Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um orlofshúsnæði örorkulífeyrisþega, 90 mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um orlofshúsnæði örorkulífeyrisþega, 90 mál

25. mars 2024

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn og ungmenni. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem og heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.


Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og nú er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans.


Í samningnum eru ýmis ákvæði sem hafa þýðingu m.t.t. þess máls sem hér er til umfjöllunar, m.a. í 30 gr. samningsins sem hefur yfirskriftina Þátttaka í menningarlífi, tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi. Þar segir:

Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir, í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að taka til jafns við aðra þátt í tómstunda-, frístunda- og íþróttastarfi ...


Örorkulífeyrisþegar eru mjög oft ekki með réttindi hjá stéttarfélögum og hafa yfirleitt miklu minni aðgang að orlofshúsum en landsmenn almennt og þar með minni og færri tækifæri til að njóta þess tómstundastarfs, tilbreytingar, afþreyingar, félags- og fjölskyldulífs sem þau veita og þykja sjálfsögð í íslensku samfélagi.


Aðgangur að orlofshúsum er óumdeilanlega mikilvægur þáttur í þvÍ sem telst vera sjálfsagður hluti af lífi alls almennings hér á landi. Vernd gegn mismunun á öllum sviðum og tækifæri til jafns við aðra eru meginmarkmið Í réttindabaráttu fatlaðs fólks og grunvallarþættir í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.


Með vísan til þess sem að framan er rakið lýsa Landssamtökin Þroskahjálp eindregnum stuðningi við þingsályktunartillöguna og hvetja velferðarnefnd eindregið til að beita sér fyrir því að hún verði samþykkt og skora á Alþingi að samþykkja hana.

 

Virðingarfyllst.


Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má málið sem umsögnin á við hér