Samningur Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, greinar 3

3.grein Meginreglur samnings þessa eru eftirfarandi:

a) virðing fyrir meðfæddri göfgi, sjálfræði einstaklinga, þar með talið frelsi til að taka eigin ákvarðanir, og sjálfstæði þeirra,
h
) virðing fyrir síbreytilegri getu fatlaðra barna og virðing fyrir rétti þeirra til að varðveita sjálfsmynd sína,

4. gr. Almennar skuldbindingar.

1. Aðildarríkin skuldbinda sig til þess að tryggja og stuðla að því að öll mannréttindi og mannfrelsi verði í einu og öllu að veruleika fyrir allt fatlað fólk án mismununar af nokkru tagi vegna fötlunar. Aðildarríkin skuldbinda sig í þessu skyni til:

3. Aðildarríkin skulu, þegar þau undirbúa og beita löggjöf sinni og stefnu samningi þessum til framkvæmdar og vinna að ákvarðanatöku um málefni fatlaðs fólks, hafa náið samráð við og tryggja virka þátttöku fatlaðs fólks, þ.m.t. fötluð börn, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd.

7. gr. Fötluð börn

3. Aðildarríkin skulu tryggja fötluðum börnum rétt til þess að láta skoðanir sínar óhindrað í ljós um öll mál er þau varða, jafnframt því að sjónarmiðum þeirra sé gefinn gaumur eins og eðlilegt má telja miðað við aldur þeirra og þroska, til jafns við önnur, börn og veita þeim aðstoð, þar sem tekið er eðlilegt tillit til fötlunar þeirra og aldurs, til þess að sá réttur megi verða að veruleika.

9. gr. Aðgengi.

1. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir í því skyni að gera fötluðu fólki kleift að lifa sjálfstæðu lífi og taka fullan þátt í mannlífinu á öllum sviðum, þ.e. ráðstafanir sem miða að því að tryggja fötluðu fólki aðgang, til jafns við aðra, að hinu efnislega umhverfi, að samgöngum, að upplýsingum og samskiptum, þ.m.t. upplýsinga- og samskiptatækni og kerfi þar að lútandi, og að annarri aðstöðu og þjónustu sem almenningi er opin eða látin í té, bæði í þéttbýli og dreifbýli. Fyrrnefndar ráðstafanir, sem felast m.a. í því að staðreyna og ryðja úr vegi hindrunum og tálmum sem hefta aðgengi, skulu meðal annars ná til:

b) upplýsinga- og samskiptaþjónustu og annarrar þjónustu, þ.m.t. rafræn þjónusta og neyðarþjónusta.

2. Samningsaðilar skulu og gera viðeigandi ráðstafanir:

d) til þess að setja upp í byggingum og annarri aðstöðu, sem er almenningi opin, skilti með blindraletri og í þeirri mynd að fatlaðir eigi auðvelt með að lesa og skilja það sem á þeim stendur,

e) til þess að láta í té ýmiss konar beina aðstoð og þjónustu milliliða, þ.m.t. fylgdarmanna, lesara og faglærðra táknmálstúlka, með það að markmiði að auðvelda aðgengi að byggingum og annarri aðstöðu sem almenningi er opin,

g) til þess að greiða fyrir aðgangi fatlaðs fólks að nýrri upplýsinga- og samskiptatækni og kerfum þar að lútandi, m.a. Netinu,

h) til þess að stuðla að hönnun, þróun, framleiðslu og dreifingu aðgengilegrar upplýsinga- og samskiptatækni og kerfum þar að lútandi á frumstigi til þess að slík tækni og kerfi verði aðgengileg á sem lægstu verði.

12. gr. Réttarstaða til jafns við aðra.

1. Aðildarríkin árétta að fatlað fólk eigi rétt á því að vera viðurkennt hvar sem er sem aðilar að lögum.

2. Aðildarríkin viðurkenni að fatlað fólk skuli njóta gerhæfis til jafns við aðra á öllum sviðum mannlífs.

3. Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk geti leitað eftir aðstoð sem það kann að þarfnast þegar það nýtir gerhæfi sitt.

4. Aðildarríkin skulu tryggja að allar ráðstafanir, sem varða beitingu gerhæfis, innihaldi viðeigandi og árangursríkar verndarráðstafanir til þess að koma í veg fyrir misnotkun í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög. Fyrrnefndar verndarráðstafanir skulu tryggja að með ráðstöfunum, sem varða beitingu gerhæfis, séu réttindi, vilji og séróskir viðkomandi einstaklings virt, slíkar ráðstafanir leiði ekki til hagsmunaárekstra eða hafi ótilhlýðileg áhrif, þær séu við hæfi og sniðnar að aðstæðum viðkomandi einstaklings, gildi í sem skemmstan tíma og séu endurskoðaðar reglulega af til þess bæru, sjálfstæðu og hlutlausu yfirvaldi eða stofnun á sviði dómsmála.

Gæta ber meðalhófs við gerð verndarráðstafana að því marki sem slíkar ráðstafanir hafa áhrif á réttindi og hagsmuni viðkomandi einstaklings.

5. Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi og árangursríkar ráðstafanir, samkvæmt ákvæðum þessarar greinar, til þess að tryggja jafnan rétt fatlaðs fólks til þess að eiga eða erfa eignir, að stýra eigin fjármálum og hafa jafnan aðgang að bankalánum, veðlánum og annars konar fjárhagslegum lánum, jafnframt því að tryggja að fatlað fólk sé ekki svipt eignum sínum að geðþótta.

14. gr. Frelsi og mannhelgi.

