Til baka
Almanak Þroskahjálpar 2023, forsíða
Almanak Þroskahjálpar 2023, forsíða

Almanak 2023

Vörunúmer
Verð með VSK
4.000 kr.

Vörulýsing

Listaverkaalmanak Landssamtakanna Þroskahjálpar 2023 er komið út.

12 listamenn eiga verk í almanaki ársins.

Hvert almanak er einnig happdrættismiði, þar sem listaverk og eftirprentanir eftir marga af ástsælustu listamönnum þjóðarinnar eru í vinning.

Landssamtökin Þroskahjálp berjast fyrir réttindum og hagsmunum fatlaðs fólks.
Á hverju ári er þetta almanakshappdrætti ein af stærstu fjáröflunum Þroskahjálpar.

Dregið verður í almanakshappdrættinu í febrúar 2023.

Í vinning eru yfir 80 listaverk, bæði frummyndir og eftirprentanir, eftir marga ástsælustu listamenn þjóðarinnar, þar á meðal þá frábæru listamenn sem eiga verk í almanaki ársins.

Sendingarkostnaður er innifalinn í verðinu.

 

Hvar kaupi ég almanakið í ár?

  • Þú getur keypt almanakið hér í vefverslun Þroskahjálpar
  • Þú getur sent tölvupóst á sala@throskahjalp.is
  • Þú getur hringt í síma 588 9390
  • Almanakið fæst einnig í bókabúðum Pennans-Eymundssonar.

 

Listamenn almanaksins 2023

Í ár fögnum við fjölbreytileikanum og kynnum almanak með listaverkum eftir 12 fatlaða listamenn.
Þessir listamenn hafa vakið athygli og verk þeirra hafa verið sýnd víða, bæði á einkasýningum sem og samsýningum hér á landi og erlendis.

Fyrir mörg þeirra hefur List án landamæra verið mikilvægur stökkpallur. Hátíðin brýtur múrinn á milli hins svokallaða almenna listheims og jaðarlistheimsins sem fatlaðir listamenn tilheyra. Innan jaðarlistheimsins hafa fatlaðir listamenn skapað kraftmikla og fjölbreytta list, en sýnileikinn er í takt við fábreytt tækifæri til þátttöku og listmenntunar.

Landssamtökin Þroskahjálp halda áfram að berjast fyrir sýnileika og tækifærum fatlaðra listamanna, og í almanaki ársins fáum við tækifæri til að kynnast og fagna listsköpun fatlaðs fólks.

 

Listaverkaalmanak Þroskahjálpar 2023

 

Janúar

LÁRA LILJA GUNNARSDÓTTIR
f. 1995

Lára Lilja vinnur með teikningar, málverk og skúlptúra sem
einkennast af djörfu litavali og næmni fyrir þeim miðlum
sem hún vinnur í.
Hún sækir vinnustofur hjá Myndlistaskólanum í Reykjavík
og hefur tekið þátt í sýningum á vegum Listar án landamæra.

 

Febrúar

ÍSAK ÓLI SÆVARSSON
f. 1989

Ísak Óli útskrifaðist úr diplómanámi Myndlistaskólans
í Reykjavík árið 2017. Hann gerir málverk af karakterum
sem eiga sér fyrirmyndir í vinsældarmenningu.

Ísak Óli hefur sýnt víða og vakið mikla athygli fyrir list sína.
Hann var listamaður Listar án landamæra árið 2012.

 

Mars

ÞÓRIR GUNNARSSON / LISTAPÚKI
f. 1978

Þórir Gunnarsson, Listapúki, er afkastamikill listamaður
sem skapar verk innblásin af hversdagsleikanum.
Hann hefur tekið þátt í fjölda sýninga og berst fyrir því
að fatlað fólk geti sótt nám í Listaháskóla Íslands.
Þórir var bæjarlistamaður Mosfellsbæjar árið 2021.

 

Apríl

GUÐRÚN BERGSDÓTTIR
f. 1970

Guðrún vann á ferli sínum með geómetríska abstraktlist.
Útsaumsverk hennar hafa vakið mikla athygli og verið sýnd
víða, nú síðast á Kjarvalsstöðum og á Safnasafninu.
Þau prýddu almanak Þroskahjálpar árið 2013.
Guðrún var listamaður Listar án landamæra árið 2011.

 

Maí

SIGTRYGGUR EINAR SÆVARSSON
f. 1996

Í myndlist Sigtryggs er sveitarómantíkin allsráðandi.
Sigtryggur býr yfir þeim fágæta hæfileika að geta teiknað
nákvæmar myndir eftir að hafa litið stutt á fyrirmyndina.
Sigtryggur starfar á Sólheimum. Hann hefur haldið
einkasýningu og tekið þátt í fjölda samsýninga.

 

Júní

EINAR BALDURSSON
f. 1970

Einar starfar á Sólheimum og hefur hlotið mikið lof
fyrir verk sín. Hann var listamaður Listar án landamæra
árið 2009.
Í verkum Einars má sjá litsterka og lifandi karaktera
í ýmsum miðlum.

 

Júlí

SIGRÚN HULD HRAFNSDÓTTIR
f. 1970

Sigrún Huld vinnur með málverk og teikningar, þar sem
eitt viðfangsefni er endurtekið. Verk hennar eru draumkennd,
og furðurverur og manngerður heimur í fyrirrúmi.
Hún var listamaður Listar án landamæra árið 2014
og hefur sýnt á fjölda sýninga.

 

Ágúst

KRISTJÁN ELLERT ARASON
f. 1958

Kristján Ellert starfar á Sólheimum. Hann vinnur mest
með útsaum, og vinnur í þemum þar sem eitt viðfangsefni
er endurtekið margsinnis.
Hann hefur sýnt á fjölda sýninga, meðal annars
hjá List án landamæra og í Þjóðminjasafninu.

 

September

ATLI MÁR INDRIÐASON
f. 1993

Atli Már útskrifaðist úr diplómanámi Myndlistaskólans
í Reykjavík árið 2017 og var listamaður Listar án landamæra
árið 2019.
Verk hans eru litrík og lifandi, þar sem karakterar
úr bíómyndum og ævintýrum eru allsráðandi.

 

Október

HELGA DÓMHILDUR ALFREÐSDÓTTIR
f. 1941

Verk Helgu Dómhildar eru litrík og bera sterk höfundareinkenni.
Hún vinnur þétt á myndflötinn og skapar ævintýralega veröld.
Helga Dómhildur vinnur að myndlist á Sólheimum
og hefur sýnt á fjölda samsýninga.

 

Nóvember

STEINAR SVAN BIRGISSON
f. 1982

Steinar Svan er jafnvígur á texta, klippimyndir, málverk,
teikningar og gjörningalist. Hann hefur sýnt myndlist
sína víða og er baráttumaður fyrir réttindum fatlaðs fólks
og hinsegin fólks, sem endurspeglast í list hans.
Steinar Svan var listamaður Listar án landamæra árið 2021.

 

Desember

GUÐJÓN GÍSLI KRISTINSSON
f. 1988

Guðjón Gísli hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir þéttofin
útsaumsverk sín og tekið þátt í fjölmörgum sýningum,
meðal annars með List án landamæra í Ráðhúsi Reykjavíkur
og á samsýningu í Prag í Tékklandi.
Guðjón Gísli vinnur útsaumsmyndir sínar á Sólheimum.