Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögur að endurskoðuðum greinasviðum aðalnámskrár grunnskóla

 Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögur að endurskoðuðum greinasviðum aðalnámskrár grunnskóla 

      18. apríl 2024

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem og
heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Samtökin fagna því að hafin er vinna við að endurskoða greinasvið aðalnámskrár grunnskóla með það að markmiði að einfalda og samræma umfang hæfniviðmiða og samræma undirkafla greinasviða.

Tekið er sérstaklega fram að það sé á ábyrgð kennara að skapa aðstæður sem hvetja til náms og hlusta eftir þeim hugmyndum sem hver og einn hefur fram að færa svo nemendur finni til öryggis og að kallað sé eftir fjölbreyttum kennsluháttum þar sem allir fái að njóta sín, þar sem í skólasamfélaginu eru nemendur með ólíkar þarfir.

Samtökin vilja vekja athygli á því að í tillögunum er ekkert fjallað um námsmat fyrir þá nemendur sem vegna fötlun sinnar geta ekki uppfyllt þau hæfniviðmið  við lok 4. bekkjar, 7. bekkjar og 10. bekkkjar.

Þá er ekkert fjallað um einstaklingsnámskrá eða einstaklingsáætlun en mikil þörf er á því að útbúa skýrt  verklag  og verkfæri  fyrir kennara  til að fara eftir til að samræma umgjörð og ferli við gerð einstaklingsnámskráa og einnig námsmat, matsaðferðir og matsgögn.

Í tengslum við námsmat fyrir nemendur sem eru með einstaklingsnámskrá eða aðlagað námsefni er afar brýnt að leggja markvissa vinnu í að skilgreina vel stjörnumerkingar og verklag og þá sérstaklega í tengslum við inngildandi menntun á öllum skólastigum. Nemendur sem útskrifast úr grunnskóla með stjörnumerkt námsmat  (*) á rafrænu útskriftarskírteini      (A*, B*, C* eða D*) hafa ekki möguleika á að taka almenn fög í þeim greinum í framhaldsskóla. Þetta þarf að rýna vel með tilliti til aðgengis fatlaðra ungmenna að menntun til framtíðar.

Í kafla 23 um skólaíþróttir er fjallað um mikilvægi þess að bregðast við mismunandi þörfum nemenda og að gæta þurfi að jöfnum tækifærum og taka mið af einstaklingsbundnum þörfum.

Eins og hæfnimiðmiðin eru sett upp í dag taka þau einungis mið að þörfum ófatlaðra barna.  Mikilvægt er að hafa í huga að taka þarf tillit til þess að nemendur sem ekki geta uppfyllt þau viðmið vegna fötlun sinnar fái ekki matið: ,,Hæfni ekki náð’’.

Með því að taka ekki tillit til allra þarfa er mögulega stuðlað að því að fötluð börn og ungmenni verði afhuga almennri íþróttaiðkun til frambúðar en einungis 4% fatlaðra barna á Íslandi, sautján ára og undir æfa íþróttir innan íþróttahreyfingarinnar.

Samtökin benda einnig á að landsáætlun um málefni fatlaðs fólks fyrir árin 2024-2027 var samþykkt á Alþingi 20. mars sl. í áætluninni eru 60 aðgerðir til að koma í framkvæmd í tenglsum við innleiðingu og lögfestingu á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.  Ein aðgerðin, A.4., tengist aðalnámskránni og er því mikilvægt að huga sérstaklega að henni í tengslum við það mál sem hér er til umsagnar. Í aðgerðinni segir m.a.:

Endurskoðun aðalnámskráa leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Í 8. gr. SRFF er tiltekið að í þágu vitundarvakningar og til að vinna gegn staðalímyndum og efla vitund um getu og framlag fatlaðs fólks skuli ýta undir að virðing fyrir réttindum fatlaðs fólks ríki á öllum sviðum menntakerfisins, þ.m.t. öllum börnum frá unga aldri.

Til þess að ná því markmiði er lagt til að aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla verði endurskoðaðar með áherslu á félagslegan skilning á fötlun og fötlun sem eðlilegan hluta mannlegs margbreytileika. Sex grunnþættir menntunar eru þeir sömu í aðalnámskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla, þ.e. læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og velferð, jafnrétti og sköpun.

 Það er til samræmis við að skólagangan eigi að vera samfelld heild. Með grunnþáttunum er bæði hugað að þroska hvers nemenda sem einstaklings og samfélagslegum markmiðum.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans og tryggja fötluðu fólki öll þau réttindi og alla þá vernd sem mælt er fyrir um í samningnum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er í gangi sérstök landsáætlun um innleiðingu hans af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Í samningnum er lögð sérstök áhersla á skyldur ríkja til að tryggja fötluðum börnum og ungmennum sömu réttindi og tækifæri og önnur börn hafa og nægilegan stuðning og vernd til að það geti orðið að veruleika.

