Nokkur orð um rétt fatlaðs fólks til menntunar og skyldur menntamálayfirvalda til að tryggja hann

Nokkur orð um rétt fatlaðs fólks til menntunar og skyldur menntamálayfirvalda til að tryggja hann.

Ísland fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sl. haust og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í samningnum eru sérstök ákvæði um skyldur ríkja til að tryggja fötluðu fólki aðgang að menntun. Þar segir m.a.:

„Aðildarríkin viðurkenna rétt fatlaðs fólks til menntunar. Þau skulu koma á menntakerfi á öllum skólastigum án aðgreiningar og ævinámi í því skyni að þessi réttur megi verða að veruleika án mismununar og þannig að allir hafi jöfn tækifæri.“

Þá segir í samningnum að ríki skuli tryggja „að fatlað fólk hafi aðgang að endurgjaldslausri grunn- og framhaldsskólamenntun án aðgreiningar sem uppfyllir almennar kröfur um gæði, til jafns við aðra í þeim samfélögum þar sem það býr“ og „að árangursríkar, einstaklingsmiðaðar stuðningsaðgerðir séu veittar í umhverfi sem hámarkar hvað mest mögulegan árangur í námi og félagslegan þroska sem aftur samræmist því markmiði að fatlað fólk geti notið menntunar án nokkurrar aðgreiningar.“

Landssamtökin Þroskahjálp vilja minna menntamálaráðherra á þessar skyldur sem hann, ríkisstjórnin öll og Alþingi bera samkvæmt þessum mikilvæga mannréttindasamningi. Viðbrögð ráðherra við óskum um að tryggt verði að áfram verði boðið upp á diplómanám í myndlist fyrir fólk við Myndlistarskólann í Reykjavík eru ekki í samræmi við ákvæði samningsins og hafa valdið verulegum vonbrigðum. Þroskahjálp hvetur hann eindregið til að leysa það mál þannig að sómi verði af því fyrir hann og ríkisstjórnina.

Þá vilja samtökin minna menntamálaráðherra, alþingismenn og aðra sem þátt taka í umræðum og ákvörðunum varðandi mögulega sameiningu Fjölbrautaskólans við Ármúla og Tækniskólans á skyldur þeirra til að gæta sérstaklega að rétti og þörfum ungmenna með þroskahömlun fyrir menntun. Þar þarf augljóslega að tryggja að þau fái stuðning kennara og starfsfólks sem hefur viðeigandi þekkingu og reynslu. Stjórnvöld verða að gæta þess í þessu máli og almennt að gera ekkert sem getur á einhvern hátt dregið úr möguleikum fatlaðra ungmenna til menntunar til jafns við aðra og án aðgreiningar.