ALÞJÓÐLEGI MANNRÉTTINDADAGURINN 10. DESEMBER.

ALÞJÓÐLEGI MANNRÉTTINDADAGURINN 10. DESEMBER.

 

Stattu vörð um réttindi einhvers!

 

Á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna segir um mannréttindadaginn:

Alþjóðlegi mannréttindadagurinn er haldinn 10. desember ár hvert. Þann dag árið 1948 var mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna samþykkt á allsherjarþingi þeirra.

Þessi dagur er til þess að minna okkur á skyldu okkar til að standa vörð um mannréttindi og ekki aðeins mannréttindi okkar sjálfra, heldur mannréttindi alls fólks. Margir hafa áhyggjur af þróun heimsmála. Brot gegn grundvallarréttindum fólks eru enn algeng hvarvetna í heiminum. Öfgaöfl beita fólk hroðalegu ofbeldi. Áróður sem þrífst á fordómum og hatri dynur á fólki. Mannúð og mannleg gildi eiga undir högg að sækja.

Við verðum að standa vörð um það mannlega sem við eigum saman og berum öll sameiginlega ábyrgð á. Við getum öll skipt máli og haft áhrif, sama hvar við erum. Á götunum, í skólunum, í vinnunni, í umferðinni, í kjörklefunum og á samfélagsmiðlunum.

Nú er stundin til að taka þátt og axla ábyrgð. Við öll, fólkið í heiminum, getum staðið vörð um réttindi allra. Og saman getum við tryggt meiri mannúð og virðingu fyrir mannlegum gildum.

Þetta er í okkar höndum. Stígðu fram og taktu afstöðu með réttindum flóttamanns eða innflytjanda, fatlaðs fólks, samkynhneigðs einstaklings, konu, barns, frumbyggja, minnihlutahóps eða einhvers annars sem hætta er á að þurfi að þola mismunun eða ofbeldi af einhverju tagi.

 

Landssamtökin Þroskahjálp taka heils hugar undir þessa hvatningu til okkar allra!

Frétt frá SÞ má lesa hér