Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um breytingu á reglugerð um söfnunarkassa

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um breytingu á reglugerð um söfnunarkassa                                                   

          27. júní 2023

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og fötluð börn. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og heimsmarkmiðum SÞ.

Rannsóknir sýna að fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk er berskjaldað fyrir spilafíkn af því tagi sem lýst er umsögn embættis landlæknis um breytingu á lögum um happdrætti Háskóla Íslands og lögum um happdrætti (bann við spilakössum), þingskjal 1086 — 629. mál. Sjá hlekk að neðan.

https://www.althingi.is/altext/erindi/151/151-3088.pdf

Þá er mikill skortur hér á landi á viðeigandi meðferð við fíkn fyrir fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverft fólk.

Með vísan til þess sem að framan segir og þess sem fram kemur í framangreindri umsögn landlæknis er það afstaða samtakanna að rétt sé að banna spilakassa, eins og samtökin komu á framfæri í umsögn sinni um ofannefnt frumvarp. Um rök fyrir þeirri afstöðu vísa samtökin til þess sem fram kemur í framangreindri umsögn landlæknis.

Samtökin telja ríka ástæðu til að ætla að þær breytingar, sem fyrirhugað er að gera samkvæmt 3. gr. þeirra reglugerðardraga sem hér eru til umsagnar, á 4. gr. reglugerðar nr. 320/2018, um söfnunarkassa, sem hefur yfirskriftina Staðsetning sé til þess fallin að auka enn aðgengi að söfnunarkössum. Samtökin eru því mótfallin þeirri breytingu og telja að gera ætti breytingar á þeirri grein sem hefðu það skýrt að markmiði og leiddu í framkvæmd til að dregið yrði úr aðgengi að söfnunarkössum.

Þá telja samtökin að ákvæði í reglugerðardrögunum og reglugerðinni varðandi ábyrga spilahegðun og heilsu almennings og eftirlit séu mjög óljós og afar ólíkleg til að hafa veruleg áhrif í framkvæmd. 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Árni Múli Jónasson, framkvæmdastjóri Þroskahjálpar

 

Nálgast má frumvarp sem umsögnin á við hér