Mikilvægt prófmál fyrir fatlað fólk og aðstandendur þess.

Mikilvægt prófmál fyrir fatlað fólk og aðstandendur þess.

 Í síðustu viku var flutt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur mál sem ung fötluð kona, móðir hennar og stjúpfaðir hafa höfað gegn Reykjavíkurborg og íslenska ríkinu.

Málavextir eru þeir að konan sem í hlut á er fötluð með þeim hætti að hún þarf nauðsynlega á þjónustu að halda allan sólarhringinn, alla daga ársins. Fái hún ekki þannig þjónustu getur það leitt til að lífi hennar og heilsu verði ógnað. Konan er fullorðin og býr í Reykjavík og á því sjálfstæðan rétt til þjónustu frá Reykjvíkurborg samkvæmt lögum. Þrátt fyrir þá lagaskyldu hefur Reykjavíkurborg ekki veitt henni fullnægjandi þjónustu í ljósi fötlunar hennar og mikillar þjónustuþarfar allan sólarhringinn alla daga ársins.

Á þeim sex árum sem málið nær til veitti Reykjavíkurborg konunni svonefnda skammtímavistun aðra hvora viku og svonefnda dagvistun á virkum dögum í 7,5 klst. Skammtímavistunin var þó ekki veitt hluta hvers sumars og ekki heldur á stórhátíðum og dagvistun einungis á virkum dögum og ekki í 4 vikur á hverju sumri. Þá var konan alltaf send heim til móður sinnar og stjúpföður þegar hún var veik sem gerðist oft þar sem heilsa hennar er ekki góð.

Af framansögðu má ljóst vera að fullnægjandi þjónusta er konunni ekki einungis nauðsynleg til að hún geti haft tækifæri til að njóta lágmarks lífsgæða, heldur er beinlínis um lífsnauðsynlega þjónustu að ræða.

Reykjavíkurborg hefur m.ö.o. neitað konunni um nauðsynlega þjónustu með þeim afleiðingum að móðir konunnar og stjúpfaðir hafa þurft að annast þjónustu við hana á þeim tímum sem þjónusta borgarinnar stóð henni ekki til boða.

Þetta hefur borgin gert þrátt fyrir að þessi fullorðna fatlaða kona hafi átt sjálfstæðan lagalegan rétt til fullnægjandi þjónustu frá Reykjavíkurborg og þrátt fyrir að Reykjavíkurborg hafi engan lagalegan rétt til, hvorki gangvart konunni né móður hennar og stjúpföður, að velta þessari þjónustuskyldu sinni yfir á móður hennar og stjúpföður, án samþykkis konunnar og þeirra og án þess að nokkur greiðsla hafi komið fyrir.

Með því að velta þannig þjónustuskyldum sínum gagnvart þessari fötluðu konu yfir á móður hennar og stjúpföður, án lagaheimildar og án samþykkis þeirra og án þess að greiðsla hafi komið fyrir, hefur Reykjavíkurborg brotið á lagalegum rétti þessarar fötluðu konu og rétti móður hennar og stjúpföður.

Þessi löglausa framkvæmd Reykjavíkurborgar hefur haft mjög miklar og margvíslegar íþyngjandi afleiðingar á líf þessa fólks, fjárhagslegar, félgslegar og tilfinningalegar. Afleiðingarnar hafa m.a. verið þær að móðir konunnar hefur ekki getað stundað vinnu þar sem hún hefur ávallt þurft að vera til taks til að veita dóttur sinni nauðsynlega þjónustu og þá hefur viðvarandi álag vegna þessa haft mjög skaðleg áhrif á heilsu hennar.

Í máli þessu reynir á sjálfstæðan lagalegan rétt fullorðins fatlaðs einstaklings til nauðsynlegrar þjónustu frá sveitarfélaginu þar sem hann býr í og hvort sveitarfélagi sé heimilt að velta lagalegri skyldu sinni til að veita þá þjónustu yfir á aðstandendur hans, án þess að fyrir liggi samþykki þess einstaklings sem í hlut og aðstandenda hans og án þess að greiðsla komi fyrir.

Hér er um mikilvægt prófmál að ræða sem getur haft mikið fordæmisgildi og þýðingu fyrir margt fatlað fólk og aðstandendur þess því að það er því miður mjög langt frá því að vera einsdæmi að sveitarfélög standi að málum með þessum hætti.