Umsögn Þroskahjálpar um stafrænt pósthólf - nánari ákvæði um framkvæmd

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um stafrænt pósthólf – nánari ákvæði um framkvæmd

                                                                                                                                26. janúar 2023

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að fyrri ábendingum samtakanna varðandi það mál, sem hér er til umsagnar, hefur verið vel tekið og við þeim brugðist.

Samtökin vilja á þessu stigi koma eftirfarandi ábendingum á framfæri.

  • Mjög mikilvægt ervað það verði sett í reglugerð að ekki sé heimilt að rukka fólk fyrir notkun á pósthólfinu umfram það sem fólk væri rukkað fyrir pappírsviðskipti almennt (seðilgjöld).

 

  • Mjög mikilvægt er að það sé skýr heimild í reglum til að nýta ekki þessa aðferð til samskipta við stjórnvöld og einkaaðila sem hafa heimild til birtingar í pósthólfinu, sem og að hætta að nýta þessa aðferð kjósi einstaklingur að gera það af einhverjum ástæðum.  

 

  • Þá benda samtökin á að það kunni að vera þörf á að skoða sérstaklega aðstæður og þarfir einstaklinga, sem eru t.a.m. með væga þroskahömlun og hafa ekki mikinn félagslegan stuðning og eru ekki með rafræn skilríki vegna skorts á færni / tækjabúnaði / stuðningi. Hvernig á t.d. að fara með mál þegar einstaklingur með slíka röskun sér ekki tilkynningu í stafrænu pósthólfi, sem varðar einhvers konar innheimtu kröfu eða sektar þar sem greiðsludráttur getur leitt til verulega aukinnar greiðsluskyldu eða mögulega haft önnur íþyngjandi réttaráhrif.

 

Landssamtökin Þroskahjálp ítreka vilja og áhuga til samráðs við stjórnvöld um þróun stafrænnar þjónustu, sérstaklega m.t.t. þess að við þá þróun verði tekið fullt tillit til aðstæðna, þarfa og réttinda fatlað fólks og vísa í því sambandi til samráðsskyldu stjórnvalda, sem er áréttuð sérstaklega í 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og hljóðar svo:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. 

Virðingarfyllst,

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, sérfræðingur í málefnum fatlaðs fólks

 

Nálgast má mál sem umögnin á við hér.