Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um drög að leiðbeiningum um úthlutun félagslegs íbúðarhúsnæðis sveitarfélaga.

Landssamtökin Þroskahjálp minna velferðarráðuneytið og sveitarfélög á þær miklu, skýru og sérstöku skyldur sem þessi stjórnvöld hafa samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks til að tryggja fötluðu fólki viðeigandi húsnæði og þar með tækifæri til að eiga heimili, njóta sjálfstæðs lífs, einkalífs og fjölskyldulífs, sbr. 19., 22. og 23. gr. samningsins.

Við fullgildingu samnings SÞ liggur fyrir viðurkenning ríkja á því að um sé að ræða mannréttindi í skilningi alþjóðalaga og landslaga þeirra ríkja sem fullgilt hafa samninginn og þar með einnig viðurkenning á skyldu þeirra til að tryggja þessi réttindi í lögum og reglum og allri stefnumótun stjórnvalda, þ.m.t. við setningu leiðbeininga sem þýðingu hafa í þessu sambandi og við forgangsröðun verkefna á þessu sviði.

Þessi réttur og þessar skyldur stjórnvalda eru einnig sérstaklega  áréttaðar í 9. gr. laga  nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.