ÁLYKTANIR FULLTRÚAFUNDAR

Á fulltrúafundi samtakanna sem haldinn var í Varmahlíð 17. - 19. október sl. voru eftirfarandi ályktanir samþykktar:

Á fulltrúafundi samtakanna sem haldinn var í Varmahlíð 17. - 19. október sl. voru eftirfarandi ályktanir samþykktar:


1.           Landssamtökin Þroskahjálp skora á sveitarfélögin í landinu að skoða niðurstöður úr  nýlegu mati Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands á flutningi þjónustu við fatlað fólk til sveitarfélaga. Landssamtökin Þroskahjálp telja að margt af því sem fram kemur í matinu sé þess eðlis að hægt sé að nota það til að bæta þjónustu við fatlað fólk með markvissari vinnubrögðum.

Landssamtökin Þroskahjálp hafa haldið því fram um áratugaskeið að alltof lítið fjármagn sé ætlað í þessa mikilvægu þjónustu, nú hafa sveitarfélögin í landinu tekið undir það sjónarmið. Landssamtökin Þroskahjálp hvetja því ríki og sveitarfélög til að endurskoða kostnaðarskiptingu vegna aðstoðar við fatlað fólk. Þess sé sérstaklega gætt að fólk með miklar þjónustuþarfir beri þar ekki skertan hlut frá borði.

Samtökin beina einnig þeim tilmælum til aðila, að í allri umræðu um fjárhagslegar forsendur yfirfærslunnar sé það haft í huga að um er að ræða lögbundna þjónustu við fólk sem m.a. er veitt á grundvelli alþjóðlegra mannréttindasáttmála.

2.           Landssamtökin Þroskahjálp skora á forsætisráðuneytið að unnið verði af fullum krafti  að þeirri úttekt sem hófst árið 2012 á aðstæðum fatlaðra barna sem vistuð voru á stofnunum á árum áður. Það er mikilvægt að gengið sé úr skugga um aðbúnað þeirra eins og annarra vistheimilabarna. Í framhaldinu sé réttarstaða þeirra skoðuð.

3.           Landssamtökin Þroskahjálp mótmæla síendurteknum hækkunum á kostnaðarhlutdeild öryrkja vegna sjúkrakostnaðar og hjálpartækja. Samtökin eru þeirrar skoðunar að hjálpartæki sem fólk þarf að nota vegna fötlunar sinnar eigi að vera þeim að kostnaðarlausu.

4.           Landssamtökin Þroskahjálp telja að taka þurfi sérstakt tillit til öryrkja ef innleiða á hærri skatt á matvæli þar sem sá hópur noti stærri hlut framfærslutekna sinna til  matarinnkaupa. Samtökin benda á að hækkun barnabóta vegur ekki upp þann kostnaðarauka hjá einstaklingum eða barnlausum pörum.

5.           Landssamtökin Þroskahjálp beina þeim tilmælum til sveitarfélaga að þau virði í einu og öllu þann rétt sem fatlað fólk og fjölskyldur þeirra eiga á þjónustu skv. lögum um aðstoð við fatlað fólk. Það að heilu þjónustusvæðin leggi niður lögbundna þjónustu á þeim forsendum að ekki fáist nægilegt fé til rekstrar er forkastanlegt. Viðbrögð Velferðaráðuneytisins við slíkum vinnubrögðum vekja upp spurningar um hvaða réttarvörn fatlað fólk og fjölskyldur þeirra geti vænst þaðan. Lagafyrirmæli eru skýr um að ráðuneytið beri ábyrgð á yfirstjórn málaflokksins og eigi að hafa eftirlit með framkvæmd þjónustunnar.  

6.           Landssamtökin Þroskahjálp átelja mikinn seinagang í uppbyggingu félagslegs húsnæðis ætluðu fötluðu fólki. Langir biðlistar eftir slíku húsnæði og þjónustu eru algjörlega óásættanlegir.  Landssamtökin Þroskahjálp minna á áminningar  Ríkisendurskoðunar  frá árinu 2010 um hámarksbiðtíma eftir þjónustu. Brugðist var við þessum tilmælum með reglugerð um „þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum“.

Í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar er sveitarfélögum uppálagt að virða þau tímamörk sem fram koma í umræddri reglugerð jafnframt því er áréttað að velferðaráðuneytið hafi eftirlit með og fylgi eftir að sveitarfélög fari eftir reglugerðinni.   

7.           Landssamtökin Þroskahjálp hvetja stjórnvöld, í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og hagsmunasamtök fatlaðs fólks að  gera stórátak í atvinnumálum þess.  Við innleiðingu starfsgetumats í stað örorkumats  þarf að tryggja öllum jafnan aðgang að starfshæfingu.

Fyrir fatlað fólk  er atvinnuþátttaka ekki einvörðungu mikilvæg af fjárhagslegum ástæðum heldur einnig og ekki síður hefur hún félagslegt gildi fyrir einstaklinginn.

8.           Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að Stígamót hafa nýverið ráðið sérmenntaðan starfsmann til að sinna  fötluðu fólki sem orðið hefur fyrir ofbeldi. Samtökin benda á  þá staðreynd að fatlað fólk, bæði fullorðnir og börn, eru því miður frekar útsett fyrir ofbeldi en aðrir. Því ættu aðrar stofnanir samfélagsins sem vinna að slíkum málum að taka sér Stígamót til fyrirmyndar og efla sérþekkingu sína hvað varðar fatlanir og fatlað fólk.

9.           Landssamtökin Þroskahjálp benda á mikilvægi þess að fólki með þroskahömlun sé tryggð þátttaka í félagslífi og tómstundum. Í nýlegri könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands voru foreldrar spurðir hvort þeir teldu að börn sín upplifðu sig einmana. Um 40% foreldra töldu að börn sín upplifðu sig oft einmana. Þegar foreldrar eru spurðir hvað hindri barnið í þátttöku í félagslífi og tómstundum eru þrjár algengustu ástæðurnar: Vantar félagsskap, vantar aðstoð og vegna fjárhagsaðstæðna. Þegar fullorðið fatlað fólk var spurt voru þessi sömu atriði efst á blaði.

Landssamtökin Þroskahjálp hvetja alla aðila til að takast á við það verkefni að rjúfa félagslega einangrun og einsemd fatlaðs fólks á öllum aldri.          

10.        Landssamtökin Þroskahjálp hvetja félags- og húsnæðismálaráðherra, Alþingi og sveitarfélögin í landinu til að tryggja framhald tilraunverkefnisins um Notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Eins og staðan er í dag eru þátttakendur verkefnisins í óvissu með framhald þess frá og með næstu áramótum þar sem ekki hefur verið gefin út afgerandi yfirlýsing frá stjórnvöldum um fjármögnun.