Diplómanám Myndlistaskólans í Reykjavík fyrir fólk með þroskahömlun. - Tækifæri til náms og listsköpunar sem má alls ekki glatast.

Diplómanám Myndlistaskólans í Reykjavík fyrir fólk með þroskahömlun. - Tækifæri til náms og listsköpunar sem má alls ekki glatast.

Það þarf ekki að hafa mörg orð um það hversu mikilvægt það er fyrir fólk með þroskahömlun og alveg sérstaklega ungmenni að hafa tækifæri til menntunar eins og annað fólk og önnur ungmenni. Því miður eru þau tækifæri þó allt of fá hér á landi.

Í íslenskum rannsóknum kemur fram að ungt fólk með þroskahömlun óskar eftir því að halda áfram námi að loknum framhaldsskóla og að þörf er á að auka aðgengi ungmenna með þroskahamlanir að námi á háskólastigi, þar með talið að listnámi.

Þess vegna er svo gríðarlega mikilvægt að diplómanám sem Myndlistaskólinn í Reykjavík hefur boðið upp á fyrir fólk með þroskahömlun haldi áfram.

Þetta nám byrjaði haustið 2015 og hefur tekist afskaplega vel, verið eftirsótt og hefur gefið mörgum ungmennum með þroskahömlun einstakt tækifæri til að þroska listsköpun sína, styrkja sjálfsmyndina og auka lífsgæði sín og tækifæri. Stjórnendur Myndlistaskólans og diplómanámsins eiga miklar þakkir skyldar fyrir framlag sitt, metnað og áhuga og þess vegna veitti Þroskahjálp þeim viðurkenningu sína, Múrbrjótinn, á síðasta ári.

Forsvarsmenn myndlistaskólans vilja endilega halda áfram að bjóða upp á diplómanámið en það eru blikur á lofti. Það skortir fé til að standa undir náminu. Við því verða stjórnvöld að bregðast strax. Miðað við þann mikla ávinning sem er af náminu og þau tækifæri og lífsgæði sem í húfi eru fyrir fólk með þroskahömlun eru það smáaurar sem stjórnvöld verða að leggja til.

Þá er óhjákvæmilegt að benda á að í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland fullgilti sl. haust og skuldbatt sig þar með til að virða og framfylgja er mikil áhersla á skyldur stjórnvalda til að tryggja fötluðu fólki jöfn tækifæri á við aðra og þar er sérstaklega tiltekið að þau skulu í því skyni gera virðeigandi ráðstafanir til að tryggja fötluðu fólki tækifæri til menntunar og þátttöku í menningarlífi. Í samningnum segir m.a.:

Aðildarríkin skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að fatlað fólk fái tækifæri til að þróa og nota sköpunargáfu sína og listræna og vitsmunalega getu, ekki einvörðungu í eigin þágu heldur einnig í því skyni að auðga samfélagið. 

Landssamtökin Þroskahjálp hafa óskað eftir að fá fund með mennta- og menningarmálaráðherra til að ræða m.a. diplómanámið og þau trúa því og treysta að ráðherra muni tryggja fjárhagslegan grundvöll þess til framtíðar.