Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp um Mannréttindastofnun Íslands

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp um Mannréttindastofnun Íslands                                                 

          27. júní 2023

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum SÞ.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna því að þetta frumvarp hafi verið lagt fram og fyrirætlunum um setningu laga um stofnun Mannréttindastofnunar Íslands. Samtökin hvetja til þess að lagasetningunni og framkvæmd laganna verði hraðað eins og nokkur kostur er og benda í því sambandi á að þjóðréttarleg skylda til að setja á fót mannréttindastofnun, sem uppfyllir Parísar-meginreglurnar (e. Paris Principles) féll á íslenska ríkið fyrir næstum 7 árum, þ.e. við fullgildingu þess á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016.

Þá fagna samtökin því að gert skuli ráð fyrir að réttindagæsla fyrir fatlað fólk falli undir mannréttindastofnunina. Það hefur frá stofnun réttindagæslunnar með lögum nr. 88/2011 verið ljóst að réttindagæslan á ekki heima undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Sú staðsetning hennar í stjórnkerfinu samræmist engan veginn kröfum, sem gera verður í réttarríki til að eftirlit af þessu tagi sé sem óháðast stjórnvöldum, sem það beinist oft að, beint eða óbeint. Samtökin skora því á ríkisstjórnina og Alþingi að koma réttindagæslunni sem fyrst undir sjálfstæða mannréttindastofnun. Samtökin telja að það megi vel gera mjög fljótt, þar sem skipulag og verkefni réttindagæslunnar er með þeim hætti að það krefst alls ekki flókinna eða tímafrekra breytinga á lögum, reglum og/eða stjórnkerfi.

Samtökin árétta sérstaklega mikilvægi þess að við undirbúning og setningu laga um mannréttindastofnun og alla framkvæmd þeirra laga verði sérstaklega gætt að samráðsskyldum ríkisins samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks og að tekið verði fullt tillit til aðstæðna og þarfa fatlaðs fólks, þ.m.t. og sérstaklega fólks með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir. Í því sambandi er afar mikilvæg sú skýra skylda ríkisins að gæta sérstaklega að rétti fatlaðs fólks til viðeigandi aðlögunar til að tryggja að fólki verði ekki mismunað á grundvelli fötlunar hvað varðar tækifæri til að taka virkan og innihaldsríkan þátt í samráðinu og til að koma reynslu sinni og sjónarmiðum á framfæri á öllum stigum þeirrar vinnu og framkvæmdar.

Í þessu sambandi vísa samtökin sérstaklega til eftirfarandi ákvæða í 4. og 33. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hafa yfirskriftirnar Almennar skuldbindingar og Framkvæmd og eftirlit innanlands. Í þessum greinum segir:

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Borgaralegt samfélag, einkum fatlað fólk og samtök sem koma fram fyrir þess hönd, skal eiga hlut að og taka fullan þátt í eftirlitsferlinu.

 

Við framfylgd þessara skyldna stjórnvalda er sérstaklega mikilvægt, eins og fyrr sagði, að fatlað fólk og þar með talið fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir, njóti ávallt viðeigandi aðlögunar, sem er grundvallarréttur samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlað fólks, sbr. 5. gr. hans sem hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun og hljóðar svo:


     1.      Aðildarríkin viðurkenna að allar manneskjur eru jafnar fyrir og samkvæmt lögum og eiga rétt á jafnri vernd og jöfnum ávinningi af lögum án nokkurra mismununar.
     2.      Aðildarríkin skulu banna hvers kyns mismunun á grundvelli fötlunar og tryggja fötluðu fólki jafna og árangursríka réttarvernd gegn mismunun af hvaða ástæðu sem er. 
     3.      Aðildarríkin skulu, í því skyni að efla jafnrétti og uppræta mismunun, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fötluðu fólki standi viðeigandi aðlögun til boða. 
     4.      Eigi ber að líta á sértækar aðgerðir, sem eru nauðsynlegar til þess að flýta fyrir eða ná fram raunverulegu jafnrétti fyrir fatlað fólk, sem mismunun í skilningi samnings þessa. 

 

Viðeigandi aðlöguner skilgreind svo í2. gr. samningsins, sem hefur yfirskriftina Skilgreiningar:

 

  „Viðeigandi aðlögun“ merkir nauðsynlegar og viðeigandi breytingar og lagfæringar, sem eru ekki umfram það sem eðlilegt má teljast eða of íþyngjandi, þar sem þeirra er þörf í sérstöku tilviki, til þess að tryggt sé að fatlað fólk fái notið eða geti nýtt sér, til jafns við aðra, öll mannréttindi og grundvallarfrelsi.

 

Þá vilja Landssamtökin Þroskahjálp, á þessu stigi, koma eftirfarandi ábendingum og óskum á framfæri varðandi frumvarpsdrögin:

  • Í frumvarpsdrögunum kemur ekkert fram um hversu burðug mannréttindastofnun á að vera m.t.t. fjölda starfsfólks, fjölbreytilegrar sérþekkingar á mörgum og mikilvægum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum, ýmsum sviðum mannréttinda og aðstæðum og þörfum ýmissa hópa sem eru sérstaklega berskjaldaðir fyrir mismunun og öðrum mannréttindabrotum og annars sem augljóslega ræður mjög miklu um að stofnunin geti sinnt mjög margvíslegum og mikilvægum verkefnum sínum með skilvirkum og áhrifaríkum hætti. Samtökin leggja mikla áherslu á að fjármögnun og mönnun stofnunarinnar verður að vera í fullu samræmi við verkefnin og þarfirnar til að stofnunin teljist uppfylla skilyrði og kröfur sem leiða af Parísarviðmiðum Sameinuðu þjóðanna.
  • Í ljósi þess að mannréttindastofnun verður að uppfylla þjóðréttarlegar skyldur og kröfur samkvæmt samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks vaknar sú spurning hvort ekki sé rétt að mæla sérstaklega fyrir um að framkvæmdastjóri stofnunarinnar verði að búa yfir tiltekinni lágmarksþekkingu á samningnum sem og aðstæðum og þörfum fatlaðs fólks.
  • Skoða þarf hvort ekki sé nauðsynlegt að gera ráð fyrir greiðslum til samtaka sem eiga fulltrúa í ráðagjafarnefndinni þar sem augljóst er að virk þátttaka í henni mun kalla á umtalsverða vinnu.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

 

Nálgast má frumvarp sem umsögnin á við hér.