1. Aðildarríkin skulu tryggja að fatlað fólk:

a) njóti, til jafns við aðra, réttar til frelsis og mannhelgi,

b) sé ekki svipt frelsi sínu með ólögmætum hætti eða að geðþótta og að frelsissvipting í hvaða mynd sem er sé lögum samkvæmt og að fötlun skuli ekki undir neinum kringumstæðum réttlæta frelsissviptingu.

2. Sé fatlað fólk svipt frelsi með einhverjum hætti skulu aðildarríkin ábyrgjast að því séu tryggð mannréttindi til jafns við aðra í samræmi við alþjóðleg mannréttindalög og það hljóti meðferð sem samræmist markmiðum og meginreglum samnings þessa, meðal annars með því að tryggja því viðeigandi aðlögun.

17. gr. Verndun friðhelgi einstaklingsins.

Sérhver fatlaður einstaklingur á rétt á því, til jafns við aðra, að líkamleg og andleg friðhelgi hans sé virt.

18. gr. Umferðarfrelsi og ríkisfang.

1. Aðildarríkin skulu viðurkenna rétt fatlaðs fólks, til jafns við aðra, til umferðafrelsis og frelsis til að velja sér búsetu og ríkisfang, m.a. með því að ábyrgjast að fatlað fólk:

a) hafi rétt til að öðlast ríkisfang og breyta því og sé ekki svipt ríkisfangi sínu að geðþótta eða vegna fötlunar,

b) sé ekki, vegna fötlunar, svipt hæfi sínu til að fá, hafa umráð yfir og nýta sér skjöl um ríkisfang sitt eða önnur auðkenningarskjöl eða til að hagnýta viðeigandi verklag, t.d. málsmeðferð vegna innflutnings fólks, sem kann að vera nauðsynlegt til þess að gera því auðveldar um vik að nýta sér réttinn til umferðafrelsis,

c) hafi frelsi til að yfirgefa hvaða land sem er, þar með talið sitt eigið,

d) sé ekki, að geðþótta eða vegna fötlunar, svipt réttinum til að koma til síns eigin lands.

2. Fötluð börn skulu skráð þegar eftir fæðingu og eiga frá fæðingu rétt til nafngiftar, rétt til þess að öðlast ríkisfang og, efir því sem unnt er, rétt til þess að þekkja foreldra sína og njóta umönnunar þeirra. - 12 –

19. gr. Að lifa sjálfstæðu lífi og án aðgreiningar í samfélaginu.

Ríkin, sem eru aðilar að samningi þessum, viðurkenna jafnan rétt alls fatlaðs fólks til að lifa í samfélaginu og rétt þess til að eiga valkosti til jafns við aðra og skulu gera árangursríkar og viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk megi njóta þessa réttar til fulls og stuðla að fullri þátttöku þess í samfélaginu án aðgreiningar, meðal annars með því að tryggja:

a) fötluðu fólki tækifæri til þess að velja sér búsetustað og hvar og með hverjum það býr, til jafns við aðra, og að því sé ekki gert að eiga heima þar sem tiltekið búsetuform ríkir,

b) fötluðu fólki aðgang að margs konar samfélagsaðstoð, á borð við heimaþjónustu, vist á dvalarheimili og annars konar aðstoð, m.a. nauðsynlegri þjónustu til að geta lifað í samfélaginu án aðgreiningar og til að koma í veg fyrir einangrun þess og aðskilnað frá samfélaginu,

c) að samfélagsþjónusta og aðstaða fyrir almenning standi fötluðu fólki til boða til jafns við aðra og svari þörfum þess.

21. gr. Tjáningar- og skoðanafrelsi og aðgangur að upplýsingum.

Aðildarríkin skulu gera allar viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að fatlað fólk geti nýtt sér rétt sinn til tjáningar- og skoðanafrelsis, þ.m.t. frelsi til að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum og hugmyndum, til jafns við aðra, með hjálp hvers kyns samskiptamiðla að eigin vali, samanber skilgreiningu í 2. gr. samnings þessa, m.a. með því:

a) að láta fötluðu fólki í té upplýsingar, sem almenningi eru ætlaðar, í aðgengilegu formi og með aðgengilegri tækni, sem hæfir einstaklingum sem eiga við mismunandi fötlun að stríða, tímanlega og án aukakostnaðar,

b) að viðurkenna og stuðla að notkun táknmáls, blindraleturs, bættra og óhefðbundinna samskipta og samskiptaleiða, -aðferða og -forms, að eigin vali fatlaðs fólks þegar opinber samskipti fara fram,

c) að hvetja einkafyrirtæki, sem þjónusta almenning, m.a. gegnum Netið, til þess að veita upplýsingar og þjónustu í aðgengilegu og nothæfu formi fyrir fatlað fólk,

d) að hvetja fjölmiðla, meðal annars upplýsingaveitur á Netinu, til þess að gera þjónustu sína aðgengilega fötluðu fólki,

e) að viðurkenna notkun táknmáls og stuðla að notkun þess.

22. gr. Virðing fyrir einkalífi.

1. Enginn fatlaður einstaklingur skal, án tillits til búsetustaðar eða búsetuforms, sæta því að einkalíf hans, fjölskyldulíf, heimilislíf eða bréfaskipti eða samskipti af öðru tagi séu trufluð að geðþótta eða með ólögmætum hætti eða að vegið sé að æru hans eða orðstír með óréttmætum hætti. Fatlað fólk á rétt á því að lögin verndi það gegn fyrrnefndri truflun eða árásum.

2. Aðildarríkin skulu tryggja að farið sé með upplýsingar um persónulega hagi, heilsufar og endurhæfingu fatlaðs fólks sem trúnaðarmál á sama hátt og gildir um aðra.