Málefnasamningar sveitarstjórna mikil vonbrigði

AUÐLESIÐ

Ályktun stjórnar Landssamtakanna Þroskahjálpar 1. júlí 2022

Stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar sér sig knúna til þess að lýsa yfir miklum vonbrigðum nú í kjölfar þess að málefnasamningar sveitarstjórna hafa verið birtir. Samningarnir eru fyrirheit um hvaða málefni verða í forgrunni á komandi kjörtímabili. Því miður er lítið, ef eitthvað, fjallað um réttindi, tækifæri og hagsmuni fatlaðs fólks, og hvernig sveitarfélögin ætla að framfylgja samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og lögum landsins.

Sveitarfélög eiga að tryggja marglaga þjónustu við fatlað fólk, eins og fram kemur í 1. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk og laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

 

Húsnæði og sjálfstætt líf

Fatlað fólk á skýlausan rétt á að eignast heimili og hafa val í eigin lífi. Biðlistar eftir húsnæði eru í flestum sveitarfélögum svo langir að fatlað fólk hefur engra annarra kosta völ en að búa hjá foreldrum sínum eða öðrum aðstandendum langt fram á fullorðinsaldur. Fatlað fólk á að vera í forgangi þegar kemur að félagslegu húsnæði enda er það forsenda þess að fólk geti lifað sjálfstæðu lífi. Þá þarf að tryggja fólki stuðning og þjónustu sem gerir þeim kleift að lifa lífi sínu til fulls, sama hvort það er með notandastýrðri persónulegri aðstoð (NPA) eða annars konar stuðningi.

 

Viðeigandi aðlögun

Fatlað fólk á rétt á viðeigandi aðlögun. Það þýðir að tryggja þarf að þörfum fatlaðs fólks sé mætt á þeirra forsendum, með einstaklingsbundnum hætti. Viðeigandi aðlögun felur í sér stuðning í skóla, við atvinnu og við að nýta réttindi sín.

 

Frumkvæðisskylda

Sveitarfélögum ber að upplýsa fólk um réttindi þess en þetta hefur ekki tíðkast í mörgum sveitarfélögum. Mikilvægt er að starfsmenn sveitarfélaga séu upplýstir um réttindi fatlaðs fólks og þau lög sem þeim er ætlað að vinna eftir. Alltof algengt er að fatlað fólk og aðstandendur þess fái ekki viðunandi upplýsingar um það sem þeim ætti að standa til boða, og fólki ætlað að leita sjálft eftir stuðningi og þjónustu sem þau eiga rétt á samkvæmt lögum.

 

Ekkert um okkur án okkar! Notendasamráð við fólk með þroskahömlun og skyldar fatlanir

Sveitarfélögum ber skylda til þess að hafa mikið og raunverulegt samráð við fatlað fólk. Það þýðir að fatlað fólk á alltaf að eiga sæti við borðið þegar rædd eru málefni sem það varðar. Samkvæmt lögum ber sveitarfélögum að starfrækja notendaráð þar sem kallað er eftir athugasemdum og afstöðu fatlaðs fólks. Til þess að vel sé þurfa sveitarfélög að tryggja að fólk með þroskahömlun geti raunverulega tekið þátt í samráðinu, t.d. með því að veita stuðning, tryggja aðgengilegar og auðlesnar upplýsingar og taka tillit til þarfa þess.

 

Aðgengismál –  auðlesinn texti

Horfa þarf á aðgengismál í víðum skilningi. Fatlað fólk er fjölbreyttur hópur og þarf að sama skapi fjölbreyttar aðgengislausnir. Mikilvægt er að tryggja fólki með þroskahömlun og skyldar fatlanir aðgang að upplýsingum. Fólk hefur ekki tækifæri til jafnrar þátttöku í samfélaginu ef það hefur ekki upplýsingar eins og aðrir íbúar sveitarfélaganna. Þetta á við um þjónustu sem hið opinbera veitir, sama hvort það er sértæk þjónusta við fatlað fólk eða almennar upplýsingar eins og um opnunartíma sundlauga, þjónustu skóla, dagskrá á hátíðisdögum o.s.frv. Auðlesið mál er lykilinn að sjálfstæði og þátttöku fatlaðs fólks.

 

Skóli án aðgreiningar

Á undanförnum misserum hefur umræðan um skóla án aðgreiningar verið hávær, og oft óvægin. Ef við viljum raunverulega skóla án aðgreiningar þar sem fötluð börn og ungmenni hafa tækifæri til þess að taka þátt og vera með jafnöldrum sínum þarf að hafa hugrekki til að standa með þeirri stefnu og um leið að krefjast þess að fleiri fagaðilar starfi innan veggja skólanna. Til stendur að efla þverfaglega samvinnu í málefnum barna með farsældarlögunum til að stuðla að því að börn og foreldrar hafi greiðan aðgang að samþættri þjónustu. Til að hægt sé að veita þverfaglega þjónustu þarf hún að vera til staðar í nærumhverfi nemandans. Með fleiri stöðugildum kennara og annarra fagaðila innan skólans styrkjum við skólaumhverfið til þess að taka á móti börnum á þeirra forsendum og eftir þeirra þörfum.

 

Tómstundir og íþróttir fatlaðra barna

Alltof sjaldan er hugað að tómstunda- og íþróttaiðkun fatlaðra barna og ungmenna, tækifæri þeirra til listnáms og skapandi starfs. Efla þarf vitund almennra íþróttafélaga inna sveitarfélaga og hvetja þau til að bjóða fötluðum börnum til iðkunnar innan félaganna án aðgreiningar.
Efla þarf frístund fyrir fötluð börn og ungmenni eftir að skóla lýkur á daginn til muna í nærsamfélaginu. Oft á tíðum þurfa fötluð börn og ungmenni að ferðast langan veg með ferðaþjónstu fatlaðra með tilheyrandi kostnaði og tíma.

 

Atvinnumál

Mikilvægt er fyrir alla  að vera virkir samfélagsþegnar og hafa atvinnu. Fatlað fólk hefur fábreytt tækifæri á vinnumarkaðinum og eru hæfileikar og kraftar fatlaðs fólks vannýtt auðlind.
Sveitarfélögin eru í lykilstöðu til þess að sýna gott fordæmi með því að ráða fatlað fólk með skerta starfsgetu til fjölbreyttra starfa og er það hvatning fyrir fyrirtæki í sveitarfélögum landsins til þess að gera slíkt hið sama.

Stjórn Landssamtakanna Þroskahjálpar skorar á sveitastjórnir um land allt að setja málefni fatlaðs fólks í forgrunn og tryggja fötluðu fólki tækifæri og stuðning til innihaldsríks lífs án aðgreiningar.

F.h. stjórnar Landsamtakanna Þroskahjálpar,
Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar