Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um lagasetningu um sanngirnisbætur.

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um lagasetningu um sanngirnisbætur.

                                                                                                                      30. nóvember 2022

Landssamtökin Þroskahjálp fagna áformum um setningu laga um sanngirnisbætur en leggja mikla áherslu á að við lagsetninguna verði þess sérstaklega gætt að taka fullt tillit til aðstæðna, þarfa og réttindi fatlaðs fólks, almennt og sérstaklega fólks með þroskahömlun, einhverfs fólks og fólks með aðrar skyldar fatlanir. Það er skýlaus og mjög mikilvæg skylda íslenska ríkisins að gæta þessa við setningu laga og reglna. Sú skylda er sérstaklega áréttuð í 4. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslenska ríkið fullgilti árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að lögfesta eigi samninginn. Þá hefur ríkisstjórn Íslands samþykkt að gerð skuli landsáætlun um innleiðingu á samningnum.

4. gr. samningsins hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar og þar segir m.a.:

         Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.
        Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:
         a)          að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,
         b)          að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin …

Í samningnum eru ýmis ákvæði sem hafa mjög mikla þýðingu í sambandi við það mál sem hér er til umsagnar. Þar má nefna 5. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun (þar er m.a. skyldan til að tryggja fötluðu fólki viðeigandi aðlögun sem er bráðnauðsynlegt í þessu samhengi), 12. gr. sem hefur yfirskriftina Jöfn viðurkenning fyrir lögum (þar ef m.a. skyldan til að tryggja fötluðu fólki viðeigandi stuðning til að nýta löghæfi sitt, þ.e. rétthæfi og gerhæfi), 13. gr., sem hefur yfirskriftina Aðgangur að réttinum, 15. gr., sem hefur yfirskriftina Frelsi frá pyndingum eða grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu, 16. gr. sem hefur yfirskriftina Frelsi frá misnotkun í gróðaskyni, ofbeldi og misþyrmingum og22. gr. sem hefur yfirskriftina Virðing fyrir einkalífi.

 

Samtökin lýsa miklum vilja og áhuga til samráðs varðandi það mál sem hér er til umsagnar og vísa í því sambandi til samráðsskyldu stjórnvalda, sem er áréttuð sérstaklega í 3. gr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hljóðar svo:

 

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst,


Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar,
Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér