggt sé að fatlaða barnið hafi í raun aðgang að og njóti menntunar, þjálfunar, heilbrigðisþjónustu, endurhæfingar, starfsundirbúnings og möguleika til tómstundaiðju, þannig að stuðlað sé að sem allra mestri félagslegri aðlögun og þroska þess, þar á meðal í menningarlegum og andlegum efnum. ... (Undirstr. LÞ)

Íslenska ríkið hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og og hefur þar með skuldbundið sig til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í 25. gr. samningsins sem ber fyrirsögnina „Heilsa“ segir m.a.:

Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta góðrar heilsu að hæsta marki sem unnt er án mismununar vegna fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu sem tekur mið af kyni, meðal annars heilsutengdri endurhæfingu. Aðildarríkin skulu einkum:

a) sjá fötluðu fólki fyrir heilsugæslu og heilbrigðisáætlunum sem eru ókeypis eða á viðráðanlegu verði og eins að umfangi, gæðum og á sama stigi og gildir fyrir aðra einstaklinga, meðal annars með tilliti til kyn- og frjósemisheilbrigðis og að því er varðar samfélagsáætlanir á sviði lýðheilsu, ... (Undirstr. LÞ)  

Í 4. gr. samningsins segir að aðildarríkin skuldbindi sig „til að samþykkja öll viðeigandi lagaákvæði og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til þess að innleiða þau réttindi, sem eru viðurkennd með samningi þessum.“ Setning reglna af því tagi sem hér eru til umfjöllunar er augljóslega mjög mikilvægur liður í að standa við þær skyldur ríkisins.   

Það er alls ekki að ástæðulausu að afar mikil áhersla er lögð á rétt fatlaðs fólks til heilbrigðisþjónustu, án mismununar, í samningnum. Fatlað fólk þarf oft á mikilli heilbrigðisþjónustu að halda vegna fötlunar sinanr og þá er staðreynd að fatlað fólk, sem hefur vegna fötlunar og/eða takmarkaðra tækifæra á vinnumarkaði, engar atvinnutekjur  býr mjög oft við afar þröngan efnahag og jafnvel fátækt.

Landssamtökin Þroskahjálp vísa til skuldbindinga íslenska rkisins  samkvæmt framangreindum ákvæðum stjórnarksrár og mannréttindasamninga og framannefndra staðreynda varðandi þarfir fatlaðs fólks fyrir heilbrigðisþjónustu, fjárhagslegar aðstæður þess og litla tekjumöguleika.  Til alls þessa verður heilbrigðisráðherra mjög að líta þegar hann setur þá reglugerð sem hér er til umfjöllunar.

Landssamtökin Þroskahjálp telja með vísan til framangreinds að rök og sjónarmið sem leiða af skuldbindingum íslenska ríkisins á sviði mannréttinda leiði til að fatlað fólk sem ekki hefur aðrar tekjur en örorkubætur eigi ekki að greiða neitt gjald fyrir þá þjónustu sem reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu nær til. Samtökin skora á heilbrigðisráðherra að gera breytingar á reglugerðardrögum þeim sem hér eru til umfjöllunar til samræmis við það.

Þá vilja samtökin koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri varðandi einstök ákvæði reglugerðardraganna.

1.  Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðardraganna er kveðið á um hámarksgreiðsla þeirra sem ákvæðið nær til í almanaksmánuði skuli vera 16.400 kr. Afar mikilvægt er að heimilt verði að skipta þeirri greiðslu því að efnalítið fólk getur átt mjög erfitt með að leggja út  svo háa fjárhæð í einu lagi og getur það leitt til að það sæki ekki þá heilbrigðissþjónustu sem það eða börn þess þurfa á að halda.

 2. Í 8., 9., 10., 11., 16., 21. gr. og e.t.v. víðar í drögunum eru svohljóðandi ákvæði: „Börn og börn með umönnunarmat greiða ekkert gjald“. Ekki verður séð að þöf sé á að gera þarna þennan greinarmun á börnum og börnum með umönnunarmat því að sama regla gildir um þau í þessum tilvikum. Því er lagt er til að ákvæðunum verði breytt og orðuð svo: „Börn greiða ekkert gjald.“

 3. Samtökin telja mjög óeðlilegt að öryrkjar sem hafa yfirleitt verri heilsu en almennt gerist og hafa oft mjög lágar ráðstöfunartekjur eigi að greiða gjald fyrir þá þjónustu sem tilgreind er í 1. mgr. og 1.-9. tl. 3. mgr. 11. gr., 12. gr. og 13. gr. draganna. Með því verður augljóslega hætta á að vegna bágs efnahags sem leiðir af örorku þeirra fari þeir á mis við þá heilbrigðisþjónustu sem þar er mælt fyrir um.

 4. Samtökunum finnst augljóst að sú þjónusta sem tilgreind er í 10.-11. tl. 11. gr. eigi að vera gjaldfrjáls. Þar er um að ræða þjónustu sem fyrst og fremst lýtur að því að bæta aðbúnað, lífsgæði og tækifæri barna. Með gjaldtöku fyrir þá þjónustu er augljólega veruleg hætta á að börn sem þurfa á þessari þjónustu að halda verði mismunað á grundvelli efnahags foreldra þeirra. Það stríðir mjög gegn sjónarmiðum sem liggja til grundvallar barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og eru mjög víða áréttuð í honum. Þá verður ekki séð að hætta sá á að margir sæki þessa þjónustu sem ekki þurfa á henni að halda og óumdeilanlega er mikill ávinningur af því fyrir samfélagið allt að þeir sem á þurfa að halda sæki þjónustuna þar sem ætla verður að hún skili m.a. þeim árangri að hlutaðeigandi börnum vegni betur í námi og féalgslegum samskiptum og þurfi síður á annarri þjónustu að halda og að foreldrar þeirra verði virkari á atvinnumarkaði en ella og leggi þar með meira til samfélagsins, m.a. með greiðslu skatta og útsvars.

 5. Samtökin telja að öryrkjar eigi að vera undanþegnir greiðsluskyldu samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 15. gr.

 6. Þá telja samtökin að rök og sjónarmið sem liggja til grundvallar ákvæði 4. mgr. 4. gr. draga að reglugerð um tilvísanir fyrir börn um að heimilt sé að ákveða að tilvísun fyrir börn með „langvinna sjúkdóma eða fötlun gildi í allt að tíu ár“ eigi einnig við um fullorðið fólk með langvinna sjúkdóma eða fötlun. Eðli sjúkdóms eða fötlunar ræður því hvort sanngjarnt og hagkvæmt er að hafa þessa heimild og beita henni frekar en aldur viðkomandi. Samtökin leggja því áherslu á að reglum verði breytt til samræmis við það. 

 

Reykjavík, 16. desember 2016.

 

Virðingarfyllst,

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður.

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri .

 

 Drög að reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðsiþjónustu sem umsögnin fjallar um má lesa hér