Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar og Einhverfusamtakanna um drög að þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum 2023 – 2027

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar og Einhverfusamtakanna um drög að þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum 2023 – 2027

 

Landssamtökin Þroskahjálp og Einhverfusamtökin skiluðu umsögn um drög að stefnu í geðheilbrigðismálum til ársins 2030 þegar drögin voru kynnt í samráðsgátt. Samtökin gerðu þar alvarlegar athugasemdir varðandi aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu fyrir fólk með þroskahömlun, fólk á einhverfurófi og fólk með skyldar fatlanir. Þær athugasemdir voru teknar til greina og var þá sérstaklega tekið fram að lögð verði áhersla á að veita þjónustu fyrir alla og ekki verði vísað til sérstakra hópa heldur öllum gert jafnhátt undir höfði og að tryggt verði að fólki verði ekki mismunað um aðgang að þjónustunni á grundvelli fötlunar.

Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2023 á að auka þjónustu í samræmi við stefnu og aðgerðaráætlun í geðheilbrigðismálum og er markmiðið að fyrir liggi miðlægir biðlistar fyrir geðheilbrigðisþjónustu heilsugæslunnar.  Það fjármagn sem gert er ráð fyrir er klárlega ekki nægilegt til þess að auka þjónustuna eins og nauðsynlegt er.

Í frétt á heimasíðu stjórnarráðsins 17. janúar sl. kemur fram að heilbrigðisráðherra hafi ákveðið að úthlutað verði  rúmlega 260 milljónum kr. til ýmissa heilsufarslegra aðgerða til að efla þriðja stigs geðheilbrigðisþjónustu og skólaheilsugæslu. Samtökin fagna því að að leggja eigi aukið fjármagn í þennan mikilvæga málaflokk.

Markmið og undirmarkmið

Samtökin fagna því einnig að án aðgreiningar sé sérstaklega tekið fram í markmiðum aðgerðaráætlunarinnar (liður 2 d.: Þverfagleg teymisvinna einkenni vinnubrögð heilbrigðisstarfsfólks til að tryggja betra aðgengi, gæði, skilvirkni og samfellu  í geðheilbrigðisþjónustu fyrir alla án aðgreiningar.)

Við viljum koma á framfær eftirfarandi varðandi lið 4 a. Allt of oft hefur fatlað fólk orðið eftir hvað varðar ávinning af  tækiframförum og þróun á þjónustu.

Til að tryggja betur aðgengi alls fatlað fólks gerum við eftirfarandi tillögu að breyttu orðalagi í lið 4 a: Almenningur hafi greitt aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu óháð búsetu eða fötlun, geti valið um þjónustuleið og nýtt fjarheilbrigðisþjónustu eða aðrar tæknilausnir eftir þörfum.

Hvað varðar lið 4 c fögnum við því að efla eigi skráningu og söfnun upplýsinga um geðheilbrigðismál á Íslandi og að stuðlað verði að tryggari meðferð gagna og bættu aðgengi að þeim.

Aðgerðaráætlun

Hingað til hefur aðgengi að viðeigandi geðheilbrigðisþjónustu fyrir fólk með þroskahömlun, einhverft fólk og fólk með fjölþættan vanda ekki verið í boði, nema fyrir alvarlegustu tilfellin. Engin meðferðarúrræði eru fyrir fólk með þroskahömlun eða einhverft fólk með fíknivanda. Það er óboðlegt með öllu og má að óbreyttu gera ráð fyrir því að vandamálin í geðheilbrigðismálum þessa hóps verði meiri og flóknari á komandi árum, sem mun, auk þess að skerða lífsgæði og tækifæri margra mjög mikið, leiða til aukins kostnaðar fyrir ríkið.

Í lið 1 C kemur fram að gagnabrunnur um geðheilsu, geðvanda og meðferðarúrræði verði settur upp í heilsuveru til að almenningur leiti fyrr og á viðeigandi hátt upplýsinga og hjálpar um geðheilbrigðisþjónustu og heilsulæsi barna. Vilja samtökin í þessu sambandi vekja athygli á því að margt fatlað fólk fær ekki aðgengi að Heilsuveru vegna þess að það fær ekki aðgang að rafrænum skilríkjum. Þessi staða er alvarleg og þarf að bregðast við þessari þessari alvarlegu mismunun án tafar.

Í lið 2 A kemur fram að greiningarhópur skilgreini hvaða  hæfni starfsfólk geðheilbrigðisþjónustu þarf að búa yfir á hverju þjónustustigi á hverjum stað. Í þessu samhengi er nauðsynlegt að líta til þess að ef þekking á fötlun er ekki til staðar þurfi þjónustuveitandi að hafa aðgang að ráðgjafarteymi sem geti komið inn í mál þegar þörf er á í stað þess að vísa fólki á sérúrræði vegna fötlunar þess.

Við gerum eftirfarandi tillögu að breyttu orðalagi í lið 4 A 2:

Að þróa stuðning við geðheilsuteymi heilbrigðisstofnana og finna leiðir til að auka og jafna aðgengi að sérhæfðri 3ja stigs þjónustu, meðal annars með nýsköpun og fjarheilbrigðislausnum. Tilgangur: Að bæta aðgengi að sérhæfðri geðheilbrigðisþjónustu á landsvísu og stuðla að því að fólki sé ekki vísað frá vegna fötlunar á borð við þroskahömlun eða einhverfu.

Í greinagerðinni kemur fram að tillögur sem settar voru fram í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar felist í söfnun upplýsinga, samfelldri þjónustu, viðbrögðum við gráum svæðum, að bæta aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu, að bæta mönnun og sérhæfingu starfsfólks, að tryggja tilvist geðheilsuteyma, vanda aðgerðaráætlanir og tryggja fjármögnun þeirra og eftirfylgni.

Gráu svæðin eru fjölmörg og viljum við taka sérstaklega fram mikilvægi þess að  efla til muna þróun geðheilbrigðisþjónustu fyrir einstaklinga með taugaþroskaröskun og einnig  bjóða upp á meðferðarúrræði fyrir fólk með þroskahömlun eða einhverft fólk með fíknivanda. Eins og kemur fram í greinagerðinni er skortur á samfellu í kerfinu sem bitnar sárlega á þessum hópi.

Landssamtökin Þroskahjálp og Einhverfusamtökin lýsa miklum vilja og áhuga á að eiga samstarf og samráð við hlutaðeigandi stjórnvöld til að tryggja að stefna í geðheilbrigðismálum taki nauðsynlegt tilliti til aðstæðna, þarfa og réttinda fólks með þroskahömlun, einhverfs fólks og fólks með skyldar fatlanir.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Sigrún Birgisdóttir, framkvæmdastjóri Einhverfusamtakanna

 

Nálgast má mál sem um sögnin á við hér.