Yfirlýsing frá Þroskahjálp vegna umfjöllunar Heimildarinnar um réttindagæslu fyrir fatlað fólk

Þroskahjálp lýsir yfir miklum áhyggjum vegna þess sem fram kemur í umfjöllun Heimildarinnar í dag um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.

Réttindagæslan hefur það afar mikilvæga hlutverk að tryggja fötluðu fólki viðeigandi stuðning við gæslu réttinda sinna og tryggja að sjálfsákvörðunarréttur fatlaðs fólks sé virtur og að fyllsta réttaröryggis sé gætt þegar brýna nauðsyn ber til að grípa inn í líf þess. Þroskahjálp hefur ítrekað bent á annmarka þess að réttindagæslan starfi undir félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, sem ber meginábyrgð á þjónustu við fatlað fólk. Sú staðsetning í stjórnkerfinu samræmist engan veginn kröfum, sem gera verður í réttarríki til að eftirlit af þessu tagi sé sem óháðast stjórnvöldum, sem það beinist oft að, beint eða óbeint. Trúverðugleiki og traust til eftirlits af þessu tagi er undir því komið. Samtökin hafa einnig lýst áhyggjum af því við ráðuneytið að þau telji mjög ríka ástæðu til að ætla að réttindagæslan hafi ekki fengið og fái ekki þann skilning á mikilvægi og eðli hlutverks hennar og stuðning innan ráðuneytisins sem nauðsynlegt er.

 

Þau afskipti sem félags- og vinnumarkaðsráðuneyti hafði af réttindagæslumanni Hussein Hussein, sem lýst er í umfjöllun Heimildarinnar, eru einnig mikið áhyggjuefni, að mati Þroskahjálpar.

Í því sambandi er óhjákvæmilegt að árétta að meðal þess sem samtökin hafa gagnrýnt og talið mjög aðfinnsluvert við nýjan úrskurð kærunefndar útlendingamála um brottvísun Husseins er að að bæði kærunefndin og Útlendingastofnun virtu að vettugi tilmæli réttindagæslunnar um að fram færi faglegt mat á þjónustuþörf Hussein vegna fötlunar hans, áður en þessi stjórnvöld tóku ákvarðanir í máli hans  Slíkt mat er, að mati samtakanna, augljóslega nauðsynlegt til að unnt væri að taka ákvarðanir í málinu á réttum grundvelli. Að mati samtakanna er hér um að ræða mikinn annmarka á meðferð málsins og undirbúning töku ákvarðana í máli þar sem mjög veigamiklir hagsmunir og réttindi berskjaldaðs einstaklings eru í húfi. Þetta samræmist því, að mati samtakanna, alls ekki rannsóknarreglu íslensks stjórnsýsluréttar. Samtökin hafa sent öllum ráðherrum, sem sæti eiga í ráðherranefnd um málefni innflytjenda og flóttafólks, sem stofnuð var að tilhlutan forsætisráðherra í júní 2022, athugasemdir þar um. Dómsmálaráðuneytið hefur ekki svarað því erindi en í svörum sem samtökunum bárust frá forsætisráðuneyti og félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, er ekki tekin afstaða til þessarar gagnýni né heldur þeirrar staðreyndar að tilmæli réttindagæslumanns voru virt að vettugi. Hins vegar segir í svörum ráðuneytanna að samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun sé verklagi sem komið var á eftir ítarlegt samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, sem felst í því að kalla til réttindagæslu í málum sem varða umsóknir fatlaðs fólks, ævinlega fylgt. Það stenst ekki skoðun.

 

Landssamtökin Þroskahjálp óska enn eftir svari við því hvers vegna tilmæli réttindagæslumanns í málinu voru hundsuð og jafnframt er mikilvægt að fram komi viðbrögð félags- og vinnumarkaðsráðuneyti við því sem fram kemur í umfjöllun Heimildarinnar varðandi afskipti félags- og vinnumarkaðsráðuneytis af störfum réttindagæslumanns fyrir Hussein Hussein.

Lesa grein Heimildarinnar hér.