Til umhugsunar - Atvinna

Til umhugsunar

Umfjöllun um málefni fatlaðs fólks sem sett er fram af undirrituðum og á hans ábyrgð.

Atvinna

Atvinna er mikilvæg í lífi okkar allra. Vinnan er miðlæg á marga vegu. Hún er miðlæg í  æviskeiði okkar og hún er einnig miðlæg á hverjum virkum degi, á milli svefns og tómstunda. Fyrir utan fjölskylduna, er fátt líklegra til að auka félagsauð hvers einstaklings en starfið hans.

Vinnan er mikilvægur hluti af sjálfsmynd okkar sem og þeirri ímynd sem aðrir hafa af okkur. Við spyrjum börnin okkar hvað þau ætla að verða þegar þau verði stór og ætlumst til að þau svari með því að tilgreina eitthvert starf. Þá er ekki nefndur sá tilgangur starfsins að sjá okkur farborða og gera okkur kleift að fá margvísleg efnisleg gæði.

Atvinnuþátttaka fólks með þroskahömlun er miklu mun minni en tíðkast hjá fólki almennt. Í tölum Félagsvísindastofnunar varðandi þróun í þjónustu við fatlað fólk frá því að sveitarfélögin tóku hana yfir fyrir um 6 árum síðan kemur fram að atvinnuþátttaka fatlaðs fólks er lítil og nær helmingur þess á ekki kost á neinni atvinnu. Skýrslur Hagstofunnar og staðtölur TR staðfesta þetta. Fólk með þroskahömlun virðist þrátt fyrir litla atvinnuþátttöku frekar hafa einhver tilboð um virkni á daginn eða skólavist en fatlað fólk almennt.

Atvinnumál fatlaðs fólks þarfnast endurskoðunar. Allt frá því að félagsleg þjónusta við fatlað fólk var flutt frá ríki til sveitarfélaga árið 2011 hafa þessir tveir aðilar deilt um hvar atvinnumálum þess skuli komið fyrir.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa verið þeirrar skoðunar að atvinnumál fatlaðs fólks skuli sinnt í stjórnkerfinu þar sem atvinnumál eru til umfjöllunar, þ.e. hjá  ríkinu.

Sveitarfélög töldu að þau sértæku úrræði í atvinnumálum og dagþjónustu sem voru í gangi við yfirfærslu þjónustu við fatlað fólk ættu að heyra undir félagþjónustu sveitarfélaga. Inn í þá umræðu blönduðust m.a. fjármunir sem sveitarfélögin höfðu fengið við yfirfærsluna vegna reksturs þeirra úrræða. Síðastliðin 6 ár hefur þessi deila staðið og er óvíst að það sjái fyrir endann á henni.

Þennan tíma hefur lítið gerst í atvinnumálum fatlaðs fólks. Fatlað fólk sem á allt undir því að allir leggist á eitt við að finna lausnir og auka möguleika þess á vinnumarkaði á ekki að þurfa að líða fyrir togstreitu og valdabaráttu á milli stjórnsýslustiga. Verum þess minnug að tapaður tími í atvinnuþátttöku einstaklings verður ekki bættur honum síðar.

Endurskoða þarf skilgreiningu á því hvaða réttindi, tækifæri og lífsgæði eru tengd og leiða af atvinnuþátttöku einstaklings og  hvaða hindranir verða á vegi fólks með þroskahömlun  og kemur í veg fyrir atvinnuþátttöku þess. Í pistlum mínum hér hef ég áður bent á að skilgreining á skertri vinnugetu sé mjög oft sú að viðkomandi geti ekki unnið fullan vinnudag og lausn á því sé því að fjölga hlutastörfum. Þetta á við í sumum tilvikum en margt fólk með þroskahömlun hefur óskert afl og getur þvi vel unnið fullan vinnudag.

 Það eru aðrir þættir sem skipta hér miklu máli, eins og kröfur um afköst á hverja vinnustund og skert geta til að ráða við þá fjölbreytni sem mörg störf krefjast. Starfið er m.ö.o. of flókið . Auk þess er menning vinnustaða mjög margbreytileg og mishentug fötluðu fólki.

Til að auka  þátttöku fólks með þroskahömlun á vinnumarkaði mætti grípa til mismunandi  úrræða, eins og t.a.m. að í boði sé að fara á vinnustað og vinna ákveðin og afmörkuð verk  án þess að endilega sé um 4 eða 8 tíma vinnu að ræða.  Einnig má færa ákveðin verkefni til á vinnustaðnum og koma þeim þannig fyrir að einn eða fleiri einstaklingar geti leyst leyst það, undir sérstakri verkstjórn ef það er æskilegt eða nauðsynlegt.  Allar tilraunir eru mjög mikilvægar til að finna leiðir og tækifæri fyrir fólk með þroskahömlun til að taka þátt á vinnumarkaði með þeim  ávinningi að vera hluti af þeim félagsauði sem því fylgir .       

Átaksverkefnið í atvinnumálum fatlaðs fólks  „Nýtum hæfileikana –alla hæfileikana“ er gott dæmi um tilraun til að skoða atvinnumál þess hóps í nýju ljósi.  Þar var bent á fatlað fólk  hefur margvíslega og fjölbreytta hæfileika eins og annað fólk . Þá hæfileika á að nota í stað þess að einblína á skerðinguna.  

Við atvinnuleit fatlaðs fólks þarf einnig að fylgja þeim almennu straumum sem er á vinnumarkaði á hverjum tíma. Þannig ættu menn að skoða nú vel hvaða atvinnumöguleikar  eru í ferðaþjónustu og ýmsum skapandi greinum.  Gott dæmi um slíkt verkefni var kaffihúsið GÆS. Verkefni sem  blómstraði og vakti mikla athygli meðan á því stóð en einhvera hluta vegna sá enginn ástæðu til að halda áfram með það starf og enginn virtist bera á því ábyrgð.

Fatlað fólk hefur sýnt fram á svo ekki verður um villst að það hefur margt að gefa sem listafólk. Mörg dæmi eru erlendis frá  að um slíka starfsemi séu byggðar einhvers konar miðstöðvar. Hvers vegna er ekki verið að skoða slíka möguleika hérlendis og þá gjarnan þannig að þar geti fatlað fólk og ófatlað unnið saman að list og menningu. Reynslan af List án landamæra og nú síðast diplómanámi við Myndlistarskólann í Reykjavík kalla á það að við nýtum þá krafta sem þar hafa leyst úr læðingi.

Félagslegt hlutverk fólks ræðst mikið af atvinnuþátttöku þess. Þess vegna skiptir  miklu máli hvaða aðferðir eru valdar og hvaða markmið eru sett varðandi atvinnuþátttöku fatlaðs fólks.  Sennilega er ekkert eitt atriði sem hefur meiri áhrif á félagslega stöðu einstaklings til lengri tíma litið og það að hafa starf.

Það á að sjálfsögðu líka við um fólk með þroskahömlun.

Hugsum um það.

Friðrik Sigurðsson