Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um breytingu á lögum um almennar íbúðir, nr. 52/2016, með síðari breytingum.

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um breytingu á lögum um almennar íbúðir, nr. 52/2016, með síðari breytingum.

Landssamtökin Þroskahjálp reka húsbyggingsjóð sem byggir og kaupir íbúðir sem leigðar eru fötluðu fólki samkvæmt ákvörðun viðkomandi sveitarfélaga. Samtökin eiga nú u.þ.b. 75 slíkar íbúðir víðs vegar um landið og eru nú með verkefni á þessu sviði í undirbúningi eða til skoðunar í samstarfi við þrjú sveitarfélög.

Leigjendur íbúða sem Þroskahjálp hefur byggt og hefur í undirbúningi að byggja í stofnframlagakerfinu er og verður fyrirsjáanlega fatlað fólk sem vegna fötlunar og takmarkaðra tækifæra þess á vinnumarkað hefur litlar eða engar tekjur aðrar en örorkubætur. Örorkubætur eru nú svo lágar að við núverandi aðstæður á bygginga- og húsnæðismarkaði er gríðarlega erfitt að byggja íbúðir fyrir fatlað fólk sem eru ásættanlegar hvað varðar gæði en þó ekki dýrari en svo „að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu leigjenda eða að jafnaði ekki umfram fjórðung tekna“, eins og segir í 1. gr. laga nr. 52/2016, um almennar íbúðir. Fatlað fólk á lagalegan rétt á húsnæði og víða eru langir biðlistar og mjög löng bið eftir húsnæði. Það er því mjög mikilvægt að líta til framangreindra staðreynda varðandi lagalegar skyldur stjórnvalda gagnvart fötluðu fólki hvað varðar húsnæði, mjög lágra örorkubóta og veikrar stöðu fatlaðs fólks á húsnæðismarkaði sem og stöðu almennt á byggingamarkaði við endurskoðun laga um almennar íbúðir og breytingar á þeim.

Samtökin vilja einnig benda á að óvissa um hvenær auglýst er eftir umsóknum um stofnframlög ríkisins og hvenær þeim er svarað og úthlutað hefur torveldað verulega töku ákvarðana og undirbúning verkefna. Allmikill kostnaður fylgir því að uppfylla skilyrði varðandi umsóknir og þar með fjárhagsleg áhætta að því leyti ef ekki fást framlög.

Þá hefur samtökunum fundist nokkuð skorta á meðalhóf og sveigjanleika af hálfu Íbúðaláansjóðs hvað varðar kröfur um upplýsingar og gögn vegna umsókna um stofnframlög og leigulán, sérstaklega í ljósi þess að samtökin hafa lengi og mjög oft fengið lán og nú nýlega einnig stofnframlög hjá Íbúðalánasjóði til að byggja og kaupa félagslegt húsnæði og hafa þar talist uppfylla skilyrði sjóðsins til þess. Það er fyrirhafnar- og kostnaðarsamt að þurfa að leggja fram meiri upplýsingar og gögn en séð verður að málefnaleg þörf sé fyrir og mikilvægt að gætt sé meðalhófs og sveigjanleika að því leyti. Þannig fyrirhöfn og kostnaður er sérstaklega íþyngjandi fyrir samtök og félög eins og Landssamtökin Þroskahjálp sem eru ekki umsvifamikil á þessu sviði og hafa því ekki margt starfsfólk til að sinna þessum verkefnum. Samtökin leggja því eindregið til að lög og reglur á þessu sviði verði endurskoðaðar m.t.t. þess hvort einfalda megi umsóknarferil og alla framkvæmd þar að lútandi.

Umsögn send í samráðsgátt má skoða hér