Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um breytingu á lögum um framhaldsskóla (vinnustaðanám, innritun o.fl.)

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um áform um breytingu á lögum um framhaldsskóla (vinnustaðanám, innritun o.fl.)

Landssamtökin Þroskahjálp vinna að réttinda- og hagsmunamálum fatlaðs fólks, með sérstaka áherslu á fötluð börn og ungmenni og fólk með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir. Samtökin byggja stefnu sína á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, Barnasáttmála SÞ og öðrum fjölþjóðlegum mannréttindasamningum sem íslenska ríkið hefur undirgengist, sem og á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, sem hafa það meginmarkmið að skilja engan eftir.

Íslenska ríkið fullgilti samning SÞ um réttindi fatlaðs fólks árið 2016 og skuldbatt sig þar með til að framfylgja öllum ákvæðum hans. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að samningurinn verði lögfestur og þá er hafin af hálfu ríkisins framkvæmd sérstakrar landsáætlunar um innleiðingu hans. Meginmarkmið samningsins er að tryggja fötluðu fólki raunhæf tækifæri til virkrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins til jafns við aðra og án aðgreiningar.

Í samningnum er lögð sérstök áhersla á skyldur ríkja til að tryggja fötluðum börnum og ungmennum sömu réttindi og tækifæri og önnur börn hafa og nægilegan stuðning og vernd til að það geti orðið að veruleika.

Landssamtökin Þroskahjálp leggja því mikla áherslu á að lög sem varða börn og ungmenni sérstakalega taki fullt tillit til aðstæðna, þarfa og réttinda fatlaðra barna og ungmenna almennt og sérstaklega barna og ungmenna með þroskahömlun og/eða skyldar fatlanir og einhverfra barna og ungmenna. Það er mjög afdráttarlaus og mikilvæg skylda íslenska ríkisins að gæta þessa við lagasetningu af þessu tagi og sérstaklega þegar um er að ræða réttindi eða þjónustu sem varða alþjóðlega viðurkennd mannréttindi, eins og á við um aðgang að menntun.

Þessi skylda er sérstaklega áréttuð í 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks, sem hefur yfirskriftina Almennar skuldbindingar.

Í samningnum eru ýmis ákvæði sem geta augljóslega haft mikla þýðingu í sambandi við það mál sem hér er til umsagnar, s.s. í 5. gr. samningsins hefur yfirskriftina Jafnrétti og bann við mismunun, í 7. gr. samningsins hefur yfirskriftina Fötluð börn og í 24. gr. samningsins hefur yfirskriftina Menntun.

Landssamtökin fagna því ef breyta áreglum um innritun í framhaldsskóla og þá með tilliti til þarfa fatlaðra ungmenna, nemenda með langvarandi stuðningsþarfir og nemenda með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakrunn. Hingað til hafa fötluð ungmenni ekki haft jafnan aðgang  að námi eftir áhugasviði og stuðningsþörfum. Þetta væri skref í rétta átt að inngildandi námi á framhaldsskólastigi og aðgangi að fjölbreytni í námi.

 

Landssamtökin Þroskahjálp lýsa miklum áhuga og vilja til samráðs við mennta- og barnamálaráðuneytið við það mikilvæga verkefni og vísa í því sambandi til eftirfarandi ákvæðis 3. mgr. 4. gr. samnings SÞ um réttindi fatlaðs  fólks.

Við þróun og innleiðingu löggjafar og stefnu við innleiðingu samnings þessa og við annað ákvörðunartökuferli varðandi málefni fatlaðs fólks, skulu aðildarríkin hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess, þar á meðal fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

 

Virðingarfyllst.

Unnur Helga Óttarsdóttir, formaður Þroskahjálpar

Anna Lára Steindal verkefanstjóri hjá Þroskahjálp

Sara Dögg Svanhildardóttir, verkefnastjóri hjá Þroskahjálp

 

Nálgast má mál sem umsögnin á við hér