Hátt í 40 fötluð ungmenni bíða eftir framhaldsskólaplássi

Í vikunni birtist viðtal við foreldra Dagbjarts Sigurðar, 16 ára gamals drengs sem var að útskrifast úr Klettaskóla. Hann hafði fengið bréf frá Menntamálastofnun þar sem honum var tjáð að enginn framhaldsskóli geti boðið honum pláss í haust eins og er.

Þetta er því miður ekki einsdæmi. Þroskahjálp kallaði fyrr í vor eftir upplýsingum frá Menntamálastofnun um fjölda fatlaðra ungmenna sem væri enn á bið eftir skólavist í framhaldsskóla landsins. Í svari frá stofnuninni kom fram að hátt í 40 ungmenni væru ekki komin með skólavist fyrir haustið og að enn sé verið að leita lausna í málinu. Mögulegt er þó að lausn verði ekki í sjónmáli fyrir þennan hóp fyrr en með haustinu.

Þroskahjálp hefur ítrekað bent á þessar hindranir sem fötluð ungmenni standa frammi fyrir þegar kemur að aðgengi að framhaldsskólum landsins. Lögum samkvæmt eiga öll ungmenni, til 18 ára aldurs, rétt á námi við hæfi.

Það er algjörlega ólíðandi að fötluðum ungmennum og aðstandendum þeirra sé boðið upp á þetta misrétti ár eftir ár. Framhaldsskólakerfið þarf að ganga í takt við þá bylgju sem á sér stað í samfélaginu öllu um mikilvægi inngildingar í leik og starfi.“ Segir Sara Dögg, verkefnastjóri Þroskahjálpar.

Sara Dögg ræddi stöðuna nánar m.a. í Bítinu á Bylgjunni og á RÚV.

 Bítið - hlusta hér

RÚV - lesa frétt

Þroskahjálp kallar eftir því að nú verði brugðist við í eitt skipti fyrir öll. Mennta- og barnamálaráðherra þarf að tryggja að gert sé ráð fyrir þessum hópi, líkt og öðrum tilvonandi framhaldsskólanemum, með því fjármagni og rými sem þarf til. Þroskahjálp leggur mikla áherslu á það að allir umsækjendur fái viðunandi skólaúrræði, en ekki sérútbúin úrræði.