Réttarkerfið og fólk með þroskahömlun. – Tveir nýir dómar Hæstaréttar.

Í síðustu viku gengu tveir dómar í Hæstarétti  sem hljóta að vekja spurningar varðandi stöðu fólks með þroskahömlun gagnvart íslenska réttarkerfinu (lögreglu, ákæruvaldi og dómstólum) og hvort það njóti verndar þess til jafns við aðra. Ekki þarf að hafa mörg orð um að mismunun fólks á grundvelli fötlunar hvað varðar stöðu gagnvart réttakerfinu og vernd þess er alvarlegt mannréttindabrot og brot gegn þeim meginreglum sem réttarríkið byggist á. Það er því ekki að ástæðulausu  að í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið hefur fullgilt og þar með skuldbundið sig til að virða og framfylgja er sérstaklega kveðið á um skyldu stjórnvalda til að „laga málsmeðferð alla að þörfum“ fatlaðs fólks.

Ákvæðið er í 13. gr. samningsins sem hljóðar svo:   

1. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðu fólki virkan  aðgang að réttarkerfinu til jafns við aðra, meðal annars með því að laga málsmeðferð alla að þörfum þess og taka tilhlýðilegt tillit til aldurs viðkomandi, í því skyni að gera því kleift að gegna hlutverki sínu með virkum hætti sem beinir og óbeinir þátttakendur, þar með talið sem vitni, í öllum málarekstri, einnig á rannsóknarstigi og öðrum undirbúningsstigum. 

2. Í því skyni að greiða fyrir því að tryggja megi fötluðu fólki virkan aðgang að réttarkerfinu skulu aðildarríkin stuðla að viðeigandi fræðslu og þjálfun fyrir þau sem starfa á sviði réttarvörslu, meðal annars lögreglumenn og starfsfólk fangelsa.

Í niðurstöðu annars þessara hæstaréttardóma, þar sem maður var sýknaður fyrir meint kynferðisbrot gegn konu með þroskahömlun, segir m.a.:

Í kjölfar þessa tók lögregla skýrslur af ákærða og vitnum, þó ekki brotaþola, auk þess sem aflað var upplýsinga símleiðis. Virðist þessum hluta rannsóknarinnar hafa lokið um mitt ár 2014. Ákæra var gefin út 22. september 2015 og aðalmeðferð fór fram í héraði 1. apríl 2016, en þá voru liðin þrjú ár frá því ætluð brot voru framin. Samkvæmt gögnum málsins var, hvað sem leið áðurnefndum rannsóknarfyrirmælum ríkissaksóknara, engra upplýsinga aflað um akstur ákærða með brotaþola á öðrum fimmtudögum en 14. mars 2013.

...

Engin rannsókn fór fram á bifreiðinni sem ákærði ók á vegum Ferðaþjónustu fatlaðra, en fram kemur í gögnum málsins að um hafi verið að ræða bifreið af gerðinni [...]. Engar ljósmyndir hafa verið lagðar fram af afstöðu framsæta í bifreiðinni, en brotaþoli hefur borið að ákærði hafi káfað á sér innanklæða í bifreiðinni og hafi þau þá setið hvort í sínu framsæti hennar. Er því útilokað að leggja mat á hvort trúverðugt sé að ákærði hafi þar gerst sekur um þá háttsemi sem borin er á hann.

...

Eins og áður greinir fór aðalmeðferð málsins fram í héraði þegar liðin voru þrjú ár frá því að ætluð brot voru framin. Nokkur þeirra vitna, sem gáfu skýrslu fyrir dómi, báru fyrir sig að muna atvik illa þar sem svo langt var um liðið. Einkum var óljóst hvenær árs brotið var framið og hvenær brotaþoli hefði átt að vera komin til sambýlisins að [...] eftir að hafa verið í [...] og þar með hvort ákærði hefði skilað henni seinna en eðlilegt gat talist. Ekki var nýtt heimild c. liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 til þess að taka skýrslu fyrir dómi af brotaþola við rannsókn málsins, sem þó var brýnt vegna þroskaskerðingar hennar. Slík skýrsla hefði verið betur til þess fallin að upplýsa um atvik máls, en sú skýrsla sem tekin var við aðalmeðferðina þremur árum síðar.

 

Í hinu málinu var maður með þroskahömlun og fíkniefnavanda dæmdur fyrir tvö þjófnaðarbrot. Héraðsdómur taldi ekki rétt að refsa manninum og rökstuddi þá niðurstöðu þannig:

Meðal gagna málsins eru gögn er varða heilsufar ákærða og rannsóknir sem hann hefur gengist undir frá unga aldri vegna þroska o.fl. Þar kemur ítrekað fram að ákærði er greindur með væga þroskahömlun. Vitnið A geðlæknir mat ákærða einnig með væga þroskahömlun, eins og rakið var.

Einstaklingur með slíka þroskahömlun hefur vitsmunaþroska á við 9 til 12 ára gamalt barn eins og vitnið A bar. Þótt ákærði geri greinarmun á réttu og röngu er það mat dómsins að refsing í tilviki ákærða, sem hefur vitsmunaþroska á við 9 til 12 ára gamalt barn, beri ekki árangur í skilningi 16. gr. almennra hegningarlaga. Ákærða verður því ekki gerð refsing í málinu.

Hæstiréttur taldi hins vegar, þrátt fyrir þessi rök, rétt að dæma manninn til refsingar, þ.e. í 18 mánaða óskilorðsbundið fangelsi, en tók þó eftirfarandi fram í dómi sínum:

Vegna andlegra haga ákærða er til þess að líta að samkvæmt 1. mgr. 22. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga getur Fangelsismálastofnun, að undangengnu sérfræðiáliti, leyft að fangi sé vistaður um stundarsakir eða allan refsitímann á heilbrigðis- eða meðferðarstofnun.