Mannréttindadómstóll Evrópu frestar brottvísun Hussein Hussein

Í gær, 31. október, samþykkti Mannréttindadómstóll Evrópu að beita Reglu 39 (Interim Measures) í máli Hussein Hussein, fatlaðs flóttamanns sem synjað hefur verið um vernd á Íslandi og átti að flytja nauðugan til Grikklands ásamt fjölskyldu sinni.

Það þýðir m.a. að stjórnvöldum er gert að fresta brottvísun til Grikklands þangað til þau hafa sýnt fram á hvaða þjónustu Hussein muni fá í Grikklandi og hvaða aðgerða gripið hefur verið til í samráði við stjórnvöld þar í landi til að tryggja að þessi úrræði komi í raun og sann til framkvæmda.

 

Þetta kemur ekki á óvart — það hefur verið mat Þroskahjálpar frá upphafi að meðferð útlendingayfirvalda í máli Hussein standist ekki mannréttindalegar skuldbindingar.

Í fyrsta lagi hefur aldrei farið fram mat á stuðningsþörfum eins og réttindagæslumaður hans fór fram á. Mat á stuðningsþörf hlýtur að vera forsenda þess að mögulegt sé að taka réttláta ákvörðun í máli hans.

Í öðru lagi hafa samtökin talið óforsvaranlegt að senda Hussein til Grikklands án þess að gera sérstakar ráðstafanir til þess að tryggja þær aðstæður sem verið er að senda hann í.

 

Í úrskurði Útlendingastofnunar og Kærunefndar útlendingamála kemur fram að aðstæður allar í Grikklandi eru gríðarlega erfiðar og almennt mjög erfitt að fá húsnæði, atvinnu, félags- og heilbrigðisþjónustu. Þetta verður enn erfiðara í ljósi fötlunar og þess að dvalarleyfiskort Hussein er útrunnið og mun taka í besta falli vikur og versta falli upp undir eitt ár að fá það endurnýjað.

Þroskahjálp hefur bent á að það er óforsvaranlegt og augljóslega mjög ómannúðlegt að senda fatlaðan mann í þær aðstæður.

 

Mannréttindadómstóll Evrópu óskar eftir svari íslenskra stjórnvalda við eftirfarandi spurningum:

  • Hvaða skref, ef einhver, hafa verið tekin til þess að tryggja vel heppnaðan flutning Hussein Hussein til Grikklands?
  • Ef skref hafa verið tekin, hvenær og hvernig verður umsækjandinn fluttur?
  • Mun umsækjandinn njóta læknisþjónustu á leiðinni? Ef svo, vinsamlegast útskýrið í smáatriðum.
  • Liggur fyrir verklag um afhendingu umsækjandans til grískra yfirvalda við komuna til landsins?
  • Hvaða skref, ef einhver, hafa verið tekin til þess að tryggja að umsækjendurnir muni njóta tilhæfilegra aðstæðna og nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu (með tilliti til sérstakra þarfa þeirra) þegar þeir eru komnir til Grikklands?

 

Þroskahjálp fagnar þessu inngripi Mannréttindadómstóls Evrópu og bindur vonir við að það verði til þess að framvegis muni fatlað fólk á flótta njóta betri málsmeðferðar sem tekur tillit til fötlunar og þeirra skuldbindinga sem fylgja samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem íslensk stjórnvöld hafa fullgilt.