Vegna umræðu um frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

Vegna umræðu um frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir.

 Alþingi hefur að undanförnu haft til meðferðar tvö lagafrumvörp sem hafa, ef þau ná fram að ganga, mikil áhrif á réttindi og hagsmuni fatlaðs fólks, þ.e. frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfir og frumvarp um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Í opinberri umræðu og umfjöllun fjölmiðla um þessi frumvörp hefur þó gætt verulegs misskilnings. Að því gefna tilefni og  í trausti þess að fólk vilji í þessu eins og öðru hafa það sem sannara reynist vilja Landssmtökin Þroskahjálp koma eftirfarandi á framfæri.

Lagafrumvörpin tvö voru byggð á skýrslu og tillögum starfshóp sem félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði í febrúar 2014. Starfshópurinn var undir formennsku Willums Þórs Þórssonar, alþingismanns og áttu sæti í starfshópnum fulltrúar frá velferðarráðuneyti, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Akureyrarbæ,  samtökum félagsmálastjóra, Rauða krossinum, Hjálparstarfi kirkjunnar, Landssambandi eldri borgara, Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp. Starfshópurinn hélt fjölmarga fundi. Drög að frumvörpunum voru kynnt og kallað eftir athugasemdum við þau á heimasíðu velferðarráðuneytisins 1. júlí 2016, Starfshópurinn fjallaði um fram komnar athugasemdir og gerði nokkrar breytingar á frumvarpsdrögum á grundvelli þeirra. Starfshópurinn skilaði skýrslu sinni í október 2106 og voru drög að frumvörpunum birt og kynnt á heimasíðu velferðarráðuneytisins í lok þess mánaðar.

Verkefni starfshópsins var m.a. að vinna að fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og lagði fulltrúi Þroskahjálpar í starfshópnum mikla áherslu að réttindi sem tryggð eru í samningnum og falla innan gildissviðs laganna, yrðu sem best tryggð í lögunum og telja samtökin að mjög margt sem miklu skiptir í því sambandi sé að finna í frumvarpinu.

Sá misskilningur hefur hins vegar verið áberandi og nú síðast í fréttum sem birtust í gær í Fréttablaðinu, Morgunblaðinu, RÚV og fleiri fjölmiðlum, að með frumvarpi um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsaþarfir sé verið að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Í því sambandi skal áréttað að umrædd lög eru þjónustulög sem ná til tiltekinnar þjónustu við afmarkaða hópa. Hér er ekki um heildstæð réttindalög að ræða fyrir allt fatlað fólk, þó að fullt tilefni og þörf sé fyrir að setja þannig lög svo skjótt sem verða má.

Í þessu  sambandi verður einnig að hafa í huga að þessi mikilvægi mannréttindasamningur nær til flestra sviða samfélagsins og eru mörg þeirra utan við gildissvið ofangreindra laga. Tekið skal fram að Landssamtökin Þroskahjálp telja að það eigi að lögfesta samninginn til að tryggja fötluðu fólki sem best öll þau mannréttindi sem hann tekur til og á öllum þeim sviðum sem hann nær til og hafa samtökin komið þeirri skoðun sinni og rökum fyrir henni skýrt og skilmerkilega á framfæri við Alþingi, hlutaðeigandi ráðherra og önnur stjórnvöld.

Eitt af því sem er að finna í frumvarpinu um þjónustu við fatlað fólk eru lagaákvæði varðandi notendastýrða persónulega aðstoð (NPA). Það er mjög mikilvægt að þetta þjónustuform sem hentar mörgum og bætir mjög tækifæri þeirra til sjálfstæðs lífs, þátttöku í samfélaginu og öll lífsgæði verði lögfest. Í því sambandi er afar mikilvægt að í lögunum verði tryggt með skýrum hætti að börn geti notið þessarar þjónustu.

Sá misskilningur hefur þó verið áberandi í opinberri umræðu og nú síðast í  fyrrnefndum fréttum að frumvarpið fjalli nánast eingöngu um NPA. Í frumvarpinu er kveðið á um fjölmörg önnur atriði sem miklu skipta fyrir þjónstu við fatlað fólk og réttindi þess, s.s. stoðþjónustu, búsetu, notendasamninga, þjónustu við fötluð börn og fjölskyldur þeirra, snemmtæka íhlutun, frístundaþjónustu, skammtímadvöl, þjónustuteymi, samþættingu þjónustu, stjórnsýslu, eftirlit og ýmislegt fleira.

Þroskahjálp telur að ef frumvarp þetta verður að lögum eins og það liggur fyrir verði réttindi fatlaðs fólks mun betur tryggð í lögum en þau eru samkvæmt núgildandi lögum. Samtökin hafa þó í umsögn sinni um frumvarpið og á fundi með velferðarnefnd Alþingis vakið athygli á nokkrum atriðum sem mikilvægt er að hugað verði að.

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvörpin má nálgast á eftirfarandi hlekkjum:

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningsþarfirmá lesa hér

Umsögn Landssamtakanna Þroskahjálpar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga með síðari breytingum innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, stjórnsýsla og húsnæðismál má lesa hér