Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024-2027, 584. mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024-2027, 584. mál

            29. janúar 2024

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa eindregnum stuðningi við þingsályktunartillöguna og skora á velferðarnefnd að hraða meðferð og samþykkt hennar eins og kostur er.

Þá vilja samtökin minna Alþingi og ríkisstjórnina á eftirfarandi þjóðréttarlegar skuldbindingingar þeirra og fyrirheit gagnvart fötluðu fólki, sem mjög hefur dregist að standa við.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir:

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður lögfestur og stofnuð ný Mannréttindastofnun. (Feitletr. og undirstr. Þroskahj.)

Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að frumvarp um Mannréttindastofnun Íslands hafi verið lagt fram. Samtökin skora á Alþingi og hlutaðeigandi stjórnvöld að hraða lagasetningunni og framkvæmd laganna, eins og nokkur kostur er og benda í því sambandi á að þjóðréttarleg skylda til að setja á fót mannréttindastofnun, sem uppfyllir Parísar-meginreglurnar (e. Paris Principles), til að hafa eftirlit með framfylgd og vernd mannréttinda fatlaðs fólks féll á íslenska ríkið fyrir meira en 7 árum, þ.e. við fullgildingu þess á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016.

Þá fagna samtökin því að í frumvarpinu um Mannréttindastofnun Íslands skuli gert ráð fyrir að réttindagæsla fyrir fatlað fólk falli undir mannréttindastofnunina. Það hefur frá stofnun réttindagæslunnar, með lögum nr. 88/2011, verið ljóst að réttindagæslan á mjög illa heima undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Sú staðsetning hennar í stjórnkerfinu samræmist engan veginn kröfum, sem gera verður í réttarríki til að eftirlit af þessu tagi sé sem óháðast stjórnvöldum, sem það beinist oft að, beint eða óbeint. Samtökin skora því á ríkisstjórnina og Alþingi að koma réttindagæslunni sem fyrst undir sjálfstæða mannréttindastofnun. Samtökin telja að það megi vel gera mjög fljótt, þar sem skipulag og verkefni réttindagæslunnar er með þeim hætti að það krefst alls ekki flókinna eða tímafrekra breytinga á lögum, reglum og/eða stjórnkerfi.

Samkvæmt þingsályktun sem Alþingi samþykkti mótatkvæðalaust 3. júní 2019 átti að leggja fram frumvarp um lögfestingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks eigi síðar en 13. desember 2020. Það hefur ekki enn verið gert, nú rúmum þremur árum eftir að leggja átti fram frumvarp um lögfestingu samningsins samkvæmt þessari þingsályktun.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir:

Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks verður lögfestur og stofnuð ný Mannréttindastofnun. (Feitletr. og undirstr. Þroskahj.)

Í stjórnarsáttmálanum segir hins vegar ekkert um hvenær samningurinn verður lögfestur. Í tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024-2027, sem hér er til umsagnar, kemur fram í lið F. 1., sem hefur fyrirsögnina Lögfesting SRFF, að frumvarp til laga um lögfestingu samningsins verði undirbúið og lagt fram á árinu 2025.

Með lögfestingu samningsins yrði mannréttindum fatlaðs fólks veitt mjög aukin vernd. Fatlaður einstaklingur getur þá borið ákvæði samningsins fyrir sig sem ótvíræða réttarreglu fyrir stjórnvöldum og dómstólum. Lögfesting samningsins mun vekja jafnt almenning og þá sem fjalla um málefni fatlaðs fólks fyrir dómstólum, í stjórnsýslu og við undirbúning að lagasetningu, til frekari vitundar um mannréttindi fatlaðs fólks og þá virðingu sem verður að ætlast til að þeim sé sýnd í réttarríki.

Lögfesting samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks er m.a. afar mikilvægur liður í að tryggja betri framfylgd laga nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsaþarfir, af hálfu ríkis og sveitarfélaga. Óumdeilanlegt er, að mati Þroskahjálpar, að mjög mikil þörf er á að bæta þá framfylgd verulega.

Þá er augljóst að lögfesting samningsins væri mjög mikilvægur og áhrifaríkur þáttur til að framfylgja heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun, sem voru samþykkt af öllum aðildarríkjum SÞ, þ.m.t. íslenska ríkinu, í september 2015. Ríki heims hafa skuldbundið sig til þess að vinna skipulega að innleiðingu markmiðanna bæði á innlendum og erlendum vettvangi út gildistíma þeirra. Meginmarkmið heimsmarkmiðanna er að “skilja engan eftir” (e. no one will be left behind). Fatlað fólk hvarvetna í heiminum hefur verið og er enn "skilið eftir" á öllum sviðum samfélagsins. Ísland er engin undantekning frá því. Samningur SÞ um réttindi fatlaðs fólks var gerður til að bregðast við því.

Þann 20. september 2016 samþykkti Alþingi svohljóðandi þingsályktun mótatkvæðalaust:

Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni fyrir Íslands hönd að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem undirritaður var af hálfu Íslands 30. mars 2007. Þá ályktar Alþingi að valkvæður viðauki við samninginn skuli einnig fullgiltur fyrir árslok 2017. (Undirstr. og feitletr. Þroskahj.)

Nú meira en 6 árum eftir að fullgilda átti viðaukann samkvæmt þingsályktuninni hefur það ekki enn verið gert.

Í greinargerð með þingsályktuninni um fullgildingu valkvæða viðaukans fyrir árslok 2017 segir:

Lagt er til að auk samningsins verði viðauki hans einnig fullgiltur. Viðaukinn felur í sér mikilvægar réttarbætur fyrir fatlað fólk, annars vegar kvörtunarleið fyrir einstaklinga til nefndar á vegum Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og hins vegar leið fyrir nefndina til að rannsaka alvarleg eða kerfisbundin brot gegn samningnum, með samþykki viðkomandi aðildarríkis.

Íslensk stjórnvöld undirrituðu valfrjálsa viðaukann við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks um leið og þau undirrituðu samninginn sjálfan árið 2007. Valfrjálsa bókunin mælir fyrir um kæruleið fyrir einstaklinga og hópa sem telja að íslensk stjórnvöld hafi ekki veitt þeim þann rétt sem þeim ber samkvæmt samningnum og hafa árangurslaust nýtt þau úrræði sem þeir hafa samkvæmt íslenskum lögum og stjórnkerfi til að ná því fram sem þeir telja sig eiga rétt á samkvæmt samningnum. Eftirlitnefndin getur óskað upplýsinga frá ríkjum og beint tilmælum til þeirra. Með því að fullgilda valfrjálsu bókunina verður virkara aðhald með ríkjum um að framfylgja samningnum, réttaröryggi fatlaðs fólks meira og mannréttindi þess betur varin.

Í tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks fyrir árin 2024-2027, sem hér er til umsagnar, kemur fram í lið F.2., sem hefur fyrirsögnina Fullgilding valfrjálsrar bókunar við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, að valkvæði viðaukinn verði fullgiltur á árinu 2025.

Þess má geta að 105 ríki hafa nú fullgilt valkvæða viðaukann.

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum vilja til áframhaldandi virks og náins samstarfs og samráðs við hlutaðeigandi stjórnvöld um þau mikilvægu mál sem hér eru til  umfjöllunar og vísa í því sambandi til til 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar:

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að því að taka ákvarðanir um málefni sem varða fatlað fólk skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, einnig fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

Samtökin óska eftir að fá að koma á fund velferðarnefndar til að gera nefndinni betur grein fyrir áherslum sínum og sjónarmiðum varðandi þingsályktunartillöguna.

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má þingsályktunartillögu sem umsögnin á við hér.