Réttarbætur fyrir fatlað fólk.

Alþingi samþykkti í dag lög um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og lög um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna þessari lagasetningu því að með henni eru margvísleg mannréttindi fatlaðs fólks mun betur tryggð en í núgildandi lögum. Má þar nefna réttindi og vernd fatlaðra barna, rétt til sjálfstæðs lífs m.a. með notendastýrðri persónulegri aðstoð (NPA), réttinn til að að ráða búsetu sinni, skyldur stjórnvalda til samráðs við fatlað fólk og samtök sem standa vörð um réttindi og hagsmuni fatlaðs fólks, einstaklingsbundnar þjónustuáætlanir, rétt til frístundaþjónustu, kröfur til hæfni starfsfólks o.fl.

Í 1. gr. laganna sem hefur yfirskriftina Markmið eru mörg mjög mikilvæg ákvæði sem eiga að vera leiðarljós við framfylgd þeirra á öllum sviðum. Þar segir m.a. við framkvæmd laga þessara skal framfylgt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Hversu miklum ávinningi þessi nýju lög skila fyrir fatlað fólk og til að tryggja því mannréttindi og raunverulegt jafnrétti er mjög mikið undir því komið að stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga taki þessa skyldu sína til að hafa samninginn ávallt sem mælikvarða á það sem þau gera eða gera ekki mjög alvarlega.

Og það er ýmislegt annað gríðarlega mikilvægt í þessari markmiðsgrein laganna, s.s. um réttinn til sjálfstæðs lífs, þjónustu sem tekur mið af einstaklingsbundnum þörfum, samráðsskyldu stjórnvalda við fatlað fólk og hagsmunasamtök þess og réttinn til viðeigandi aðlögunar.

Greinin í heild hljóðar svo.: 

    Markmið laga þessara er að fatlað fólk eigi kost á bestu þjónustu sem unnt er að veita á hverjum tíma til að koma til móts við sértækar stuðningsþarfir þess. Þjónustan skal miða að því að fatlað fólk fái nauðsynlegan stuðning til þess að það geti notið fullra mannréttinda til jafns við aðra og skapa því skilyrði til sjálfstæðs lífs á eigin forsendum. Við framkvæmd þjónustu við fatlað fólk skal virðing borin fyrir mannlegri reisn þess, sjálfræði og sjálfstæði. 
    Þjónusta samkvæmt lögunum skal miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður viðkomandi, óskir og önnur atriði sem skipta máli, svo sem kyn, kynferði, aldur, þjóðernisuppruna, trúarbrögð o.fl. 
    Við framkvæmd laga þessara skal framfylgt þeim alþjóðlegu skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Þá skulu stjórnvöld tryggja að fatlað fólk, þ.m.t. hagsmunasamtök þess, hafi áhrif á stefnumörkun og ákvarðanir er varða málefni þess. Skal ákvarðanataka byggjast á viðeigandi aðlögun þar sem aðgerða er þörf svo að fatlað fólk fái notið réttinda sinna. Þegar fötluð börn og fjölskyldur þeirra eiga í hlut skal einnig framfylgja barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna lögum samkvæmt. 

Landssamtökin Þroskahjálp telja að með þessum nýju lögum sé komið gott tæki til að tryggja mannréttindi fatlaðs fólks miklu betur en nú er gert, til að auka lífsgæði þess og veita því ýmis tækifæri sem það fer nú allt of oft á mis við en flestir telja sjálfsögð í sínu lífi. Það mun þó ekki gerast nema ríkið og sveitarfélögin nýti þetta tæki eins og til er ætlast.

Landssamtökin Þroskahjálp skora því á stjórnvöld að sýna nú í verki vilja og metnað til að tryggja fötluðu fólki mannréttindi til jafns við aðra. Þroskahjálp mun fylgjast náið með því hver framkvæmd laganna verður og býðst nú sem fyrr til að koma að því mikilvæga verkefni með stjórnvöldum sem hafa kjark til að gera það sem rétt og skylt er,  þ.e. að forgangsraða í þágu mannréttinda.