Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, 238. mál

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, 238. mál                                                                                                          

  24. október 2023

Landssamtökin Þroskahjálp þakka fyrir að hafa fengið frumvarpið til umsagnar og vilja koma eftirfarandi á framfæri í sambandi við það.

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undigengist, sem og á heimsmarkmiðum SÞ, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Íslenska ríkið fullgilti samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er í gangi af hálfu ríkisins framkvæmd sérstakrar landsáætlunar um innleiðingu hans. Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki raunhæf tækifæri til virkrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra og án aðgreiningar.

Í samningnum er lögð sérstök áhersla á skyldur ríkja til að tryggja fötluðum börnum og ungmennum sömu réttindi og tækifæri og önnur börn hafa og nægilegan stuðning og vernd til að það geti orðið að veruleika.

Í samningnum eru ýmis ákvæði sem geta augljóslega haft mikla þýðingu í sambandi við það

mál sem hér er til umsagnar, s.s. í 5. gr. samningsins hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við

mismunun, í 7. gr. samningsins hefur yfirskriftina Fötluð börn og í 24. gr. samningsins hefur

yfirskriftina Menntun.

 

Vilja samtökin benda á mikilvægi þess að skýrt sé að nýrri stofnun sé ætlað að styðja  við skóla án aðgreiningar og að aukið verði við stuðning við skólastarf hvað varðar menntun barna og ungmenna sem hafa sértækar þarfir og þá sérstaklega nemendur með þroskahömlun eða skyldar fatlanir og nemendur með einhverfu.

 

Samtökin  ítreka og árétta að skólaþjónusta við fötluð börn  og ungmenni þarf sérstaklega á heildrænni skoðun að halda í landinu öllu. Þörfin er mikil og  þá sérstaklega í tengslum við ráðgjöf, námsefnisgerð, stuðningsúrræði fyrir nemendur með  fjölþættan vanda og fyrir þá einstaklinga sem þurfa á einstaklingsmiðaðri nálgun að halda.

Mikill skortur er á viðeigandi og nauðsynlegri ráðgjöf fyrir kennara, annað starfsfólk skólanna, nemendur og aðstandendur þeirra.

Stefna um menntun án aðgreiningar á Íslandi var tekin út af Evrópumiðstöðinni, sem er stofnun 30 Evrópuríkja sem vinna saman að málefnum varðandi menntun án aðgreiningar og sérþarfir í námi. Í úttektinni opinberuðust ýmsir mjög alvarlegir vankantar varðandi framkvæmd menntunar án aðgreiningar á Ísland. Í ljós kom m.a. að mismunandi skilningur er lagður í hugtakið menntun án aðgreiningar á öllum skólastigum og skortur er á skýrari leiðsögn um framkvæmdina, eftirlit og mat á árangri. Til að menntun án aðgreiningar geti staðið undir nafni og skilað þeim mikla ávinningi fyrir nemendur og samfélagið allt sem hún getur ef vel er á málum haldið þarf að bregðast við þessu með mun markvissari og öflugri hætti en gert hefur verið.

Verði frumvarp þetta að lögum er því afar mikilvægt að ný stofnun, Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, leggi sérstaka áherslu á að styðja við stefnu um menntun án aðgreiningar og leggi mjög mikla áherslu á hana í uppbyggingu skipulagi og starfsemi stofnunarinnar.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

 

Nálgast má frumvarp sem umsögnin á við hér.