Umsagnir og álit Þroskahjálpar og samráð við stjórnvöld.

Þroskahjálp hefur ýmiss konar samstarf og samráð við hlutaðeigandi stjórnvöld ríkis og sveitarfélaga og tekur þátt í starfi nefnda og hópa sem stjórnvöld skipa. Samtökin reyna þar, eins og og nokkur kostur er, að hafa áhrif til þess að lög, reglur, stjórnsýsla og þjónusta verði sem best sniðin að þörfum fatlaðs fólks og tækifærum þess til sjálfstæðs lífs og þátttöku í samfélaginu. Í þeirri réttinda- og hagsmunagæslu byggja samtökin mjög mikið á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem Ísland hefur fullgilt og þar með skuldbundið sig til að virða og framfylgja.

Í samningnum er m.a. lögð mikil áhersla á skyldu stjórnvalda til að hafa samráð við fatlað fólk og samtök sem vinna að réttinda- og hagsmunamálum þess. Þar segir: 

Þegar aðildarríkin undirbúa löggjöf sína og stefnu við að innleiða samning þennan og vinna að því að taka ákvarðanir um stöðu fatlaðs fólks skulu þau hafa náið samráð við fatlað fólk og tryggja virka þátttöku þess,  þar með talið fatlaðra barna, með milligöngu samtaka sem koma fram fyrir þess hönd. 

Þá sendir Þroskahjálp Alþingi, ráðuneytum og sveitarfélögum margvíslegar umsagnir, álit og ábendingar um lög, reglur, stjórnsýslu og framkvæmd þjónustu og bendir á það sem betur þarf að fara. Í þessum mánuði hafa samtökin t.a.m. sent frá sér þessar umsagnir um lög og þingsályktanir sem Alþingi er með til meðferðar og mál sem stjórnvöld vinna að:

  • Frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar stuðningaþarfir.
  • Frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.
  • Þingsályktunartillaga um stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.
  • Frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  • Þingsályktunartillaga um fjármálaáætlun.
  • Frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna.
  • Þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.
  • Bréf til dómsmálaráðherra varðandi sanngirnisbætur og fleira því tengt.

Þessar og aðrar umsagnir og álit Þroskahjálp má nálgast undir flipanum „Umsagnir og álit“ á heimasíðu samtakanna: 

sjá hér