Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til sóttvarnalaga, 529. mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til sóttvarnalaga, 529. mál 

21. febrúar 2023

Íslenska ríkið fullgilti samning sameinðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er nýlega hafin af hálfu ríkisins framkvæmd sérstakrar landsáætlunar um innleiðingu hans.

Augljóst er að afar miklir hagsmunir eru í húfi fyrir fatlað fólk að sóttvarnalög nái sem best tilgangi sínum og markmiðum og að ákvæði þeirra og framkvæmd taki fullt tillit til aðstæðna, þarfa og réttinda fatlaðs fólks, tryggi því jafnrétti og verndi það fyrir mismunun. 

Landssamtökin Þroskahjálp leggja því mikla áherslu á að lagafrumvarpið verði sérstaklega skoðað og rýnt m.t.t. þess að í ákvæðum þess verði tekið fullt tillit til aðstæðna, þarfa og réttinda fatlaðs fólks, almennt og sérstaklega fólks með þroskahömlun, einhverfs fólks og fólks með aðrar skyldar fatlanir. Það er mjög afdráttarlaus og mikilvæg skylda íslenska ríkisins að gæta þessa við setningu laga og reglna. Sú skylda er sérstaklega áréttuð í 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. Þar segir m.a.:

         Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
         a)          að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin …

Í samningnum eru ýmis ákvæði sem geta augljóslega haft verulega þýðingu í sambandi við það mál sem hér er til umsagnar.

5. gr. samningsins hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun. Þar segir:

     1.      Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
     2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er. 
     3.      Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. 
     4.      Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa.

11. gr. samningsins hefur yfirskriftina Aðstæður sem skapa hættu og neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð og hljóðar svo:

Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir, í samræmi við skuldbindingar sínar samkvæmt alþjóðalögum, þ.m.t. alþjóðleg mannúðarlög og alþjóðleg mannréttindalög, til þess að tryggja vernd og öryggi fatlaðs fólks þegar hættuástand ríkir, þar á meðal vopnuð átök, neyðarástand sem kallar á mannúðaraðstoð og náttúruhamfarir.

25. gr. samningsins hefur yfirskriftina Heilbrigði og er svohljóðandi:

Aðildarríkin viðurkenna að fatlað fólk hafi rétt til þess að njóta besta mögulega heilbrigðis án mismununar á grundvelli fötlunar. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja fötluðu fólki aðgang að heilbrigðisþjónustu, sem tekur mið af kyni, þar á meðal heilsutengdri endurhæfingu. Aðildarríkin skulu sérstaklega:
         a)          sjá fötluðu fólki fyrir heilbrigðisþjónustu og heilbrigðisáætlunum sem eru ókeypis eða á viðráðanlegu verði og eins að umfangi, gæðum og á sama stigi og gildir fyrir aðra, meðal annars á sviði kyn- og frjósemisheilbrigðis og að því er varðar samfélagsáætlanir á sviði lýðheilsu,
         b)          sjá fötluðu fólki fyrir þeirri heilbrigðisþjónustu sem það þarfnast sérstaklega vegna fötlunar sinnar, þar á meðal að bera kennsl á og grípa til aðgerða eins fljótt og auðið er eftir því sem við á og veita þjónustu sem miðar að því að draga úr fötlun eins og frekast er unnt og koma í veg fyrir frekari fötlun, þ.m.t. meðal barna og eldra fólks,
         c)          bjóða fram fyrrnefnda heilbrigðisþjónustu eins nálægt heimabyggð fólks og frekast er unnt, þar á meðal í dreifbýli,
         d)          gera þá kröfu til fagfólks í heilbrigðisþjónustu að það annist fatlað fólk eins vel og aðra, þar á meðal á grundvelli frjáls og upplýsts samþykkis, meðal annars með vitundarvakningu um mannréttindi, mannlega reisn, sjálfræði og þarfir fatlaðs fólks með þjálfun og útbreiðslu siðferðilegra viðmiða fyrir starfsfólk, bæði innan einkarekinnar og opinberrar heilbrigðisþjónustu,
         e)          leggja bann við mismunun gagnvart fötluðu fólki á sviði sjúkratrygginga og líftrygginga, þar sem slíkar tryggingar eru heimilar að landsrétti, sem skulu veittar á sanngjarnan og réttmætan hátt,
         f)          koma í veg fyrir að einstaklingum sé synjað um heilsugæslu eða heilbrigðisþjónustu eða um mat og drykk á grundvelli fötlunar.

