Yfirlýsing vegna áætlunar Reykjavíkurborgar um uppbyggingu á íbúðum fyrir fatlað fólk 2018-2030

Yfirlýsing vegna áætlunar Reykjavíkurborgar um uppbyggingu á íbúðum fyrir fatlað fólk 2018-2030.

Landssamtökin Þroskahjálp fagna nýrri samþykkt borgarráðs Reykjavíkur um uppbyggingu húsnæðis fyrir fatlað fólk.

Mjög tímabært er að Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög standi við lagalegar skuldbindingar sínar til að gefa fötluðu fólki kost á að eignast heimili og þar með tækifæri til sjálfstæðs lífs og til að njóta einka- og fjölskyldulífs eins og annað fólk. Þau mannréttindi og skyldur stjórnvalda til að tryggja þau eru einnig sérstaklega áréttuð í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem íslenska ríkið hefur undirgengist.

Mjög margt fólk með þroskahömlun hefur beðið árum saman eftir húsnæði hjá Reykjavíkurborg og sumir hafa beðið 10-20 ár eftir því, þrátt fyrir brýna nauðsyn og skýran rétt samkvæmt lögum og mannréttindasamningum.

Þetta ástand er og hefur verið óásættanlegt með öllu og það hefur gert stöðu mjög margra sem í hlut eiga enn þá erfiðari að Reykjavíkurborg hefur ekki lagt fram neinar áætlanir um hvernig og hvenær borgin hyggist koma til móts við þá. Borgin hefur auk þess hafnað því að sveitarfélagið beri lagalegar og/eða mannréttindalegar skyldur  til að tryggja fötluðu fólk þessi réttindi innan ákveðins tíma. Þessi framkvæmd og þessi afstaða borgarinnar hefur leitt til að mjög margir hafa verið og eru enn í fullkominni óvissu um framtíð sína að þessu leyti og geta því ekki gert áætlanir um hvernig þeir vilja haga lífi sínu eins og annað fólk.

Landssamtökin Þroskahjálp treysta því að Reykjavíkurborg muni nú fara markvisst í að uppfylla lagalegar skyldur sínar til að veita fötluðu fólki stuðning til að það geti eignast heimili og muni veita því verkefni þann forgang sem borginni ber að gera þegar um mannréttindi er að ræða.

Samtökin skora jafnframt á Reykjavíkurborg að gera þeim einstaklingum sem í hlut eiga og aðstandendum þeirra svo skjótt sem verða má grein fyrir hvenær þeir geta treyst því að fá viðeigandi húsnæði í síðasta lagi, m.t.t. þess að uppbyggingaráætlun borgarinnar er til 12 ára þ.e. frá árinu 2018 til ársins 2030. Þetta er langur tími og og sú aðferð sem borgin hefur viðhaft hingað til að láta fólk bíða í fullkominni óvissu um hvenær það fær rétt sinn til húsnæðis uppfylltan er ekki aðeins mjög tillitslaus gagnvart þeim sem í hlut eiga og óvirðing við þá, heldur samræmist hún vægast sagt mjög illa stjórnsýslureglum og góðum stjórnsýsluháttum.