Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir (reglugerðarheimild), 772 mál.Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðn

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir (reglugerðarheimild), 772 mál.

4. apríl 2024

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem og heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Samtökin fagna frumvarpinu að bættu aðgengi að samfélaginu í formi aðstoðarmannakorta, sem veitir aðstoðarmanni ókeypis aðgang hjá hinu opinbera og einnig að fatlað fólk skuli ekki bera kostnað af fæði starfsfólks sem vinnur með því.

Þetta er skref sem mun auka möguleika fatlaðs fólks til samfélagslegar virkni og þátttöku. Mjög mikilvægt er einnig að tryggj jafnræði fatlaðs fólks, óháð þjónustuformi eða búsetu.

Í dag þarf fatlað fólk, sem fær þjónustu hjá sveitarfélögum, oft á tíðum að greiða tilfallandi kostnað fyrir starfsfólk þegar farið er á viðburði, út að borða og annað þess háttar.

Engar samræmdar reglur eru til um hver greiði kostnað fyrir starfsfólk íbúðakjarna eða starfsfólk í liðveislu og þekkt er að fatlað fólk sé látið greiða kostnað fyrir starfsfólkið. Einnig er mismunandi hvernig þessu er háttað á milli sveitarfélaga og búsetukjarna.

Mikilvægt er að skýrt verði að notanda skuli ekki bera kostnað af fæði starfsmanns sem veitir honum þjónustu lögum samkvæmt.

Til þess að fatlað fólk geti tekið þátt í samfélaginu þarf það því oft að borga kostnað fyrir sig og aðstoðarfólk / starfsfólk sveitarfélaga. Þetta getur verið mjög íþyngjandi fjárhagslega fyrir fatlað fólk, sem mjög oft hefur engar aðrar tekjur en örorkugreiðslur sem eru afar lágar.

Þess verður sérstaklega að gæta að reglur um að fatlað fólk skuli ekki greiði kostnað af fæði aðstoðarfólks / starfsfólks leiði ekki til þess að síður verði tekið tillit til óska og þarfa þess fatlaða fólks sem í hlut á. Hætta getur verið á þær mikilvægu réttlætisreglur leiði til að ferðir og samfélagsþátttaka sem kosta lítið eða ekkert verði þá frekar fyrir valinu, þrátt fyrir óskir hlutaðeigand fatlaðs fólks um annað.

Það er fagnaðarefni að áætlað sé að farið verði í átak í samvinnu við Samtök atvinnulífsins til að fá fyrirtæki til að taka þátt í að greiða fyrir tækifærum fatlaðs fólks til virkrar samfélagsþátttöku til jafns við aðra. Ef það gengi eftir væri vert að skoða
möguleika á að birta lista yfir þau fyrirtæki sem taka þátt í slíkum samfélagsverkefnum og einnig þarf að skoða vel möguleika á samstarfi við önnur ríki, þannig að fylgdarkortin gildi þar, t.d. á Norðurlöndunum.

 

Samtökin ítreka einnig mikilvægi þess að skoða hvort stofna mætti ferðasjóð fyrir fatlað fólk til að mæta kostnaði af ferðum fylgdarfólks. Fatlað fólk, sem þarf aðstoðarfólk/stuðning til að ferðast erlendis, þarf oft á tíðum að greiða fargjald, gistingu
og uppihald fyrir fylgdarfólk sitt en sá kostnaður er augljóslega mjög íþyngjandi og getur því oft komið í veg fyrir að nokkur möguleiki sé fyrir fatlað fólk að fara í slíkar ferðir.

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má málið sem umsögnin á við um hér