Í samningnum eru ýmis ákvæði sem geta augljóslega haft mikla þýðingu í sambandi við það mál sem hér er til umsagnar, s.s. í 5. gr. samningsins hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun, í 7. gr. samningsins hefur yfirskriftina Fötluð börn. Þar segir m.a.:

     1.      Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja að fötluð börn fái notið allra mannréttinda og grundvallarfrelsis til fulls og jafns við önnur börn. 
     2.      Í öllum aðgerðum, sem snerta fötluð börn, skal fyrst og fremst hafa það að leiðarljósi sem er viðkomandi barni fyrir bestu. 
...

og í 24. gr. samningsins hefur yfirskriftina Menntun. Þar segir:


     1.      Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Í því skyni að þessi réttur verði að veruleika án mismununar og á grundvelli jafnra tækifæra skulu aðildarríkin tryggja menntakerfi án aðgreiningar á öllum skólastigum og við símenntun sem beinist að því:
         a)          að mannleg geta og tilfinning fyrir reisn og eigin verðleikum þroskist til fulls og að virðing fyrir mannréttindum, grundvallarfrelsi og mannlegum margbreytileika vaxi, 
         b)          að fatlað fólk geti þroskað til fulls persónuleika sinn, hæfileika og sköpunargáfu, ásamt andlegri og líkamlegri getu,
         c)          að gera fötluðu fólki kleift að taka virkan þátt í frjálsu samfélagi.
     2.      Til að þessi réttur megi verða að veruleika skulu aðildarríkin tryggja:
         a)          að fatlað fólk sé ekki útilokað frá almenna menntakerfinu á grundvelli fötlunar og að fötluð börn séu ekki útilokuð frá gjaldfrjálsu skyldunámi á grunnskólastigi eða námi á framhaldsskólastigi á grundvelli fötlunar,
         b)          að fatlað fólk hafi aðgang til jafns við aðra að endurgjaldslausri grunn- og framhaldsskólamenntun án aðgreiningar, sem uppfyllir almennar kröfur um gæði, í þeim samfélögum þar sem það býr,
         c)          að viðeigandi aðlögun sé veitt í samræmi við þarfir viðkomandi einstaklings,
         d)          að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning innan almenna menntakerfisins til þess að greiða fyrir árangursríkri menntun þess, 
         e)          að árangursríkur, einstaklingsmiðaður stuðningur sé veittur í umhverfi sem hámarkar námsþroska og félagsþroska sem samræmist markmiðinu um fulla þátttöku án aðgreiningar.
     3.      Aðildarríkin skulu gera fötluðu fólki kleift að öðlast hagnýta og félagslega færni í því skyni að greiða fyrir fullri þátttöku þess, til jafns við aðra, í skólastarfi og sem borgarar í samfélaginu. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í þessu skyni, meðal annars:
         a)          auðvelda fólki að læra punktaletur, óhefðbundna ritun, auknar og óhefðbundnar samskiptaleiðir, -máta og -form og færni í skynjun og hreyfifærni, ásamt því að greiða fyrir jafningjastuðningi og jafningjaráðgjöf,
         b)          auðvelda fólki að læra táknmál og efla sjálfsmynd heyrnarlauss og heyrnarskerts fólks með tilliti til tungumáls,
         c)          tryggja að menntun fólks, og þá sérstaklega barna, sem er blint eða sjónskert, heyrnarlaust eða heyrnarskert eða fólks með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu fari fram á viðeigandi tungumálum og tjáningarmáta sem hentar viðkomandi einstaklingi og í umhverfi sem hámarkar námsþroska og félagsþroska.
     4.      Í því skyni að tryggja að fyrrnefnd réttindi verði að veruleika skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til þess að ráða kennara, þar á meðal fatlaða kennara með sérþekkingu á táknmáli og/eða punktaletri, og þjálfa fagfólk og starfsfólk sem starfar á öllum sviðum menntakerfisins. Slík þjálfun skal fela í sér vitund um fötlun og notkun viðeigandi aukinna og óhefðbundinna samskiptaleiða, -máta og -forma, kennsluaðferða og námsgagna sem er ætlað að styðja fatlað fólk.
     5.      Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk hafi aðgang að almennu námi á háskólastigi, starfsþjálfun, fullorðinsfræðslu og símenntun án mismununar og til jafns við aðra. Aðildarríkin skulu, í þessu skyni, tryggja að fatlað fólk fái notið viðeigandi aðlögunar.

Stefna um menntun án aðgreiningar á Íslandi var tekin út af Evrópumiðstöðinni, sem er stofnun 30 Evrópuríkja sem vinna saman að málefnum varðandi menntun án aðgreiningar og sérþarfir í námi. Í úttektinni opinberuðust ýmsir mjög alvarlegir vankantar varðandi framkvæmd menntunar án aðgreiningar á Ísland. Í ljós kom m.a. að mismunandi skilningur er lagður í hugtakið menntun án aðgreiningar á öllum skólastigum og skortur er á skýrari leiðsögn um framkvæmdina, eftirlit og mat á árangri. Til að menntun án aðgreiningar geti staðið undir nafni og skilað þeim mikla ávinningi fyrir nemendur og samfélagið allt sem hún getur ef vel er á málum haldið þarf að bregðast við þessu með mun markvissari og öflugri hætti en gert hefur verið.

Samtökin fagna því að hafin er vinna við að endurskoða greinasvið aðalnámskrár grunnskóla með það að markmiði að einfalda og samræma umfang hæfniviðmiða og samræmingu undirkafla greinasviða.

Samtökin lýsa eindregnum áhuga og vilja til samráðs og samstarfs við ráðuneytið um þau mikilvægu mál sem hér eru til umsagnar og vísa í því sambandi til 3. mgr. 4. gr. samningsins sem hljóðar svo:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér