Til baka
Almanak Þroskahjálpar 2024, forsíða
Almanak Þroskahjálpar 2024, forsíða

Almanak 2024

Vörunúmer
Verð með VSK
4.000 kr.

Vörulýsing

Listaverkaalmanak Landssamtakanna Þroskahjálpar 2024.

4 listamenn eiga verk í almanaki ársins.

Sendingarkostnaður er innifalinn í verðinu.

 

Landssamtökin Þroskahjálp berjast fyrir réttindum og hagsmunum fatlaðs fólks.
Á hverju ári er sala almanaksins ein af stærstu fjáröflunum Þroskahjálpar.

Fyrstu mánuðina er almanakið selt með happdrættismiða, og eftir það er almanakið selt eitt og sér.


Dregið hefur verið
í almanakshappdrættinu 2024.

Smelltu hér til að sjá vinningsnúmer.


Listamenn almanaksins 2024

Í ár kynnum við almanak með listaverkum eftir fjóra fatlaða listamenn. Þessir listamenn hafa vakið athygli og verk þeirra hafa verið sýnd víða, bæði á einkasýningum sem og samsýningum hér á landi og erlendis.

Fyrir mörg þeirra hefur List án landamæra verið mikilvægur stökkpallur. Hátíðin brýtur múrinn á milli hins svokallaða almenna listheims og jaðarlistheimsins sem fatlaðir listamenn tilheyra. Innan jaðarlistheimsins hafa fatlaðir listamenn skapað kraftmikla og fjölbreytta list, en sýnileikinn er í takt við fábreytt tækifæri til þátttöku og listmenntunar.

Landssamtökin Þroskahjálp halda áfram að berjast fyrir sýnileika og tækifærum fatlaðra listamanna, og í almanaki ársins kynnumst við og fögnum listsköpun fatlaðs fólks.

 

 

Listaverkaalmanak Þroskahjálpar 2024

 

Janúar, maí, september

BRANDUR BRYNDÍSARSON KARLSSON
f. 1982

Brandur, sem einnig notast við listamannanafnið Brassi, er fæddur í Reykjavík. Brandur er meðlimur í alþjóðlegu félagi fót– og munnmálara. Hann byrjaði að missa máttinn á miðjum þrítugsaldri en fann listina í kringum þrítugt þegar hann hóf að mála með pensil í munni. Nam hann þá tækni meðal annars af Eddu Heiðrúnu Backman, leikkonu og listamanni. Brandur hefur sýnt á allnokkrum einkasýningum, átt verk á forsíðum tímarita og ferðast víða um heiminn til að mála og njóta þess að vera til.

Innblástur og myndefni sækir Brandur víða, en þar á meðal er íslensk náttúra og sveitarómantík. Starfaði Brandur nokkur sumur sem landvörður í Kverkfjöllum, og má sjá áhrif þeirrar mögnuðu náttúru í nokkrum af verkum hans. Brandur málaði framan af mest í vatnsleysanlegri olíumálningu sem lyktar minna en hefðbundin olíumálning, sem hann segir skipta máli þegar listamaðurinn er með andlitið upp við strigann. Nýverið hefur Brandur verið að prófa sig áfram með nýja miðla og að eigin sögn er aldrei að vita hvað hann gerir í náinni framtíð.

 

Febrúar, júní, október

ELFA BJÖRK JÓNSDÓTTIR
f. 1961

Elfa Björk Jónsdóttir er alin upp á höfuðborgarsvæðinu og sótti sín fyrstu myndlistarnámskeið tíu ára gömul. Myndheimur Elfu Bjarkar byggist á abstrakt grunni og skapast oft skemmtilegt samspil hins formræna og fígúratífa þegar hún sækir sér fyrirmyndir ýmist úr umhverfinu, náttúrulífsbókum eða úr listasögunni. Elfa Björk býr yfir sterkum einkennandi stíl í línum, litum og formgerð sem hún útfærir með ólíkum listmiðlum. Elfa Björk hefur komið víða við en hefur undanfarin ár starfað að myndlist á Sólheimum í Grímsnesi.

Elfa Björk var valin listamaður Listar án landamæra 2022. Af því tilefni opnaði stór einkasýning á verkum hennar í Hafnarborg, þar sem hún sýndi bæði tvívíð og þrívíð verk. Elfa Björk hefur tekið þátt í fjölda samsýninga bæði innanlands og erlendis, en hún hefur meðal annars sýnt í Ásmundarsal, Hafnarborg, Ráðhúsi Reykjavíkur, Listasafni Árnesinga, Spáni, Sviss, og á MeetFactory, samsýningu Listar án landamæra í Prag 2022.

 

Mars, júlí, nóvember

HELGA MATTHILDUR VIÐARSDÓTTIR
f. 1971

Helga Matthildur er Reykvíkingur. Hún hefur unnið að list sinni í nokkur ár undir handleiðslu listkennara hjá Styrktarfélaginu Ási og sótt þar vatnslitanámskeið og námskeið í teikningu. Þá hefur hún numið myndlist í Myndlistaskólanum í Reykjavík og sótt myndlistarnámskeið á vegum Fjölmenntar. Fyrsta einkasýning Helgu Matthildar var opnuð í Listasal Mosfellsbæjar í október 2020 á vegum Listar án landamæra, en Helga Matthildur var útnefnd listamaður Listar án landamæra árið 2020.

Helga Matthildur vinnur beint á pappírinn án þess að gera vinnuskissur og er mikil festa og orka í teiknistíl hennar. Myndefnið er gjarnan portrett í einskonar götulistastíl og er myndflöturinn allur nýttur og teikningin þétt. Vatnslitamyndir Helgu Matthildar eru afar litríkar og bera vott um mikið næmi hennar fyrir litum og litasamsetningum.

 

Apríl, ágúst, desember

GUÐJÓN GÍSLI KRISTINSSON
f. 1988

Guðjón Gísli er uppalinn í Ólafsvík og Reykjavík, en býr og starfar í dag á Sólheimum í Grímsnesi. Hann sýndi fyrstu útsaumsmyndina á sýningu á Sólheimum sumarið 2020 og hefur síðan þá sýnt víða með tilstuðlan Listar án landamæra. Má þar helst nefna einkasýningu hans Nýtt af nálinni í Listasafni Akureyrar 2023 og samsýningar Listar án landamæra í Nýlistasafninu í Reykjavík 2023 og í Meetfactory í Prag 2022. Verk eftir Guðjón Gísla prýddu einnig almanak Þroskahjálpar 2023.

Guðjón Gísli er metnaðarfullur í list sinni, nákvæmur og vandvirkur. Myndefnið er ýmist nánasta umhverfi (hús og skógar Sólheima) eða íslenskt landslag (fjöll, fossar og stuðlaberg), en nýlega hefur hann leitað sér innblásturs í hönnunartímarit og innanhúsarkitektúr. Guðjón Gísli velur helst að vinna teikningar út frá ljósmyndum, færir teikningarnar í sinn búning á striganum og saumar þær út af ástríðu og elju. Óháð myndefninu má sjá samhljóm í litavali, mynstrum og handbragði.