9. gr. samingsins hefur yfirskriftina Aðgengiog hljóðar svo:

      1.      Til að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt á öllum sviðum lífsins skulu aðildarríkin gera viðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki aðgengi, til jafns við aðra, að efnislegu umhverfi sínu, samgöngum, upplýsingum og samskiptum, þ.m.t. samskiptatækni og -kerfi og að annarri aðstöðu og þjónustu sem opin er eða veitt almenningi hvort sem er í þéttbýli eða dreifbýli. Ráðstafanir þessar, sem skulu fela í sér að bera kennsl á og útrýma hindrunum og tálmunum aðgengis, skulu meðal annars ná til:
         a)          bygginga, vega, samgangna og annarrar aðstöðu innan dyra sem utan, þar á meðal skóla, íbúðarhúsnæðis, heilbrigðisstofnana og vinnustaða,
         b)          upplýsinga og samskipta auk annarrar þjónustu, þar á meðal rafrænnar þjónustu og neyðarþjónustu.
     2.      Aðildarríki skulu enn fremur gera viðeigandi ráðstafanir til þess að:
         a)          þróa, breiða út þekkingu á og fylgjast með innleiðingu lágmarksviðmiða og leiðbeininga um aðgengi að aðstöðu og þjónustu sem opin er eða veitt almenningi
         b)          tryggja að einkaaðilar, sem bjóða fram aðstöðu og þjónustu sem veitt er eða opin almenningi, taki mið af öllum þáttum aðgengis fatlaðs fólks,
         c)          standa fyrir fræðslu fyrir hagsmunaaðila um þau aðgengis vandamál sem fatlað fólk stendur frammi fyrir,
         d)          hafa merkingar með punktaletri og á auðlesnu og auðskiljanlegu formi í byggingum og annarri aðstöðu, sem almenningi stendur opin,
         e)          láta í té ýmiss konar aðstoð og þjónustu milliliða, þar á meðal fylgdarmanna, lesara og faglærðra táknmálstúlka, í því skyni að auðvelda aðgengi að byggingum og annarri aðstöðu sem opin er almenningi,
         f)          efla önnur viðeigandi form aðstoðar og stuðnings við fatlað fólk í því skyni að tryggja aðgang þess að upplýsingum,
         g)          efla aðgengi fatlaðs fólks að nýrri upplýsinga- og samskiptatækni og -kerfum, þar á meðal netinu,
         h)          við hönnun, þróun, framleiðslu og dreifingu aðgengilegrar upplýsinga- og samskiptatækni og kerfa þar að lútandi sé frá upphafi unnið að því að slík tækni og kerfi verði aðgengileg með sem minnstum tilkostnaði.
(Feitletr. Þroskahj.)

21. gr. samningsins hefur yfirskriftina Tjáningar- og skoðanafrelsi og aðgangur að upplýsingum. Þar segir:

Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis, þ.m.t. frelsis til að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum, til jafns við aðra, með hvers kyns samskiptamiðlum að eigin vali, samanber skilgreiningu í 2. gr. samnings þessa, þar á meðal með því:
         a)          að láta fötluðu fólki í té upplýsingar, sem almenningi eru ætlaðar, í aðgengilegu formi og með aðgengilegri tækni, sem tekur mið af mismunandi fötlun, tímanlega og án aukakostnaðar,
         b)          að viðurkenna og auðvelda notkun táknmáls, punktaleturs, aukinna og óhefðbundinna samskipta og allra annarra aðgengilegra samskiptaleiða, -máta og -forma sem fatlað fólk kýs að nota í opinberum samskiptum,
         c)          að brýna fyrir einkaaðilum sem bjóða almenningi þjónustu, þar á meðal gegnum netið, að veita upplýsingar og þjónustu í aðgengilegu og nothæfu formi fyrir fatlað fólk, 
         d)          að hvetja fjölmiðla, þ.m.t. upplýsingaveitur á netinu, til þess að gera þjónustu sína aðgengilega fötluðu fólki,
         e)          að viðurkenna og efla notkun táknmáls.

 

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa vilja og áhuga til samráðs varðandi það frumvarp sem hér er til umsagnar og vísa í því sambandi til samráðsskyldu stjórnvalda, sem er áréttuð sérstaklega í 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hljóðar svo:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst,

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal, verkefnastjóri

 

Nálgast má lagafrumvarp sem umsögnin á við hér.