Umboðsmaður Alþingis minnir stjórnvöld á skyldur þeirra samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Umboðsmaður Alþingis minnir stjórnvöld á skyldur þeirra samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Umboðsmaður Alþingis hefur lögum samkvæmt eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga Hann sendi nýlega frá sér álit sem varðar rétt fatlaðrar konu til ferðaþjónustu. Í áliti sínu kemst umboðsmaður að þeirri niðurstöðu að ákvarðanir hlutaðeigandi stjórnvalda í málinu hafi ekki verið í samræmi við lög.

Þetta álit umboðsmanns, sem er mjög ítarlegt og vel rökstutt, hefur þó ekki aðeins þýðingu hvað varðar rétt fatlaðs fólks til ferðaþjónustu. Álitið varðar túlkun og framkvæmd allra ákvæða laga nr. 59/1992, um málefni fatlaðs fólks. Í álitinu leggur umboðsmaður sérstaka áherslu á skyldur stjórnvalda til að taka mið af samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en Ísland fullgilti þennan mikilvæga mannréttindasamning árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja ákvæðum hans. 

Í álitinu segir m.a. um mikilvægi og þýðingu samningsins við túlkun og framkvæmd laga um málefni fatlaðs fólks:

Svo sem fyrr greinir kemur fram í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 59/1992 að við framkvæmd laganna skuli taka mið af þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en hann var undirritaður 30. mars 2007 af þáverandi félagsmálaráðherra fyrir hönd íslenskra stjórnvalda og fullgiltur í september 2016. Ákvæði þetta er í samræmi við þá viðurkenndu lögskýringarreglu að skýra beri lög í samræmi við þjóðréttarlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist, sjá til dæmis fyrrnefndan dóm Hæstaréttar frá 19. desember 2000 í máli nr. 125/2000. Af vísun til tiltekins þjóðréttarsamnings í lagaákvæði sem mælir fyrir um viðmið við framkvæmd laganna vaknar sú spurning hvort í því felist ekki annað og meira en hið sjálfsagða og að honum sé þar með léð annað og meira vægi við túlkun laganna í stað þess að vera eingöngu lýsing á viðurkenndri lögskýringarreglu samkvæmt íslenskum rétti. Kann þetta að hafa sérstaka þýðingu í ljósi þess að ýmis ákvæði þeirra eru almennt orðuð. Ákvæði þetta kom inn í lögin við gildistöku laga nr. 152/2010 1. janúar 2011. Í lögskýringargögnum kemur það eitt fram um þetta að lögð væri til sú breyting að tekið yrði skýrar fram en áður að við framkvæmd lagnna skyldi tekið mið af alþjóðlegum skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hefðu gengist undir og þar sérstaklega vísað til samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Af ákvæðinu leiðir bæði að velferðarráðuneytinu og sveitarstjórnum ber „að taka mið“ af samningi Sameinuðu þjóðanna þegar þessi stjórnvöld setja reglur samkvæmt 3. mgr. 35. gr. laga nr. 59/1992, enda felur slík reglusetning í sér “framkvæmd laganna“. Má reyndar einu gilda um þessa skyldu hvort sérstakar reglur hafi verið settar um inntak þjónustunnar. Að framagreindu virtu tel ég að leggja verði til grundvallar að með tilvitnuðu lagaákvæði hafi samningnum verið ætlað að hafa sérstaka þýðingu við framkvæmd og túlkun laga nr. 59/1992 og í öllu falli þegar kemur að afmörkun þeirra lágmarksréttinda til handa fötluðu fólki sem í lögunum felast.

Í áliti sínu vísar umboðsmaður Alþingis einnig til dóma Mannréttindadómstóls Evrópu og þýðingar þeirra fyrir réttindi fatlaðs fólks á Íslandi og skyldur stjórnvalda til að tryggja þau og verja. Um það segir umboðsmaður:

Í þessu sambandi bendi ég á að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur litið til ákvæða ofangreinds samnings (samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks) við túlkun og beitingu þeirra reglna sem fram koma í mannréttindasáttmála Evrópu, sem er lögfestur hér á landi, sbr. lög nr. 62/1994.“

Landssamtökin Þroskahjálp skora á hlutaðeigandi stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga að kynna sér mjög vel þetta mikilvæga álit umboðsmanns Alþingis og gæta þess í hvívetna að reglur sem þau setja og öll framkvæmd og þjónusta af þeirra hálfu sé í fullu samræmi við það og samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Það er á þeirra valdi og á þeirra ábyrgð að fatlað fólk njóti mannréttinda til jafns við aðra. Samningur Sameinuðu þjóðanna er tæki sem stjórnvöld hafa til þess og ber að nota til að tryggja það.

 

Samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks má nálgast hér:

Hér  má nálgast samninginn á auðlesnu máli: