Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um reglugerð um ættleiðingar

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um reglugerð um ættleiðingar                                                    

          19. júní 2023

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og heimsmarkmiðum SÞ.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er í gangi af hálfu ríkisins sérstök landsáætlun um innleiðingu hans. Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki raunhæf tækifæri til virkrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra og án aðgreiningar.

4. gr. samningsins hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar. Þar segir m.a.:

Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að efla og tryggja að fullu öll mannréttindi og grundvallarfrelsi fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi á grundvelli fötlunar.

 Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

a) að samþykkja alla viðeigandi löggjöf og ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og aðrar ráðstafanir til að tryggja þau réttindi sem viðurkennd eru með samningi þessum,

b) að gera allar viðeigandi ráðstafanir, þar á meðal með lagasetningu, til þess að gildandi lögum, reglum, venjum og starfsháttum, sem fela í sér mismunun gagnvart fötluðu fólki, verði breytt eða þau afnumin, ... .

Í 5. gr. samningsins er kveðið á um bann við mismunun á grundvelli fötlunar og skyldu ríkja til að tryggja fötluðu fólki viðeigandi aðlögun. Greinin hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun og hljóðar svo:

  1. Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
  2. Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er.
  3. Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða.
  4. Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa. (Undirstr. og feitletr. Þroskahj.).

23. gr. samningsins hefur yfirskriftina Virðing fyrir heimili og fjölskyldu. Þar segir:


     1.      Aðildarríkin skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir í því skyni að uppræta mismunun gagnvart fötluðu fólki í öllum málum sem lúta að hjónabandi, fjölskyldu, foreldrahlutverki og samböndum, á sama hátt og gildir um aðra, til þess að tryggja:
         a)          að réttur alls fatlaðs fólks, sem hefur náð tilskildum aldri, til að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu, með frjálsu og fullu samþykki hjónaefnanna, sé virtur,
         b)          að réttur fatlaðs fólks til frjálsrar og ábyrgrar ákvarðanatöku um fjölda barna og tíma milli fæðinga og til að hafa aðgang, sem hæfir aldri þess, að upplýsingum og fræðslu um frjósemisheilbrigði og fjölskylduáætlanir sé viðurkenndur og að því séu veitt nauðsynleg úrræði sem gera því kleift að nýta sér þennan rétt,
         c)          að fatlað fólk, þ.m.t. börn, fái haldið frjósemi sinni til jafns við aðra.
     2.      Aðildarríkin skulu tryggja réttindi og ábyrgð fatlaðs fólks að því er varðar lögráð, forsjá, fjárhald, ættleiðingar barna eða sambærilega þætti, þar sem þessi hugtök eru til í landslögum; skulu hagsmunir barnsins í öllum málum vera í fyrirrúmi. Aðildarríkin skulu veita fötluðu fólki viðeigandi aðstoð við að uppfylla skyldur sínar sem uppalendur barna.
     3.      Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum jafnan rétt með tilliti til fjölskyldulífs. Til þess að þessi réttur verði að veruleika og í því skyni að koma í veg fyrir að fötluðum börnum sé leynt, þau yfirgefin, vanrækt eða að þau séu þolendur aðgreiningar skuldbinda aðildarríkin sig til þess að veita fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra snemma alhliða upplýsingar, þjónustu og stuðning.
     4.      Aðildarríkin skulu tryggja að barn sé ekki tekið frá foreldrum sínum gegn vilja þeirra nema til þess bær yfirvöld ákveði, með fyrirvara um endurskoðun dómstóla og í samræmi við gildandi lög og málsmeðferð, að slíkur aðskilnaður sé nauðsynlegur vegna þess sem er barninu fyrir bestu. Barn skal aldrei taka frá foreldrum sínum á grundvelli fötlunar barnsins eða annars foreldris eða beggja.
     5.      Aðildarríkin skulu reyna til þrautar, ef kjarnafjölskylda getur ekki annast fatlað barn, að sjá barninu fyrir annarri umönnun innan stórfjölskyldunnar, en að öðrum kosti tryggja því umönnun hjá fjölskyldu innan nærsamfélagsins.
(Feitletr. Þroskahj.).

Landssamtökin Þroskahjálp leggja mjög mikla áherslu á að stjórnvöld standi vel við þær skyldur sínar samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks að gæta þess sérstaklega við setningu laga og reglna að öll ákvæði þeirra, þar með talið ákvæði þeirrar reglugerðar sem hér er til umsagnar, séu í fullu samræmi við kröfur og skilyrði sem leiða af ákvæðum samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks.

Samtökin lýsa miklum vilja og áhuga á að eiga samstarf og samráð við dómsmálaráðuneytið tryggja að lög og reglur varðandi ættleiðingar og skyld mál taki nauðsynlegt tillit til aðstæðna, þarfa og réttinda fatlaðs fólks, þ.m.t. fólks með þroskahömlun, einhverfs fólks og fólks með skyldar fatlanir og vísa í því sambandi til samráðsskyldu stjórnvalda sem er áréttuð sérstaklega í 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks og hljóðar svo:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér.