MÚRBRJÓTUR LANDSSAMTAKANNA ÞROSKAHJÁLPAR

Alþjóðadagur fatlaðs fólks er 3. desember ár hvert. Í tilefni af því og í tengslum við afmælisráðstefnu sem Landssamtökin Þroskahjálp héldu 2. desember þar sem á þessu ári eru liðin 40 ár frá stofnun samtakanna veittu þau viðurkenningargrip sinn, Múrbrjótinn.

Múrbrjóturinn dregur nafn sitt af því að viðurkenningin er veitt þeim sem að mati samtakanna brjóta niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks og stuðla þannig að því að það fái tækifæri til að verða fullgildir þátttakendur í samfélaginu og til að lifa eðlilegu lífi til jafns við aðra.

Verðlaunagripurinn er smíðaður á handverkstæðinu Ásgarði þar sem fólk með þroskahömlun starfar.

Frú Eliza Jean Reid forsetafrú, afhenti Múrbrjótinn.

Myndlistaskólinn í Reykjavík hlýtur Múrbrjótinn 2016 vegna diplómanáms í myndlist fyrir fólk með þroskahömlun og þess framlags sem í því felst í þágu jafnra tækifæra til náms og listsköpunar.

Námslýsing fyrir diplómanám í myndlist fyrir fólk með þroskahömlun var unnin í Myndlistaskólanum í Reykjavík skólaárin 2012-13 og 2013-14, með stuðningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins og Fjölmenntar. Vorið 2015 ákvað Fjölmennt að styrkja námið og í kjölfarið var hægt að opna fyrir umsóknir um nám við deildina. Fjölmargir sendu inn umsóknir og myndir af verkum og fór inntökunefnd yfir umsóknir og tók viðtöl við nemendur. Snemma sumars 2015 var tólf nemendum boðin skólavist og hófu þeir nám um haustið. Námið er tvö ár og deildarstjóri er Margrét M. Norðdahl, myndlistamaður.

Námsbrautin er innlegg í að bæta stöðu listafólks með þroskahömlun og gefa fólki færi á að rækta hæfileika sína í faglegu námsumhverfi. Námsbrautin er í takti við það sem fram kemur í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks þar sem sérstaklega er tilgreint mikilvægi þess að fólk hafi tækifæri til að rækta og njóta hæfileika sinna sem og rétt fólks til að stunda nám á öllum skólastigum.

Í íslenskum rannsóknum kemur fram að ungt fólk með þroskahömlun óskar eftir því að halda áfram námi að loknum framhaldsskóla og að þörf er á að auka aðgengi ungmenna með þroskahamlanir að námi á háskólastigi, þar með talið að listnámi.

Ávinningur diplómanáms fyrir fólk með þroskahömlun er margþættur. Í náminu gefst nemendum tími til að dýpka listræna vinnu sína og fá faglega þekkingu á tækni, efnisvali og listasögu undir leiðsögn fagfólks með sérþekkingu í listum og kennslu.

Fyrsti hópurinn er nú á síðara ári sínu við skólann og standa vonir til þess að áfram verði hægt að bjóða upp á formlegt myndlistanám fyrir þennan nemendahóp.