Til umhugsunar - Ögurstund í húsnæðismálum?

Ögurstund er það kallað þegar breyting verður á sjávarföllum. Þegar hættir að fjara og byrjar að falla að. Það er auðvitað hrífandi á sinn hátt en þó kannski ekki stórkostlega merkilegt. En það boðar alltaf miklar breytingar. Eins er það með mannanna verk að breytingar sem ekki virðast miklar við fyrstu sýn geta haft mikil áhrif í fyllingu tímans. Það fylgir því þess vegna oft mikil ábyrgð að breyta áherslum. Stjórnvöld sem fara með völd fyrir hönd almennings verða að gæta vel að því. Allt frá árinu 1979 hafa hérlend stjórnvöld haft þá stefnu að reyna eftir fremsta megni að laga búsetuúræði fyrir fólk með þroskahömlun að því sem almennt tíðkast í samfélaginu. Draga úr aðgreiningu og stuðla að sjálfstæði og eðlilegu lífi og samfélagslegri þátttöku.

Ögurstund í húsnæðismálum?

Umfjöllun um málefni fatlaðs fólks sem sett er fram af undirrituðum og á hans ábyrgð.

Ögurstund er það kallað þegar breyting verður á sjávarföllum. Þegar hættir að fjara og byrjar að falla að. Það er auðvitað hrífandi á sinn hátt en þó kannski ekki stórkostlega merkilegt. En það boðar alltaf miklar breytingar.

Eins er það með mannanna verk að breytingar sem ekki virðast miklar við fyrstu sýn geta haft mikil áhrif í fyllingu tímans. Það fylgir því þess vegna oft mikil ábyrgð að breyta áherslum. Stjórnvöld sem fara með völd fyrir hönd almennings verða að gæta vel að því.

Allt frá árinu 1979 hafa  hérlend stjórnvöld haft þá stefnu að reyna eftir fremsta megni að laga búsetuúræði fyrir fólk með þroskahömlun að því sem almennt tíðkast í samfélaginu. Draga úr aðgreiningu og stuðla að sjálfstæði og eðlilegu lífi og samfélagslegri þátttöku.

Í tæp 40 ár hefur allt opinbert regluverk að þessu leyti verið byggt á meðvitund um að markmiðið sem að er stefnt sé að vinna gegn stofnanavæðingu fyrri tíma.

Þangað til núna.

Á árinu 2016 sá  félags- og húsnæðismálaráðherra nefnilega einhverja ástæðu til að hverfa frá þessari þróun með setningu reglugerðar um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk. Þar eru ákvæði um að heimilt sé að byggja búsetukjarna  fyrir fatlað fólk með fleiri íbúðum og þar með íbúum en áður var heimilt að gera, nema í sérstökum undartekningatilvikum.

Réttlætingin fyrir þessu kvað vera sú að þetta sé ekki nema minni háttar breyting. En þó að þessi breyting láti svo sem ekki mikið yfir sé svona eins og hún er orðuð í reglugerðinni mátti ráðherra vera fullkunnugt að með þessari ákvörðun var hún að ákveða ögurstund.

Hugmyndafræði um litlar búsetueiningar má rekja til sjöunda áratugs síðustu aldar. Sú hugmyndafræði byggðist þá og byggist enn á því að með minni einingum skapast meiri nánd svo og að slíkar byggingar eru líklegri til að falla vel að öðru húsnæði í grenndinni en það er ein af forsendum skipulagslegrar samskipunar.

Margrar rannsóknir hafa verið gerðar, m.a. af Jan Tössebro sem er virtasti fræðimaður Norðurlanda í málefnum fólks með þroskahömlun, á áhrifum sem fjöldi íbúa í hverjum búsetukjarna hefur á ýmislegt sem máli skiptir fyrir lífsgæði, tækifæri og rekstur.  Niðurstaða þeirra rannsókna er á þann veg að það sé ekkert sem ótvírætt mælir með kjörnum sem séu með fleiri íbúum en það sé mjög margt sem mæli á móti stærri kjörnum, m.a. þau neikvæðu áhrif sem þeir hafa á sjálfsákvörðunarrétt íbúanna.

Nú er það svo að þessi  varnarbarátta fyrir litlum sjálfstæðum búsetukjörnum er ekki séríslensk. Annars staðar á Norðurlöndum, t.d. í Danmörku og Noregi, hefur þessi barátta við sveitarfélög sem líta allt of oft á hinar stóru lausnir sem eftirsóknarverðar staðið í nokkur mörg ár.

Útkoman þar er þannig, að stofnanir með tugum íbúða sem einvörðungu eru ætlaðar fólki sem þarf þjónustu sveitarfélagsins hafa risið, og verið flestum til lítillar ánægju og þ.m.t. ríkisvaldinu.

Eru vítin ekki til að varast?

Það að félags- og húsnæðisráðherra skuli ákveða að nú sé tímabært að  hnika frá reglum um hámarksfjölda íbúða í íbúðarkjörnum verður að skoða í því ljósi.

Vonandi verður sú ákvörðun ekki til þess að með tíð og tíma fjölgi ört og mikið slíkum húsnæðisúrræðum á vegum sveitarfélaga. Það væri mjög mikil öfugþróun og það gengi þvert gegn þeirri hugmyndafræði sem nú er viðurkennd í þjónustu við fatlað fólk. Sú hugmyndafræði er rauði þráðurinn í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólk sem íslenska ríkið hefur nú loks ákveðið að fullgilda og þar með skuldbundið sig til að fara eftir og hafa sem mælikvarða á öll lög, reglur, stjórnsýsluframkvæmd og þjónustu sem varðar fatlað fólk sérstaklega.  

Hugsum um það.

Friðrik Sigurðsson